20.12.1947
Sameinað þing: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (3017)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að svara hv. 2. þm. Reykv. frekar en orðið er, því að það kom ekkert nýtt fram í síðari ræðu hans. Þó vildi ég segja það, að hann taldi, að hægt væri að gefa þingfrí fram til miðs janúar, án þess að fundum væri frestað. Það tel ég mjög mikið vafamál skv. ákvæðum 23. gr. stjskr. Hinsvegar leit stjórnin svo á, að ef störf Alþingis ættu að falla niður um tíma, eða fram undir 20. jan., þá væri nauðsynlegt vegna ákvæða 23. gr. stjskr. að fresta þinginu.

Hins vegar vil ég segja út af skýringu hv. 1. þm. N-M. á l. um þingfararkaup alþm. frá 1919, að ég tel fyrir mitt leyti, að það falli undir verksvið þfkn. að ákveða, hvort þm. skuli hafa laun einhvern þann tíma eða allan, sem þingi kann að verða frestað. Hv. 1. þm. N-M. vitnaði í 1. gr. þessara l. um það, að alþm. hafi ákveðið dagkaup, bæði fyrir þann tíma, sem þeir sitja á Alþingi og fer í ferðir. Ef þessi orð 1. gr. l. væru tekin algerlega bókstaflega, þá ættu þm. alls ekki að fá laun aðra daga en þá, sem þeir sætu á þingfundum. Þannig hefur þetta aldrei verið skýrt. Þm. hafa þess vegna fengið laun, þó að þeir hafi ekki setið á þingfundum nokkra daga, og þó að samkomulag væri um, að forseti lýsti yfir, að næsti fundur yrði ekki fyrr en eftir viku til 10 daga, hafa þm. samt fengið laun fyrir þann tíma. Að vísu má segja með réttu, sem hv. 1. þm. N-M. tók fram, að það hafi verið svo áður, að þm. hafi fengið fullt dagkaup, þó að þingfundir hafi fallið niður um stutt skeið, en ef þingi hafi verið frestað, hafi þeir ekki fengið dagkaup. Þetta stafar af því, að venjulega hefur þingi verið frestað svo verulega eða svo langan tíma, að ekki hefur þótt rétt að greiða þm. kaup á því tímabili. Hins vegar hefur það venjulega verið miklu styttra tímabil, sem fundir Alþingis hafa fallið niður án formlegrar frestunar. Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég hef áður lýst, að það sé þfkn., sem ákveður þetta atriði um launakjör þm. En eins og forseti hefur með réttu bent á, þá er það forseta að ákveða kaup annars starfsfólks Alþingis, þegar svona stendur á. Það þarf ekki fleiri orð um þetta.

Ég tel að öll sanngjörn rök mæli með því, að tillaga sú, sem hér er til umræðu. verði samþ., og mér er óhætt að segja, að það hafa verið bornar fram óskir til ríkisstj. frá mörgum þm., sem eiga heima utan Reykjavíkur, um, að þeir þurfi ekki að koma til þings fyrr en seinni hluta janúarmánaðar vegna ýmissa skyldustarfa, sem þeir hafa heima. Hv. þm. Borgf. hefur þegar skýrt þetta fyrir sig, en líkt er ástatt með talsvert marga þm., sem búa utan Reykjavíkur. Mér finnst eðlilegt að taka til greina þessar óskir þm. En þegar þingi er frestað af ríkisstj. og alþm. sjálfum, þá verður að ganga þannig frá því, að sé í samræmi við stjskr., en þingfundir geta ekki fallið niður svona langan tíma, nema Alþingi geri um það samþykkt.