16.02.1948
Efri deild: 62. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í C-deild Alþingistíðinda. (2935)

155. mál, húsaleiga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Hv. Þm. Seyðf. átti að hafa framsögu um mál þetta, en þar sem hann er ekki viðstaddur, hleyp ég í skarðið fyrir hann.

Það hafa komið fram margar óskir um að taka húsaleigul. til athugunar og ýmislegt er það í þeim, sem menn vilja breyta, og sumir vilja jafnvel láta afnema þau. N. hefur athugað þetta, og meiri hl. hennar hefur samþ. að flytja brtt. Aðalefni hennar er að heimila húseigendum að segja upp leigjendum.

Ríkisstj. skipaði nefnd manna til þess að taka húsaleigul. til athugunar og koma fram með breyt., sem til bóta mættu verða. Í nefnd þessari voru 3 menn, þeir Baldvin Jónsson hdl., Egill Sigurgeirsson hrl. og Gunnar Þorsteinsson. Þessi n. mun hafa skilað áliti fyrir hartnær tveimur árum og komið með ýmsar brtt. Hæstv. ríkisstj. hefur ekkert gert í málinu og takmarkað aðgang að áliti nefndarinnar. Ég hef litið yfir það nál. í góðu tómi og tel, að sjálfsagt sé, að almenningur fái að sjá það.

Hvort tveggja er, að langt er síðan ég leit á nál. þetta og að ég leit á það þá sem trúnaðarmálefni, og mun ég ekki vitna í það að svo stöddu en tel, eins og ég hef áður sagt, að almenningur og þm. eigi að fá að sjá það og mun þá koma í ljós, hvort almannarómur er réttur eður eigi, en almennt er talið, að ekki séu meira en 2/5 leigjenda, sem búi í sömu íbúðum og fyrir stríð, en ís hafi flutt á þeim tíma. Ekki er vitað, hvað margir af þessu eru húseigendur og hvað margir leigjendur, en hægt að sjá, að mestur hlutinn hefur flutzt síðan fyrir stríð. Þá er það og vitað, að húsaleigun. hefur leyft of háa húsaleigu og mun hægt að koma með dæmi um það, að húseigendur hafi látið ný hús borga sig á 6 árum með því að leigja þau. Af þessu sést, að húsaleigunni hefur ekki verið haldið niðri eins og skyldi.

Þá liggur það einnig fyrir, að þegar borið er saman annars vegar hið aukna húsnæði. sem skapazt hefur við byggingu fjölmargra nýrra húsa og hins vegar fólksfjöldinn, þá er húsnæðið tiltölulega meira en áður var. Menn hafa látið sér detta í hug að afnema húsaleigul. þau, sem nú gilda. Ég fyrir mitt leyti hygg, að þau minnki fremur framboð á húsnæði en auki það og eru til mörg dæmi um það, en ég vil hér aðeins nefna eitt. Maður nokkur kom heim frá útlöndum eftir 6 ára dvöl ytra. Hann vantaði íbúð en þrátt fyrir það að lausar íbúðir voru fyrir hendi, fékk hann hvergi leigt. Menn hugsuðu sem svo: „Ef ég nú hleypi honum inn í íbúðina, losna ég ekki við hann, þótt ég kunni að vilja það.“ Það fyrirkomulag, sem nú gildir í þessu, leiðir auk þess iðulega til óþæginda og ósamkomulags, vegna þess að fólk á ekki skap saman og getur ekki í neinu samið sig hvert að öðru. Komið hefur fyrir, að orðið hefur að fá fógetavald til þess að opna klósett og annað það, sem íbúar húsa hafa átt að hafa sameiginlega. T. d. varð einu sinni að fá fógetavald til þess að ná í eina sultukrukku inni í geymslu, sem húseigandinn vildi ekki lána leigjandanum lykil að.

Ég hefði talið sjálfsagt, að gengið væri lengra en gert er með þessu frv., en ég hygg að það sé aðeins fyrsta sporið í rétta átt. T. d. hygg ég, að rétt væri að heimila bæjar- og sveitarfélögum að ákveða, hvort húsaleigul. skuli gilda í umdæmum þeirra eða ekki. Nú er mér kunnugt um, að eftir að álit mþn. þessarar lá fyrir, þá hafði ráðuneytið mál þetta til meðferðar, og fulltrúi í ráðuneytinu stakk upp á breytingum, sem í sumu gengu lengra en frv. það, sem hér liggur fyrir, en í sumu einnig skemmra. Ég leyfi mér að vænta þess, að hæstv. ráðh. skýri þetta, og væntanlega les hann einnig úr áliti mþn. Þegar litið er á það nál., verður að hafa það í huga, að síðan það var gefið út, hafa bætzt við margar nýjar íbúðir.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar að sinni, en vil benda á það, að frv. er flutt af meiri hl. n., og ég tel rétt að vísa því aftur til n., svo að n. öll fái athugað það sameiginlega. þrátt fyrir það að það komi frá n. Sérstaklega tel ég það nauðsynlegt vegna þess, að vænta má, að fram komi nokkrar brtt. Ég vil svo mælast til þess fyrir munn n. — og ég vona fyrir munn allra þm.hæstv. félmrh. geri nál. mþn. þeirrar, sem ég hef hér minnzt á, kunnugt.