20.02.1948
Efri deild: 66. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í C-deild Alþingistíðinda. (2946)

155. mál, húsaleiga

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég hef nú takmarkaðan tíma, enda geri ég ekki ráð fyrir, að langar umr. leiði mikið nýtt í ljós, meðan málið er ekki rannsakað nánar. En það, sem fékk mig til þess að standa upp aftur, var það, að hæstv. forsrh. kvaðst ekki geta mælt með þessu frv., af því að með samþ. þess væri stoðunum kippt undan burðarásnum og kjör almennings rýrð að miklum mun. Sleppum því. En hitt vitum við, að mikill meiri hl. alþýðunnar verður að búa við húsaleigu, sem er 5 til l0 sinnum hærri en leigan, sem Alþ. verndar.

En það var líka annað mjög athyglisvert, sem forsrh. sagði og sýnir vel, hvernig þetta mál er í raun og veru, en orð ráðh. voru þau, að það væri að deila um keisarans skegg, hverja húsaleigul. vernduðu, þ. e. a. s., við vitum ekkert, hvort það eru 10, 20, 30% af fólki. sem 1. vernda. Aftur á móti vitum við, að meiri hl. alþýðunnar verður að búa við okurleigu þrátt fyrir l., en mikið húsnæði er óleigt vegna l. Fyrir 1939 voru hér engin teljandi húsnæðisvandræði, en síðan hefur verið byggt meira en fjölgað hefur í bænum, og þar af leiðandi ætti alls ekki að vera um húsnæðisvandræði að ræða, ef vilji væri fyrir hendi hjá öllum að koma í veg fyrir þau. Ég tel, að þetta frv. miði að þessu, því að með því, ef að l. yrði, mundi húsaleigan falla, okrið næstum hverfa með auknu framboði á húsnæði, og þeir, sem búa í gömlu húsunum, yrðu ekki verr úti en hinir. Það er því alls ekki rétt hjá hæstv. forsrh., að með þessu frv. sé verið að ráðast á almenning.

Við höfum nú búið við húsaleigul. í 7–8 ár, og það er enn þá haldið í þau, þó að hæstv. félmrh. lýsi því sjálfur yfir, að það sé að deila um keisarans skegg, hverja þau verndi. Það er alls ekki í öllum tilfellum rétt sú skoðun, sem svo mjög virðist vera almenn, að húseigandi sé efnaðri maður en leigutaki. Það eru til fjöldamörg dæmi um það, að leigutaki er miklu auðugri en leigusali.

Margt eldra fólk á sparifé sitt í húsum, og hjá allmörgum er húsaleigan einu tekjurnar. Þetta fólk hafa húsaleigul. leikið mjög hart. því að leigan hefur víða ekki nægt til viðhalds húsunum, hvað þá meira.

Það verður aldrei of oft endurtekið, sem forsrh. sagði, að það væri að deila um keisarans skegg, hverja húsaleigul. vernduðu. Ég þekki til í einni stofnun, þar sem vinna 10 menn, og meðaltekjur þeirra munu vera um 18–20 þús. kr. á ári. Af þessum 10 mönnum eru aðeins 2. sem búa í gamalli leigu, en 8 verða að borga allt að helming af tekjum sínum fyrir leigu á svörtum markaði. Hvernig er hægt að halda svona l. uppi? Hverja er forsrh. að vernda? Sannleikurinn er sá, að það er ekki verið að vernda neinn með húsaleigul., heldur er l. haldið uppi til þess að halda niðri vísitölunni, en það er nauðsynlegt fyrir suma af vissum ástæðum, og þetta ættu hlutaðeigendur að viðurkenna, en ekki vera að blekkja með því, að hér sé verið að vernda alþýðuna. Hitt er svo annað mál, og það ættu þessir sömu menn að athuga, að þessi aðferð er ekki til frambúðar.

Að lokum vil ég svo segja það, að ég er forsrh. alveg sammála í því, að það sé að deila um keisarans skegg, hverja húsaleigul. verndi, en hins vegar tel ég það dálítið undarlegt, að hæstv. félmrh. skuli lýsa þessu yfir hér, eftir að þessi mál eru búin að vera árum saman til athugunar í félmrn. Ég ætla nú ekki að ræða þetta frekar að sinni, þar sem ég þarf að fara á fund annars staðar, en vænti þess að fá að ræða málið frekar við 2. umr. og óska eftir, að þá verði hæstv. félmrh. búinn að afla sér betri upplýsinga um það, hverja húsaleigul. vernda.