20.02.1948
Efri deild: 66. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í C-deild Alþingistíðinda. (2945)

155. mál, húsaleiga

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Frá því að ég í upphafi þessarar umr. fór nokkrum orðum um mál það, sem hér liggur fyrir, hafa orðið allmiklar og harðar umr. Tel ég, að ég verði að segja nokkur orð varðandi sumt af því, sem komið hefur fram í þeim. Hv. þm. Barð. átaldi það, að ríkisstj. hefði ekki lagt fram sérstakt frv. um breyt. á húsaleigul. með tilliti til starfs og niðurstöðu mþn. þeirrar, sem skipuð var 28. ágúst árið 1946. Nú veit hv. þm. Barð. það vel, að ríkisstj. þótti ekki rétt að svo stöddu að taka sérstaklega fram till. mþn. þessarar, enda voru till. meiri hl. n. mest ábendingar og upplýsingar, svo að tilgangurinn hefði alls ekki náðst með því. Úr því að ráðuneytið var sammála um að gera nánari athugun á máli þessu, þá þótti því ekki tímabært að fara strax út í mikilvægar breyt., áður en málið hefði verið athugað til hlítar. Með þessu er í rauninni svarað ræðu hv. 4. landsk. um afstöðu ríkisstj. til þessa. Ég þóttist hafa skýrt þessa afstöðu stjórnarinnar þegar í upphafi þessarar umr., og einnig lýsti ég því yfir þá, að mér fyndist að svo stöddu ekki rétt að samþykkja frv. það sem hér liggur fyrir. Þetta var það, sem ég vildi taka fram út af ræðum þeirra hv. 4. landsk. og hv. þm. Barð. Ég sé ástæðu til að minnast lítils háttar á ræðu hv. þm. Str., en ég sé, að hann hefur gengið út og vildi ég, að hann yrði látinn vita um það, en ég get drepið á það strax, að fram hefur komið hér hjá ræðumönnum að fyrir lægju skýrslur og upplýsingar um, hve mikill hluti af leigjendum hefði flutt, frá því að húsaleigul. voru sett. Um þetta skal ég ekkert fullyrða.

Eins og áður hefur komið fram, þá lét stjórn Fasteignaeigendafélags Reykjavíkur gera rannsókn á því, hvernig háttað væri húsnæði í nokkrum götum bæjarins. Í fyrsta lagi er það óvarkárlegt að ætla að reikna húsnæði í öllum bænum eftir 2–3 götum, og í öðru lagi veit ég ekki, hvort treysta má því, að þessi rannsókn sé óvéfengjanleg. Félag, sem hefur ákveðna skoðun á málinu, er ef till vill ekki rétti aðilinn til að gera slíka rannsókn. (GJ: Hvers vegna lét ríkisstj. þá ekki framkvæma þessa rannsókn?) Ríkisstj. hefur ekki getað það, en það má vera, að hún geti það síðar, þótt örðugt sé að framkvæma, svo öruggt megi teljast.

Ég veit, að hv. þm. Barð. og hv. þm. N-M. eru ákveðnir menn og athafnasamir, en vera má að þeim, sem vilja byggja á einhverjum föstum grundvelli í þessum efnum, finnist ekki eins auðvelt að afla óyggjandi upplýsinga varðandi autt húsnæði eins og þessir hv. þm. vilja vera láta.

Hv. þm. Str. taldi einn mesta ágallann á núverandi ástandi í húsaleigumálunum vera þann, að í rauninni gilti tvöföld húsaleiga, þ. e. a. s. húsaleigan væri mjög mismunandi há. Víst er það rétt hjá hv. þm., að mismunur er mikill á leigunni. Í því sambandi má fyrst og fremst benda á það, að í nýju húsunum eru að jafnaði miklum mun meiri þægindi og þau að ýmsu betur búin en þau gömlu, og þess vegna ekki undarlegt, þótt krafizt sé hærri leigu fyrir þau. Það er vitað, að kostnaður við húsbyggingar hefur 5–7-faldazt síðan fyrir stríð, en af því leiðir, að það er ekki hægt að láta nægja sömu leigu og í gömlum húsum. Hér skapast því misræmi, sem hlýtur að koma í ljós í mismunandi húsaleigu, eins og þm. Str. réttilega tók fram. Hitt get ég ekki fallizt á, að það eigi að jafna þetta ósamræmi með því að hækka leiguna í gömlu húsunum og láta eigendur þeirra hirða óeðlilegan gróða og sízt af öllu teldi ég æskilegt að lögvernda slíkan gróða. Enn fremur má á það benda, að það er ekki eðlilegt, að leiga í gömlu. þægindasnauðu húsnæði sé eins há og leiga í nýtízku húsi með öllum nútíma þægindum. Annars get ég fallizt á, að það sé æskilegt að samræma betur leigu á húsnæði, en þó að það væri hægt, þá gengur þetta frv. ekki neitt í þá átt. Frv. heimilar aðeins húseigendum að segja upp leigjendum. en á misréttið mikla. sem þm. Str. var að tala um, er ekkert minnzt. Það þarf nýjar leiðir til þess að leiðrétta það. (GJ: Það er gott að fá umr. um þetta.) Ég get minnzt á það í þessu sambandi, að frv. það, sem þm. Str. flytur ásamt þm. N-M., tilheyrir á engan hátt þessu frv., þó að það hefði sýnzt eðlilegra að þeir hefðu látið þær till. sínar, sem í því felast, fylgja þessu frv., sem annar flm. að minnsta kosti stendur að og með því sett nokkur skilyrði, fyrir afnámi 1. En eins og þessu er fyrir komið, þá getur frv. um stóríbúðaskattinn engu breytt, um afstöðu þm. til þessa frv., því að þeir eru á engan hátt vissir um, hver afdrif þess verða þó að þeir samþ. þetta. (PZ: Eru þau ekki samferða í d.?) Það er að vísu rétt, þau eru hér á ferðinni á líkum tíma, en það eru nú fleiri mál alls óskyld. Og atkvgr. um annað getur engu ráðið um afgreiðslu hins.

Hv. þm. Str. talaði um misrétti í sambandi við húsaleigul., og ég skal ekki draga úr því, að þau hafa ýmsa galla, enda hef ég áður lýst þeirri skoðun minni, að það beri að afnema þau eins fljótt og unnt er. En hins vegar tel ég, að þau verndi nú meira en misréttið, sem þau skapa, og á meðan tel ég ekki rétt að afnema þau. Það er kannske að deila um keisarans skegg að deila um það, hvaða vernd húsaleigul. gefi, en hitt er víst, að það er fjöldi fólks, sem nýtur ákvæða húsaleigul., og afnám þeirra nú mundi tvímælalaust auka mikið á glundroðann í húsnæðismálunum, en það vil ég ekki styðja.

Hv. þm. Str. minntist á dæmi um það, hvað hið opinbera verður að sætta sig við háa húsaleigu hjá einstaklingum undir ýmsar skrifstofur. Í þessu tilfelli, sem þm. gat um, er um mjög háa leigu að ræða, en ég vil geta þess, að því máli hefur verið vísað til yfirhúsaleigun., og þar af leiðandi tel ég þessa leigu alls ekki ákveðna á þessu stigi. En þegar minnzt er á húsnæði fyrir opinberar skrifstofur í sambandi við þetta frv., þá er það víst, að hinu opinbera mundi víða vera sagt upp húsnæði því, er það nú hefur, ef það yrði heimilað, og þá væri ekki nema um tvennt að ræða, að leigan mundi hækka stórkostlega eða hið opinbera yrði að víkja algerlega úr húsnæðinu, en slíkt gæti skapað mikla erfiðleika.

Ég hef sagt það áður og vil endurtaka það, að ég vona, að þeir tímar nálgist, að hægt verði að afnema ákvæði húsaleigul. í flestum atriðum, en hins vegar held ég, að við Íslendingar séum ekki komnir það miklu lengra í húsnæðisvandamálunum en nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum, að okkur sé fært að afnema húsaleigul. nú. Það hafa víðar risið vandamál í sambandi við húsnæðisleysi en hér hjá okkur, en það hefur engin þjóð séð sér fært að afnema ennþá þau l., sem sett hafa verið til að bæta úr þeim vandræðum. Þessar umr. hafa ekki sannfært mig um það, að hér sé tímabært að kippa stöðunum undan burðarásnum, en það eru húsaleigul., þó að gölluð séu, en auk þess er ég viss um, að afnám þeirra mundi skerða kjör margra og auka vandræðin í þessum málum. Það, sem þarf og á að gera, er að auka húsnæði og reyna að draga úr göllum þeirra l., sem um þetta gilda, án þess að skapa um leið þjóðfélagslega áhættu. En með þessu frv. tel ég stefnt út í þá áhættu, og þar af leiðandi get ég ekki mælt með þessu frv.