12.02.1948
Efri deild: 60. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í C-deild Alþingistíðinda. (2774)

66. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Björn Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. gat þess, að afstaða mín til þessa máls væri nú nokkuð önnur en í fyrra, og er það rétt. Það var, ef mig minnir rétt, árið 1943 eða 1944, að mþn. í sjávarútvegsmálum sat að störfum: Hún gerði það að till. sinni, að ríkið léti byggja á tilteknum stöðum hafnir, sem kölluðust landshafnir. Lá á bak við þetta sú hugmynd, að þar, sem fiskimið væru góð, en ekki möguleikar til framkvæmda, þar eigi þjóðarheildin að leysa vandann. Hafi þessi skoðun verið rétt þá, skilst mér, að þörfin sé enn meir aðkallandi nú, þegar fiskiskipaflotinn hefur aukizt eins mikið og raun ber vitni. Hér við Faxaflóa eru orðin mikil þrengsli í höfnum og eins á fiskimiðunum, sem mjög eru takmörkuð fyrir svo stóran flota, og er því nauðsynlegt að nota jafngóð fiskimið annars staðar, og finnst mér því álit mþn. alveg rétt.

Einn af þeim stöðum, þar sem góð mið eru úti fyrir, en engin fjárhagsleg geta í héraði, er Þórshöfn. Því flutti ég frv. á þinginu 1945 um landshöfn þar. Þá var og borið fram frv. um landshöfn í Hornafirði, og voru bæði málin afgreidd með rökst. dagskrá og þar lagt fyrir ríkisstj. að láta rannsaka málið, á hvaða stöðum byggja ætti landshafnir og í hvaða röð. Ég treysti því, er rökst. dagskráin var samþ., að þetta yrði gert. Og þegar frv. um landshöfn í Hornafirði var flutt að nýju, beið ég með frv. um landshöfn í Þórshöfn og fylgdi ekki frv. um Hornafjörð, því að ég vildi bíða eftir gerðum ríkisstj. í málinu. Ég var því aldrei andvígur málinu í sjálfu sér, eins og ég mun hafa tekið fram við atkvgr. um það í fyrra. — Nú horfir málið hins vegar svo við, að rannsóknir eru að mestu ógerðar. Þó hefur verið gerð framhaldsrannsókn í Hornafirði, en engin á öðrum stöðum, og þegar svo langur tími var liðinn í aðgerðaleysi, sá ég ekki ástæðu til að draga það að flytja frv. mitt, né heldur að vera á móti frv. um landshöfn í Hornafirði.

Þá er önnur ástæða fyrir því, að ég nú styð þetta frv., en hún er sú, að í fyrra var gert ráð fyrir að byggja líka stór fiskiðjuver, sem orðið hefðu mjög dýr. Nú er þetta fellt úr, og er því um minni kostnað að ræða.

Mér þótti rétt að geta þessa, svo að sjást megi, að það er ekki að ástæðulausu, að ég hef aðra afstöðu til málsins en í fyrra. Að öðru leyti vildi ég segja um Hornafjörð, að þar eru mjög góð fiskimið, sem ekki notast án hafnarbóta á staðnum, og er þetta því mjög aðkallandi, að hafizt verði þar handa um hafnarmannvirkjagerð. Sama máli gegnir um Þórshöfn, og má ekki láta þau fiskimið vera ónotuð, og er því nauðsynlegt. að ríkið hefji þar framkvæmdir. — Ræðu hv. frsm. meiri hl. hefur þegar verið svarað af öðrum, og læt ég því hér við sitja.