16.02.1948
Efri deild: 62. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í C-deild Alþingistíðinda. (2936)

155. mál, húsaleiga

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Rétt áður en ég fór utan, var ég á fundi með hv. félmn. og vissi, að hún hafði þá húsaleigul. til meðferðar. Félmrn. hafði þá haft þessi sömu l. til mjög gaumgæfilegrar athugunar, en taldi sig ekki þá þegar reiðubúið til að leggja fram till. um gagngerðar breyt. á l. þessum, og ég hygg að þegar um jafnþýðingarmikið og viðkvæmt mál er að ræða, þá verði að fara gætilega í sakirnar, ef ekki á að skapast glundroði og óánægja.

Ég skal geta þess, eins og kom fram hjá hv. frsm., að skipuð var mþn. 28. ágúst 1946 til þess að athuga húsaleigul. gaumgæfilega og kynna sér ýmislegt í sambandi við þetta mál. Í n. þessa voru skipaðir þeir Baldvin Jónsson hdl., Egill Sigurgeirsson hrl. og Gunnar Þorsteinsson hrl. N. þessi starfaði lengi og viðaði að sér miklum og merkilegum gögnum og skilaði svo af sér mikilvægu áliti, greinargerðum og fylgiskjölum. N. varð sammála um, að stefna bæri að því að afnema húsaleigul. svo fljótt sem auðið er, en klofnaði svo um, hvenær ætti að framkvæma það. Minni hl. (Gunnar Þorsteinsson) vildi, að l. yrðu afnumin 14. maí 1948. en meiri hl. (Baldvin Jónsson, Egill Sigurgeirsson) taldi það ekki tímabært. Ég er sammála hv. frsm. um það, að sjálfsagt sé að láta félmn. þessarar hv. d. nál. það, sem hér er um að ræða, í té, og ég vil strax taka það fram, að ég er honum einnig sammála um að senda frv. þetta að þessari umr. lokinni aftur til n., svo að hún fái athugað það sameiginlega. Gerðar munu ráðstafanir til, að n. fái eintak af nál., og einnig nauðsynlegt, að ráðherrarnir, fasteignan. og þm. fái þetta nál. til gaumgæfilegrar athugunar, svo að það verður að sjálfsögðu fjölritað eða prentað á næstunni. Hins vegar þótti ekki rétt að gera þetta nál. opinbert áður en ráðuneytið og Alþ. höfðu kynnt sér það.

Ég skal nú lesa nokkurn kafla úr niðurstöðu meiri hl. mþn., en hana skipa, eins og áður er sagt, þeir Baldvin Jónsson og Egill Sigurgeirsson. Þeir segja svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er skoðun okkar, að stefna beri að því að afnema núgildandi húsaleigulöggjöf eins fljótt og kostur er á, þó að ekki verði sagt með vissu, hvernig því verði komið í kring, enda verða hlutaðeigandi aðilar að taka ákvörðun á hverjum tíma á grundvelli þeirra upplýsinga, sem fyrir liggja í húsnæðismálunum. Við viljum benda á, að húsaleigulöggjöf sú, sem gilti í fyrra stríði, var ekki afnumin fyrr en 14. maí 1927.“ Svo heldur meiri hl. áfram og segir:

„Breyting á lögum þessum gæti talizt áfangi á leið til að afnema þau. Sérstaklega viljum við benda á eftirfarandi:

1. Að bæjar- og sveitarstjórnum verði veitt heimild til þess að ákveða, hvort ákvæði laganna skuli gilda í umdæmum þeirra eða ekki.

2. Að leigusala sé heimilt að segja upp leigðu húsnæði vegna fleiri skyldmenna heldur en nú er, t. d. systkina.

3.Tími sá er leigusali hefur eignazt hús það, er íbúðin er í, sem sagt er upp, verði færður fram, t. d. til 1. jan. 1943, 1. jan. 1944, o. s. frv., eftir því hvað langt væri talið fært að ganga.

4. Einstök herbergi, er leigusali leigir út frá íbúð sinni, verði tekin undan ákvæðum laganna.

5. Verzlunar- og skrifstofuhúsnæði verði tekið undan ákvæðum laganna.

6. Húsaleiguvísitala verði endurskoðuð og um leið athugaðir möguleikar á því að leyfa hækkun á gamalli leigu.“

Þetta er niðurstaða meiri hl. n. En í álitinu er líka tekið fram, að afnema beri l., þegar hlutverki þeirra er lokið, og að það hafi aldrei verið ætlunin, að þau giltu endalaust. Ég er alveg sammála n. í því að stefna beri að því að afnema húsasaleigul. í þeirri mynd, sem þau nú eru. En hitt tel ég vafasamt, að hægt sé að gera allar þær breyt., sem n. leggur til án þess að það skapi glundroða í húsnæðismálunum og leiði til þess að gera ástandið verra en það nú er.

Þá vil ég geta um álit minni hl. n., Gunnars Þorsteinssonar hrl. Hann leggur til að lokum í sínu áliti:

1. Að ákvæði verði sett í 1., að þau skuli falla úr gildi 14. maí 1948.

2. Að allt atvinnuhúsnæði verði gefið frjálst.

3. Að einhleypingsherbergi verði gefin frjáls.

4. Að uppsagnarfrestur leigusala verði rýmkaður þannig að í stað orðanna „brýn þörf“ í 1. gr. laganna kom orðið „þörf“, að uppsagnarrétturinn nái til fleiri vandamanna t. d. systkina, og eignarhaldsskilyrði 9. sept. 1941 verði fært til 1. jan. 7.947.

5. Að það ákvæði verði sett í lögin að ef leigutaki ekki noti íbúðarhúsnæði til íbúðar í 3 mán., hafi hann fyrirgert leigurétti.

6. Að fyrirstríðsleiga verði hækkuð um a. m. k. 100% eða jöfnuði komið á alla húsaleigu, þannig að sama leigugjald komi fyrir sambærilegt leiguhúsnæði.

Eins og þm. hafa nú heyrt, þá er ágreiningur um það í n., hvaða ráðstafanir eigi að gera. Meiri hl. n. vill smávægilegar breyt. á 1. að þessu sinni, vegna þess að hann telur ekki tímabært að afnema þau nú þegar, en hins vegar er minni hl. á annarri skoðun. Þessi mál hafa verið til athugunar í félmrn., en ekki þótti rétt, að ríkisstj. kæmi nú með till. um breyt. á l., heldur var kosið að athuga málið nánar og hafa í því sambandi samráð við fasteignaeigendafélag Reykjavíkur og húsaleigun., og fól ég skrifstofustjóra félmrn. að gera till., sem samkomulag gæti ef til vill náðst um. Þessi tilraun var gerð, en samkomulag náðist ekki. Stjórn fasteignaeigendafélagsins vildi ekki ganga skemmra en það frv. gerir ráð fyrir, sem hér liggur fyrir, en hins vegar taldi húsaleigun., að ekki væri rétt að hrófla við húsaleigul. á þessari stundu. En þrátt fyrir þessa afstöðu húsaleigun. hygg ég, að hún geri sér ljóst, að þessi l. eiga ekki að gilda um aldur og ævi, heldur falla úr gildi, áður en langt um líður. Í sambandi við þessa athugun á húsaleigul. lét félmrn. rannsaka, hvort verulegar breyt. hefðu orðið í húsnæðismálunum hér í Reykjavík síðustu ár, því að í Reykjavík hafa ákvæði húsaleigul. mest áhrif. Við þessa athugun kom í ljós, að þrátt fyrir margar og miklar byggingar í Reykjavík á síðustu árum og tiltölulega miklu meira en íbúatala bæjarins hefur aukizt, þá hefur lítið raknað úr húsnæðisvandræðunum. Þetta stafar meðal annars af því, að allmikill fjöldi fólks er hér í bænum án þess að vera skrásettur hér. Íbúatala bæjarins er því nokkuð meiri en skrásetningin segir til um. En auk þess hefur bætt afkoma almennings gert það að verkum, að fjöldi manns hefur nú miklu stærri og betri íbúðir en áður, og má segja, að það sé vel farið, a. m. k. ef allir geta haft viðunandi húsnæði. Ég vil geta þess í þessu sambandi, að við, sem höfum fylgzt með verkamannabústöðunum, höfum orðið greinilega varir við þetta, því að á árunum 1930–'39 óskuðu flestir eftir 2 herbergja íbúðum, því að þeir treystu sér ekki til að ráða við meira, en nú óska menn undantekningarlítið eftir 3 herbergja íbúðum, og margir vilja hafa þær stærri. Það er gleðiefni, ef menn geta haft rúmgóðar íbúðir, en þurfa ekki að hírast í þröngum kytrum. En niðurstaðan er sú, að þrátt fyrir aukinn húsakost hér í Reykjavík eru enn húsnæðisvandræði, bæði er fólk húsnæðislaust og verður að flýja í skjól hjá sínum nánustu og auk þess er það staðreynd, að margar fjölskyldur verða að búa í bröggum. Ég vildi aðeins láta þessar upplýsingar koma fram og endurtaka það, að ríkisstj. er ekki reiðubúin að leggja fram till. í þessu máli, en hins vegar er málið í athugun annars staðar. Mér er ánægja að láta n., sem um þetta mái fjallar, hafa allar þær upplýsingar, sem hún kynni að óska eftir og félmrn. getur í té látið. En auk þess vil ég benda n. á. að heppilegt væri að leita umsagnar bæjarráðs Reykjavíkur, því að þeir aðilar hafa mesta reynslu af kostum og göllum þessara laga.

Að lokum vil ég svo taka það fram, að ég treysti mér ekki til að mæla með því frv., sem hér liggur fyrir, af þeim ástæðum, er ég nú hef rakið.