10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (3090)

168. mál, erfðalög

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég vil taka fram, að fyrirkomulag þessarar till. og það, að hæstv. forseti ákvað tvær umr. um hana, sýnir, að gert er ráð fyrir, að fé verði greitt úr ríkissjóði til þessarar endurskoðunar. Ég vil einnig beina því til hæstv. stj., hvort ekki væri rétt að athuga, þó að það sé ekki tekið fram í till., hvort ekki væri rétt að setja nánari reglur um fjárhag ómyndugra, sem hefur verið talið mjög vandasamt atriði, og þyrfti kannske að setja um það efni sterkari fyrirmæli en nú eru í gildi. Ég vil aðeins beina þessu til hæstv. stj., af því að það efni er náskylt því máli, sem hér er til umr., en það liggur í hlutarins eðli, þar sem tvær umr. hafa verið ákveðnar um till., að þá er gert ráð fyrir, að nokkurt fé verði greitt fyrir að starfa að endurskoðun þessara laga.