21.01.1948
Sameinað þing: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (3051)

117. mál, hreinsun Hvalfjarðar

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Hv. þm. Borgf. hreyfði hér máli, sem er á almannavitorði og hefur verið um nokkurt skeið, síðan Hvalfjarðarveiðin hófst fyrir alvöru, sem sé, hvert tjón fiskimenn bíða, m. a. að sögn vegna einhverra hluta, sem sumir ætla leifar af styrjaldaraðgerðum, sem voru á ákveðnum stöðum í Hvalfirði. Það er vitanlegt, að einhvers konar hervarnir hafa þarna verið á sínum tíma, sem ætla mætti að hefðu verið teknar algerlega burtu, en svo er að sjá, sem eitthvað óhreint sé fyrir hendi. Þegar það vitnaðist, sem endurtók sig hvað eftir annað, að sjómenn yrðu fyrir miklu tjóni á veiðarfærum og afla af þessum sökum, fór ég og leitaði upplýsinga hjá þekktum sjómanni um orsök og ástæðu þessa með það fyrir augum, sem þegar var komið fram á þingi. eins og hv. þm. Borgf. minntist á, í þáltill. hv. þm. Barð., að þarna þyrfti að hreinsa. Nú þekki ég það ekki svo, að ég megi með það fara, hverjar skuldbindingar Bretar undirgengust hér á sínum tíma gagnvart þeirri stj., sem sat, þegar landið var hernumið, um hreinsun á þeim hervirkjum, sem þeir gerðu hér, eða bætur á því tjóni, er landsmenn kynnu að bíða af slíkum hervirkjum. Mér kom þó í hug, að þeir mundu skyldir til að hreinsa slíkt skaðræði, er þeir hefðu eftir skilið og verður landsmönnum til tjóns, en til þess að undirbyggja kröfur um slíkt, ritaði sjútvmrn. vitamálastjóra nú fyrir nokkru og bað um rannsókn á því, hvað þarna væri til trafala í botninum, og skýrslu um það. Þessi beiðni til vitamálastjóra kom fram með það fyrir augum að fá öruggan grundvöll að byggja á, ef það reyndist rétt að athuguðu máli. að hægt væri að byggja á þessu kröfu um að fá hreinsaðan botninn, og ef til vill kröfu um skaðabætur fyrir það tjón, sem orðið er. Eins og menn vita, er hæpið að byggja eingöngu á sögusögn sjómanna um þessi mál, því að oft skemmast veiðarfæri, þótt þær orsakir séu ekki fyrir hendi, sem hér eru. Þess vegna taldi ég rétt, að rannsókn færi fram af hálfu vitamálastj. á þessum hlutum. Vona ég, að þessari rannsókn verði brátt lokið, svo að stj. geti vitað, hvernig eða hvort hún á að taka málið upp. Annað erindi hefur sjútvmrn. líka sent vitamálastjóra, en það var til þess að mælast til þess, að vitamálastjóri vildi endurbæta og gera glöggari þau merki, sem mér skilst, að þarna hafi verið sett, setja fleiri ljósbaujur og merki, svo að bátar ættu auðvelt með að forðast hættusvæðin. Þessi tvö skref hafa verið stigin af ráðuneytinu í þessu máli, og taldi ég hvort tveggja vera í samræmi við almennan vilja sjómanna, og er þetta í samræmi við það sem hv. þm. Borgf. sagði, sem og í samræmi við það, sem kom fram hjá hv. þm. Barð. í till. þeirri, sem ég minntist á áðan.

Í þessu sambandi skal ég geta þess, að í viðræðum við kunnuga menn um það, hvernig bezt væri að hugsa til að hreinsa þarna botninn, hefur það komið fram, að þarna muni vera leifar af kafbátagirðingu, sem líklega sé ekki hægt að ná upp nema með öflugri tækjum en við eigum yfir að ráða. Mér er sagt, að Bretar hafi haft inni í Hvalfirði einhvers konar trönuskip með sérstökum trönum til þess að lyfta ákaflega þungum hlutum. Ég býst ekki við, að við höfum nokkuð slíkt hér, og það yrði þá að reyna að fá þess háttar skip til þess að vinna að þessu, þegar hægt væri að eiga við það, og tel ég sjálfsagt að krefjast þess af Bretum, ef rannsókn leiðir í ljós, að hervirki hafi þarna orðið til trafala, að þeir leggi til slíkt skip, og kostnaðinn ættu annaðhvort Bretar að greiða okkur eða Ameríkumenn eða hvorir tveggja.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta mál. Ég er alveg sammála hv. þm. Borgf. um það, að það þurfi hvort tveggja að gera, að merkja og eins að gera gagngerðar ráðstafanir til þess að hreinsa fjörðinn af því, sem þarna er fyrir, hvað sem það er, ef hægt væri að nema burtu það, sem þarna er til trafala, svo að það verði ekki framar á vegi sjómannanna.