20.12.1947
Efri deild: 43. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Út af þeirri aths., sem hv. þm. Barð. gerði við síðustu brtt., sem komið hefur fram varðandi 14. gr., sem hljóðar svo í frv.: „Nú stundar forsjármaður heimilis atvinnu fjarri heimili sínu“ og með brtt. er þannig breytt, að þar komi í staðinn: Nú stundar maður atvinnu fjarri heimili sínu —, þá vil ég taka það fram, að það er fyrst og fremst átt við þá, sem fara frá heimili sínu til sjós eða annað, þar sem menn vinna um langan eða skamman tíma, en eru þó ekki heimilisfastir. Og ég held, að það sé ákaflega hæpin skýring, sem hv. þm. Barð. gaf á þessu atriði. Ef þessi undanþága er sanngjörn gagnvart forsjármanni heimilis, þá getur hún verið það í flestum öðrum tilfellum gagnvart þeim, sem líkt stendur á fyrir, þó að þeir séu ekki forsjármenn heimilis. Með forsjármanni heimilis er átt við húsbónda. Ég sé ekki, að nein stórhætta stafi af því, þó að sú brtt., sem síðast kom fram, verði samþ.

Þá vildi ég með örfáum orðum minnast á það, að í II. kafla, um eignaraukaskattinn, segir svo: „Eignaraukaskattur allra samvinnufélaga svo og félaga og einstaklinga, sem hafa sjávarútveg að aðalatvinnurekstri, reiknast þannig“ — eins og þar segir. Ég vildi leggja í þetta þann skilning, að með þessum orðum sé átt einnig við þau fyrirtæki, sem vinna úr sjávarafurðum, og á ég þar fyrst og fremst við hraðfrystihúsin og hliðstæð fiskiðjufyrirtæki, sem vinna úr sjávarafurðum, og ég lít svo á, að það beri að skilja þetta þannig.

Í fiskábyrgðarkaflanum er ekki minnzt á tvær tegundir, sem geta þó haft talsverða fjárhagslega þýðingu, það er hrogn og fiskþunnildi. Á þessu ári varð ákaflega litið úr hrognum hjá útvegsmönnum, og skal ég ekki um það dæma, hvaða ástæður hafa að því legið. En það er mjög nauðsynlegt fyrir þá, sem framleiða þessa vöru, að að því sé stuðlað eftir megni, að þau séu gerð verðmæt, jafnvel þó að maður hafi ekki treyst sér til að taka ábyrgð á vissu verði fyrir þau. Sama má segja um fiskþunnildin, sem til falla hjá hraðfrystihúsunum. Þau geta gefið, ef rétt er að farið, drjúgan skilding, en þau eru vitaskuld ekki hvarvetna seljandi, heldur á vissum stöðum.

Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur farið fram á það í bréfi, sem hv. fjhn. var sent og er dagsett 18. des. 1947, að ýmsar lagfæringar væru gerðar hraðfrystihúsaeigendum í hag á þessu frv. Og þar var minnzt á tvær vörutegundir, hrogn og fiskþunnildi, og óskað eftir því, að þeir mættu sjálfir verzla með þessar vörur, ef þeir gætu. Það er nú því miður ekki hægt, eins og gildandi reglur eru um slíka hluti í landinu, að verða við óskum þeirra. En við höfum, athugað þetta mál í ríkisstj., og það varð að samkomulagi að gera það, sem hægt er, af hálfu ríkisstj., til þess að eigendur þessara vara geti komið þeim í peninga, og ef svo ber undir með því að selja þær til svo kallaðra vöruskiptalanda gegn greiðslu í vörum. En ef sá háttur verður á hafður, þá yrði það vitaskuld að vera þannig, að viðskiptan. hefði með þær vörur að gera eins og aðrar vörur, sem fluttar eru til landsins, og mættu fyrir því hraðfrystihúsunum eða hverjum öðrum, sem ættu vörurnar, verða að því full not. Þetta vildi ég taka fram til þess að sýna lit á því, hvað þessar vörur snertir, að verða við óskum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna eins og fært þykir.

Að öðru leyti hafa ýmsar óskir borizt frá sölumiðstöðinni, og þær brtt., sem hv. fjhn. ber fram, sýna þann vilja ríkisstj. og n., sem fyrir hemli hefur verið til þess að mæta óskum sölumiðstöðvarinnar. Eins og vænta má, þá hefur ekki verið hægt að fallast á allt, sem þar hefur verið farið fram á, en ég vil vona, að það, sem hér hefur verið gengið til móts við þessa mjög svo mikilsverðu framleiðendur í landinu, megi verða þeim léttir í starfi og auðvelda fjárhagslega afkomu þeirra.

Ég held, að ég hafi ekki ástæðu til að svo komnu máli að orðlengja um þetta frekar, og út í umr. um málið sjálft tel ég á þessu stigi málsins ekki ástæðu til að fara, nema sérstakt tilefni gefist til við þessa umr. Þau gáfust mörg við 2. umr., en ég taldi ekki ástæðu til þess að tefja störf þingsins með því að fara út í almennar umr. um málið, með því að það var gert við 1. umr., eins og kunnugt er.