24.03.1948
Sameinað þing: 62. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (3197)

185. mál, skipting innflutnings- og gjaldeyrisleyfa milli landshluta

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að gera grein fyrir atkv. mínu í sambandi við þetta mál. Alþ. hefur nú setið að störfum að mestu leyti síðan 1. okt. s. l. að undanteknu jólafríi, sem tekið var um mánaðartíma. Allan þann tíma höfum við verið að ræða um verzlunarmálin, sem eru ein af stærstu málum þjóðarinnar, en mig brestur minni til þess, þegar það hefur verið gert hér í sameinuðu þingi, að hæstv. viðskmrh. hafi nokkru sinni tekið þátt í þeim umr., þykir mér það einkennilegt. Hann virðist flýja hér af hólmi í hvert skipti, sem minnzt er á þessi mál, enda þótt þetta sé svo stórt mál, að ef till. á þskj. 486 er samþ., þá verður þingi ekki slitið í dag. (Forseti (FJ) : Hæstv. viðskmrh. er við jarðarför eins af bekkjarbræðrum sínum.) Því var ekki lýst, þegar fundur var settur, að hæstv. viðskmrh. mundi verða fjarverandi, og það er því fullkomin afsökun fyrir mig að minnast á það, sem ég sagði, enda vil ég minna hæstv, forseta á, að málið hefur verið til umr. fyrr en í dag. Það er margupplýst af sumum ráðh., að ríkisstj. ræður ekkert við þau yfirvöld, sem fara með þessi mál. Það er því ástæða til að gera þau mál upp áður en þingi er slitið. Ég vil benda á, að síðan þessar reglur voru settar, sem nú gilda, hefur verið hreint og beint verzlunarstríð í landinu,

Það er svo mikið verzlunarstríð í landinu að annað eins hefur ekki átt sér stað í síðustu hálfa öld. Á tímum eins og nú eru er það furðulegt, að einmitt sú ríkisstj., sem hefur tekið að sér að koma niður dýrtíðinni, skuli ekki gera neinar ráðstafanir til þess, að þessu verzlunarstríði sé hætt, áður en þingið fer heim. Það er vitað, að það er komin upp ný atvinnugrein í landinu, þar sem menn eru farnir að fara á morgnana til að standa fyrir utan dyrnar hjá viðskiptan. og bíða til að ná í miða til að selja öðrum mönnum, sem ekki hafa tíma til að bíða. (Menntmrh.: Hvað fá menn út á þessi númer?) Viðtal við n. og ef til vill möguleika til að geta komið fram sínum vilja. Svo leyfir hæstv., menntmrh. sér að hlæja að þessu alvörumáli. Sannleikurinn er sá að það er komið það ástand í verzlunarmálunum, að það er ekkert annað eftir til þess að það sé komið á einokunarástand heldur en hýðingin, ef menn kaupa vörur annars staðar en þar, sem viðskiptan. vill. Þetta ástand væri ekkert óeðlilegt, ef stríðið stæði milli ríkisstj. annars vegar og stjórnarandstöðunnar hins vegar, en það er ekki, því að stríðið stendur innbyrðis milli stjórnarflokkanna. Í umr. hér í gær lýsti hæstv. viðskmrh., því yfir, að nú væri búið að koma sér saman um alveg nýja leið til þess að úthluta leyfum. Hvers vegna er þetta ekki birt hér, hvers vegna kemur það ekki fram við þessar umr., hvernig þær reglur eru? Það er engan veginn sæmandi af ríkisstj., að slíta þessu þingi, áður en einhver friður er samin í landinu um þessi mál, því ef hann heldur áfram, þá ræður ríkisstj. engan veginn við aðalverkefnið, að koma niður dýrtíðinni. Ég veit um fyrirtæki, sem hafa hvort tveggja með höndum, heildsölu og smásölu. Ef þau flytja inn vöru í heildsölu, þá mega þau leggja á 6%, og ef þau selja þær sjálfum sér, þá kemur önnur álagning, 18% í viðbót, þ. e. smásöluálagningin. Viðkomandi aðili getur þannig fengið margfaldan gróða af sömu vöru. Þannig eru þessi mál. Það er þess vegna ekkert að undra, þó að hver maður poti sér og reyni, að græða á verzlun eins og öðru, þegar reglurnar eru þannig, að það er alls staðar hægt að fara í kringum grundvöllinn, sem á að vera undir, þessum málum, til þess að fólkið fái sem ódýrasta vöru. Hvers vegna er svo þetta mikla kapp um innflutninginn? Eingöngu af því, að álagningin er allt of há. Ef menn þola fyrst að borga fyrir aðgang til þess að fá að tala við viðskiptan. stórkostlegt fé, síðan fyrir gjaldeyrisleyfin, eins og menn vita, að gert er í stórum stíl, þá hlýtur að vera allt of mikill gróði að því að vera í þessum viðskiptum. Það er vitað, að stór hópur manna hefur það að atvinnu að fylgjast með því gegnum bakdyr, hverjir fá innflutningsleyfi. Ég veit um tilfelli, þar sem menn hafa hringt nokkrum mínútum áður en leyfin eru undirskrifuð til viðkomandi manns til að fala af honum leyfin og bjóða í þau. Það er eitthvað rotið við þetta fyrirkomulag. Yfir þessa stofnun, viðskiptan., er svo sett eitt ráð, sem á að sjá um, að þessi mál séu ekki svona. Ég segi þetta ekki af gremju, en hæstv. ráðh. mun sanna, að þetta getur ekki gengið svona lengur. Þessi mál eru of alvarleg til að gera hlátur að þeim hér á hæstv. Alþ. Þá hafa komið fram þær upplýsingar, að menn séu farnir að flytja inn vörur án þess að hafa gjaldeyrisleyfi. Hvernig verkar það? Það verkar þannig, að það eykst stórkostlega svartur markaður í landinu. En einhvern tíma kemur að skuldadögunum hjá þeim, sem flytja inn, og væri ekki óeðlilegt, að hæstv. ríkisstj. léti fara fram rannsókn á því máli, en það var upplýst í umr. í gær, að þetta væri eitt af því, sem nú væri að koma upp í viðskiptamálunum. Ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. með brtt. 648 vegna þess, að hún er þó nokkuð minna skaðleg heldur en þáltill. á þskj. 486. Að því búnu mun ég greiða atkv. á móti aðaltill., því að aðaltill. brýtur í bága við l. um fjárhagsráð. Það er einkennilegt, eins og búið er að ræða það oft hér á Alþ., að þingvanir alþm. skuli hvað eftir annað telja sér trú um það, að einföld þáltill. geti afnumið l. L. um fjárhagsráð eru alveg ákveðin um það, hvernig þetta skuli gert, og engin þál. getur breytt því. Það er því furðulegt, að þetta skuli geta komið fram frá jafnmörgum mönnum eins og eru á þáltill. á þskj. 486, auk þess sem það er enn furðulegra, að ef það væri sett í l., sem í þál. stendur, þá er stefnt í beinan voða um viðskiptamálin í landinu. Ég mun því greiða atkv. á móti þáltill. á þskj. 486. en með brtt. 648. Ég skal svo ekki fara frekar út í þetta atriði, en vil aðeins ítreka það, að þó að Alþ. eigi að ljúka störfum nú, þá vænti ég þess og treysti hæstv. ríkisstj. til þess að ganga miklu nákvæmar inn í þessi mál en hingað til og fái heilbrigðari lausn á þeim. Ef ríkisstj. vill hætta þessu verzlunarstríði, sem er í landinu, þá á hún að geta komið á skynsamlegum reglum um þessi mál, hún hefur sett nægilega marga vitra menn til þess að skipuleggja þetta, en það þarf að fara inn á aðrar brautir en farið hefur verið inn á í þessum málum s. l. 14 mánuði.