19.11.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (2997)

77. mál, Slippfélagið í Reykjavík

Flm. (Pétur Magnússon) :

Ég hef leyft mér að flytja þál. á þskj. 97 þess efnis, að Alþ. álykti að heimila ríkisstj. að ábyrgjast allt að 2700000 kr. lán fyrir Slippfélagið í Reykjavík. Út af því, að mál þetta kemur fram í þessu formi, þ. e. a. s. sem þál., vil ég taka það fram, að þótt það ef til vill mætti teljast eðlilegra, að það kæmi í frv.-formi, þá hef ég fetað í fótspor annarra, sem líkan hátt hafa haft í meðferð mála. Ég þarf ekki að vera margorður um þessa þál. Með þál. er prentuð grg. og bréf frá Slippfélaginu h/f til sjútvmrh., þar sem skýrt er frá, hvernig málið horfir nú við, og get ég látið mér nægja að mestu að vísa til þess. Ég vil þó benda á, að hér eru margar dráttarbrautir úti um landið, sem geta tekið smábáta, en öðruvísi horfir við um togarana. Árið 1932 byggði Slippfélagið tvær dráttarbrautir, sem gátu tekið allt að 800 smálesta þung skip, sú stærri. Þessi dráttarbraut hefur orðið að miklu gagni og hefur án efa sparað landinu stórfé, því ef henni hefði ekki verið komið upp, hefðum við orðið að láta öll okkar stærri skip fara til útlanda til viðgerðar. En árið 1946 bilaði vagn stærri dráttarbrautarinnar, og mun nú ekki hægt að taka stærri skip en 550 til 600 smálestir. Þegar svo umtal hófst um að fjölga fiskiskipastólnum, kom þetta mál, að fá nægilega stóran slipp, fljótt á dagskrá. Menn sáu, að tæplega var hægt að gera þau út, nema þau ættu aðgang að slipp hér í Reykjavík. Nýbyggingarráð mælti með láni til Slippfélagsins og útvegaði því nauðsynleg innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, því að það þótti sýnt, að ef Slippfélaginu væri gert mögulegt að ráðast í þessar framkvæmdir, mundi sá nýi slippur geta tekið nýju togarana fullfermda, ef þeir þörfnuðust viðgerðar, áður en þeir færu út með fiskinn.

Ég þarf ekki að hafa þessa sögu langa. Ég býst við, að það þurfi ekki að lýsa fyrir hv. þm. nauðsyn þess, að þetta fyrirtæki komist í framkvæmd. Það má gera ráð fyrir því, að áður en langt um líður, — verði gerðir út héðan 50 togarar, en útgerð þeirra er vitanlega svo stór þáttur í atvinnulífi landsins, að allt verður að gera til þess, að svo mikilvægur atvinnuvegur geti blómgazt sem bezt, en einn þáttur þess og ekki sá veigaminnsti er, að skipin geti fengið viðgerð hér heima í stað þess að þurfa að leita út fyrir landsteinana. Ef t. d. skip koma af veiðum og hafa hlotið botnskaf eða misst skrúfu, þá er nauðsynlegt, að þau geti fengið hér bráðabirgðaviðgerð, svo að þau komist með fiskinn á markað, í stað þess að ella yrði að draga þau út til viðgerðar með ærnum tilkostnaði. Það er öldungis óhjákvæmilegt að skapa hér skilyrði til þess að íslenzku togararnir geti verið teknir hér á land til viðgerðar. Ég býst við, að ekki séu skiptar skoðanir um það. En ég þykist þó vita, að einhverjir hv. þm. vilji halda því fram, að hér sé verið að fara út á allhættulega braut. Ég veit að ríkissjóður hefur nóg á sinni könnu, en framkvæmdir í þessu þjóðþrifafyrirtæki eru nú þegar hafnar. Það er t. d. búið að steypa undirstöðu dráttarbrautanna ofan við sjávarborð. Þegar þessar framkvæmdir voru hafnar, var gert ráð fyrir hagkvæmu láni úr stofnlánadeildinni, sem ríkissjóður hefði að sjálfsögðu verið í ábyrgð fyrir. Hér er því í raun og veru ekki farið fram á annað en að staðið sé við fyrri skuldbindingar, þar sem nýbyggingarráð var búið að ákveða lán til fyrirtækisins, sem forystumenn þess treystu á. Hitt er þó augljóst, að enda þótt þessi ábyrgð verði veitt, þá er fyrirtækið verr sett en ef það hefði fengið lán samkv. 1. um stofnlánadeildina, því að það mun hvergi geta fengið lán með þeim kjörum, er þar voru veitt, þó að það hafi ríkisábyrgð. Ég geri ekki ráð fyrir, að nú sé fáanlegt lán fyrir minna en 4½% til 5%, en af því má sjá, hversu mikil breyting það er frá því, sem áður hafði verið gert ráð fyrir. Með þessari ábyrgð tel ég því, að verið sé að uppfylla loforð, sem gefið hefur verið. Um það hefur verið spurt, hvaða tryggingar yrðu fyrir þessari ábyrgð. Ég tel sjálfsagt, að um það atriði verði sett skilyrði, um leið og ábyrgðin er veitt, og það er bezt að segja það strax, að ég tel ekki annað koma til greina en 1. veðrétt í fyrirtækinu. Það er rétt að geta þess, að fyrirtækið er nú að auka hlutafé sitt úr 200 þús. í 700 þús. og ef til vill upp í 800 þús., svo að það er ekki hægt að segja annað en um allgóða tryggingu geti verið að ræða.

Ég skal nú ekki þreyta þm. með lengri ræðu, en vil leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og fjvn. Og um leið vil ég beina þeirri ósk til form. fjvn., að hann hraði málinu eftir föngum, því að málið er mjög aðkallandi. Þó að verkið hafi stöðvazt nú vegna frosta, þá er nauðsyn, að það geti haldið áfram, strax og veður leyfir.