25.03.1948
Sameinað þing: 62. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (3193)

185. mál, skipting innflutnings- og gjaldeyrisleyfa milli landshluta

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Í fyrsta lið þessarar þáltill. er talað um skömmtunarvörur og aðrar venjulegar verzlunarvörur, aðrar en þær vörur, sem taldar eru í 2.–4. lið. Þetta orðalag gefur tilefni til að spyrja, hvort einhverjar verzlunarvörur séu undanþegnar ákvæðum þáltill., og þá, hvaða verzlunarvörur það væru, því að í þáltill. eru beinlínis taldar upp skömmtunarvörur og vörurnar í 2.–4. lið. Ef engar vörur ættu að vera undanþegnar ákvæðum þáltill., hefði 1. liður átt að orðast svo: Heildarinnflutningi til landsins á verzlunarvörum. öðrum en þeim. sem taldar eru í 2.–4. lið. o. s. frv. Hér þarf að athuga, hver er hugsun og tilgangur flm., og breyta síðan orðalaginu í sambandi við það, en eins og þessi liður er orðaður nú, getur hann ekki staðið, ef ákvæðin eiga að vera skýr.

Í þáltill. vantar algerlega skýrt ákvæði um bann gegn því að flytja vörur milli fjórðungssvæðanna, og bann við því, að einstaklingar eða fyrirtæki kaupi vörur á öðrum fjórðungssvæðum en þar, sem einstaklingar og fyrirtæki eru búsett. Það er augljóst, að ef ákvæði um skiptingu innflutnings milli fjórðunga eiga að ná tilgangi sínum um að tryggja, að vörum sé skipt sem jafnast milli fjórðungssvæðanna, verður algerlega að banna verzlunum að flytja vörur út af svæðinu nema með leyfi viðskiptan. En slíkt bann er ekki nóg, heldur verður einnig að banna verzlunum og fyrirtækjum á fjórðungssvæði að selja eða láta úti á annan hátt vöru til fyrirtækja eða einstaklinga, sem ekki eiga heimili á fjórðungssvæðinu (sjá þó lið 3 hér að neðan um útgerðarvörur). Slík verzlun út fyrir fjórðungssvæði yrði að vera refsiverð (sektir) og þyrfti að vera þannig, að bæði væri refsivert að selja og kaupa.

En hér ber að athuga, að í ákvæðum þáltill. liggur svo gagnger breyting á þeim verzlunarháttum, sem tíðkazt hafa í landinu, og svo stórfelld skerðing á frelsi almennings, að varla er nokkur von til, að ákvæðin séu framkvæmanleg. Slíkt bann mundi leiða yfir íslenzku þjóðina verzlunarkúgun, en ef bannið væri ekki sett, er mikil hætta á því, að ákvæði þáltill. væru einskis nýt. Vörur gengju kaupum og sölum milli fjórðunga, sem mundi leiða af sér hærra verðlag og óhagkvæmara verzlunarfyrirkomulag.

Skipting landsins í fjórðunga virðist vera sérstaklega óheppileg. Nær hefði legið, að landinu hefði verið skipt í tvennt: Suður- og Vesturland, aðalhafnir Reykjavík og Ísafjörður, og Norður- og Austurland, aðalhafnir Akureyri og Reyðarfjörður. En ef hafa á skiptingu í fjóra hluta, er glöggt, að takmörkin milli Suður- og Vesturlands verður sérstaklega erfitt að setja.

Skipting innflutningsins milli fjórðungssvæðanna á að vera „í hlutfalli við íbúatölu og þarfir hvers fjórðungssvæðis“. Viðskiptan. er í þessu sambandi lagt alveg nýtt verkefni á herðar. Það er ljóst, að viðskiptan. verður að semja sérstaka áætlun um leyfisveitingar til fjórðungssvæðanna, sem byggð er á íbúatölu og þörfum svæðisins. Þáltill. ber með sér, að ekki er talið nægilegt að líta á íbúatöluna. eina, sbr. höfðatöluregluna, heldur á einnig að taka tillit til þarfa íbúanna á hinum fjórum svæðum. Slíkt mat á þörfum einstaklinganna innan fjögurra aðskilinna svæða hlýtur að vera mjög erfitt. Verulegur munur er á þörfum einstaklinga eftir atvinnu þeirra. Tilflutningur fyrirtækja og þó sérstaklega einstaklinga milli fjórðungssvæða hefur verið og er enn mjög mikill. Áætlun viðskiptan. um þarfirnar mundi þurfa sífelldrar endurskoðunar við.

Í 3. lið þáltill. er ákvæði um. að „útgerðarvörum skal úthluta til fjórðungssvæðanna í hlutfalli við skipastól og útgerðarrekstur hvers svæðis“. Þetta ákvæði hlyti að verða mjög erfitt í framkvæmd, vegna þess að skip eru svo hreyfanleg og auk þess ekki hægt að ákveða þarfir fjórðunganna með nokkurri vissu. Skip kaupa til sinna þarfa á heimilishöfn, á rekstrarhöfn og svo á hverri annarri höfn, sem þau kunna að koma á, og er alls ekki fært að takmarka slíkt viðskiptafrelsi skipa á nokkurn hátt. Skip skipta einnig mjög oft bæði um heimilishafnir og rekstrarhafnir. Orðið skip í þál till. mun eiga við allar fleytur, hvort sem þær eru notaðar til veiða eða annars. Það bann á viðskiptum utan fjórðunga, sem er óhjákvæmileg afleiðing af ákvæðum í lið 1, er óframkvæmanlegt um skip,. a. m. k. öll veiðiskip.

Hvað veldur því, að hér virðast vera sett eins konar átthagabönd fyrir skip og að skylda eigi þau til að verzla þar, sem þau eru skráð, án tilllts til þess, hvaðan þau eru gerð út? Undanfarin ár hafa engar teljandi hömlur verið á innflutningi á útgerðarvörum og samkeppni verið um framboð á þeim. Hvers vegna er þá þessi greinargerð fram komin? Það er augljóst, að aðilar, sem undanfarin ár hafa ekki haft neinn áhuga fyrir sölu veiðarfæra, vilja nú komast yfir þessa vörutegund með þvingunarráðstöfunum, nú, þegar augljóst er, að innflutningur á flestum öðrum vörum verður skorinn niður til mikilla muna. Hvernig er svo hugsað um að framkvæma úthlutun útgerðarvaranna? Sem dæmi má taka „Siglunesið“, sem sumir þm. hér kannast við. Skipið er á skrá á Siglufirði, en mun vera gert út frá Reykjavík og varla sjást á Siglufirði nema um blá-síldveiðitímann. Hér í Reykjavík verzlar yfir vetrarvertíðina — um 6 mánuði ársins — mikill fjöldi aðkomubáta. Einnig er skemmst á að minnast, er um 170 bátar stunduðu síldveiðar héðan, og var mikill fjöldi þeirra aðkomubátar. Hefði átt að neita þessum aðkomubátum um nauðsynlegar útgerðarvörur hér á þeim forsendum, að þeir gætu látið senda sér þær að heiman? Hvernig færi t. d. á Siglufirði? Þaðan eru um 8–10 heimabátar gerðir út á síld og mundu eflaust fá sína úthlutun samkvæmt þessari þáltill., Um síldveiðitímann koma um 300 bátar víðs vegar að af landinu auk allt að 100 erlendra skipa. Litlu mundi vera hægt að miðla af útgerðarvörum hinna 8–10 heimabáta. Ekki mun núverandi úthlutunarfyrirkomulag hafa orsakað nokkra vöntun útgerðarvara á Siglufirði. Hins vegar hafa heyrzt háværar raddir um vöntun á ýmsum innlendum neyzluvörum fyrir norðan síðastliðið sumar, og hefðu hv. flm. mátt taka það til athugunar. Væri meiri þörf á, að þessi mál væru betur skipulögð af hlutaðeigandi aðilum, en að setja hömlur á þær vörur, þar sem ef til vill mesta frjálsræðið hefur ráðið og mest samkeppnin verið.

Í þáltill. vantar algerlega ákvæði um hlutfallslega skiptingu gjaldeyris milli fjórðungssvæða og sölu gjaldeyris innan svæðanna, því að ef það er ætlun flm., að innkaup séu gerð af verzlunum á fjórðungssvæðunum og vörur fluttar þangað beint, eins og virðist liggja í þáltill., þá verður vitaskuld að sjá svo fyrir, að nægilegur gjaldeyrir sé í bönkum, a. m. k. á aðalhöfn hvers fjórðungssvæðis.

Í l. um fjárhagsráð er ekkert ákvæði, sem bannar, að innflutningi sé skipt milli fjórðunga, ef slíkt sé þjóðhagslega hagkvæmt, þótt þáltill. þessi fari greinilega í bága við ákvæði 1. um fjárhagsráð í mikilsverðum atriðum. Í 2. gr. l. um fjárhagsráð segir, að fjárhagsráð eigi m. a. að miða störf sín við að „neytendur eigi kost á að kaupa neyzluvörur sínar á hagkvæmasta hátt og vörukaup til landsins og vörudreifing innanlands gerð eins ódýr og hagkvæm og frekast er unnt.“

L. um fjárhagsráð hefur verið fundið til foráttu, að ákvæðin í 12. gr. þeirra um úthlutun leyfa séu of óákveðin, og er þá m. a. eftir að athuga, hvort ákvæði þáltill. bæti úr í þessu efni.

Í l. um fjárhagsráð stendur: „Sé úthlutun leyfanna við það miðuð, að verzlunarkostnaður og gjaldeyriseyðsla verði sem minnst.“ Í l. um fjárhagsráð stendur enn fremur, að þeir skuli „sitja fyrir innflutningsleyfum, sem bezt og hagkvæmust innkaup gera og sýna fram á, að þeir selji vörur sínar ódýrast í landinu. Skal þetta gilda jafnt um kaupmannaverzlanir og samvinnuverzlanir og miðað við það, að neytendur geti haft viðskipti sín þar, sem þeir telja sér hagkvæmast að verzla.“

Eins og þáltill. liggur fyrir, er ekki ljóst, að hve miklu leyti eigi framvegis að taka tillit til þessara ákvæða. Hugsun flm. gæti verið á tvennan hátt: a) Fyrst skal skipta heildarinnflutningnum milli fjórðunga, en síðan skal skipta innflutningnum milli innflytjenda innan hvers svæðis fyrir sig eftir reglum 12. gr. l. um fjárhagsráð. En ef þessi er hugsun flm., hefði hún átt að koma skýrt fram í þáltill. b) Sé það hins vegar hugsun flm., að ekkert tillit skuli tekið til ákvæða 12. gr. l. um fjárhagsráð, hefði það einnig þurft að koma skýrt fram.

En hvernig sem á þetta er litið er ljóst, að þáltill. brýtur í bága við 12. gr. l. um fjárhagsráð, og hefðu því flm. átt að bera fram till. sína í frumvarpsformi til breytinga á II. kafla l. um fjárhagsráð, en ekki láta sér nægja þál.

Ef nú er gert ráð fyrir að hugsun flm. sé eins og segir í a-lið að framan, verða ákvæðin um veitingu innflutningsleyfa sízt skýrari en áður, því að þá bætist nú matið á þörfum hvers fjórðungs ofan á hin matsatriðin, sem felast í 12. gr. l. um fjárhagsráð (hagkvæm innkaup, lágt verð o. s. frv.). Ef hins vegar hugsunin er sú, að ákvæði 12. gr. falli burtu, felast þó í þáltill. ný matsatriði: „hlutfall við skipastól og útgerðarrekstur“. „hlutfall við verksmiðju- og iðnrekstur með tilliti til afkastagetu og möguleika“ o. s. frv., o. s. frv. Ákvæði þáltill. eru því seld undir sömu og ekki minni aðfinnslur um, að þau séu engu síður óákveðin og skilyrt en ákvæði l. um fjárhagsráð, svo að þar er engin bót á ráðin.

Í grg. vísa flm. til bréfs frá viðskiptan., dags 11. marz 1948, og er sagt, að ályktun sú, sem n. hafi gert og birt sé í bréfinu, sé ekki fullnægjandi að áliti flm. Þetta bréf hefðu flm. átt að birta, sem fylgiskjal með þáltill., svo að séð yrði, hvernig þessi ályktun viðskiptan. er orðuð.

Þetta eru lauslegar aths. við þessa fram komnu þáltill. og til ábendingar, en ekki af því, að mér sé ekki ljóst, hve mikil vandkvæði og ólag hefur verið sérstaklega á dreifingunni, og þarf að koma þar miklu betra lag á, sérstaklega fyrir þá, sem eru úti í landi.