14.10.1947
Sameinað þing: 6. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (3248)

5. mál, Parísarráðstefnan og dollaralán

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Tillaga sú, sem hér er til umræðu, er hin fyrsta, sem stjórnarandstaðan flytur á þessu Alþingi.

Hv. 2. þm. Reykv. flutti hana jafnskjótt og Alþingi kom saman, svo lá honum á að koma henni á framfæri. Það hlýtur þess vegna að vekja mikla furðu, að hann skuli nú skorast undan að ræða þessa stórmerku tillögu.

Fer honum í því á sömu leið og gömlu konunni, sem segir frá í vísunni:

„Margur hélt mig málugan,“

mælti kerling orðskvið þann,

„þagað gat ég þó með sann,

þegar hún Skálholtskirkja brann.“

Þessi þagmælska Einars Olgeirssonar nú er þeim mun merkilegri, sem það væri synd að segja, að stjórnarandstaðan, hv. Sósfl., sameiningarflokkur alþýðu, hafi verið athafnalaus frá því að þingi lauk í vor.

Menn minnast þess, að við útvarpsumr. frá Alþingi á s. l. vori lét hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, það vera ályktarorð sín, að hann skoraði á landsmenn að velta núverandi stjórn frá völdum með utanþingsaðgerðum, af því að vonlaust væri að gera það þá um sinn á löglegan hátt.

Um þetta var ekki látið sitja við orðin ein. Reynt var að efna til víðtækrar verkfallsöldu um land allt. Í fyrstu var ekki farið leynt með, að tilgangur hennar ætti að vera sá að koma stjórninni frá völdum. Úr því tilræði varð að vísu miklu minna en til var stofnað. Bráðlega var alveg frá því horfið að halda því fram, að tilgangurinn með verkföllunum væri sá að breyta til um ríkisstjórn í landinu. En það var þá fyrst gert, þegar ljóst varð, að stjórnin festist fremur í sessi við slíkar árásir en um hana losnaði.

Hinu tjáir ekki að neita, að með verkföllunum tókst að skapa enn meiri glundroða í fjármálum landsins en áður ríkti þar, og varð þó árangurinn einnig sýnu minni að því leyti en upphafsmennirnir höfðu vonað. Verkamönnum var bakað mikið tjón með langvinnu verkfalli, sem þeir engan veginn fengu bætt með þeirri kauphækkun. sem að nafninu til varð.

En tjón þjóðarheildarinnar af þessum verkföllum nemur áreiðanlega býsna mörgum milljónum króna, og er þó óbeini skaðinn enn þá meiri, sá, sem stafar af aukinni ringulreið í verðlagsmálunum, og var þó það öngþveiti ærið áður.

Þá hefur hv. Sósfl., sameiningarfl. alþýðu, haldið uppi gegndarlausum árásum á ríkisstjórnina, bæði í blöðum sínum og á mannamótum. Forkólfar hans hafa í því skyni ferðazt um landið þvert og endilangt. Og þó að messufall hafi orðið hjá þeim sums staðar og þeir hafi miklu víðar fengið daufar undirtektir hjá þeim fáu hræðum, er fengust til að hlýða á þá, er þeirra gerðin hin sama. Ofstækið og löngunin til að koma á upplausn og ringulreið hefur gert þessa hv. þm. eirðarlausa með öllu.

Sumir forystumanna Sósfl. hafa og ekki látið sér nægja að ferðast um Ísland eitt, heldur hafa þeir, svo sem hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, og annar enn frægari ferðalangur, hv. þm. Siglf., Áki Jakobsson, ferðazt um önnur lönd og setið þar ráðstefnur með flokksbræðrum sínum, kommúnistum þeirra landa. Er ekki að efa, að tilgangurinn hefur verið sá að sækja þangað örvun til sem rösklegastrar sóknar gegn núverandi ríkisstjórn Íslands. Auk þess, sem þeir auðvitað hafa reynt að fræða aðra um okkar hagi á venjulegan hátt. En það er önnur saga, að vísu hvorki ófróðleg né óskemmtileg, þó að ekki sé unnt að rekja hana hér.

Þó að allir núv. ráðherrar og gerðir þeirra hafi hlotið heldur óvinsamlega dóma hjá hv. Sósfl., sameiningarfl. alþýðu, held ég þó, að það sé ekki ímyndunin einber, að einna minnstrar vinsemdar hafi, a. m. k. eftir því sem á leið, gætt til mín. Það hefur margt verið að mér fundið og sumt að sjálfsögðu með réttu, eins og t. d. það, að ég sé ljótur og harla ófrýnilegur ásýndum. Er og svo að sjá, sem þeim flokksmönnum þyki innræti mitt mjög fara eftir útlitinu.

Þannig er ég t. d. í einu síðasta blaði Þjóðviljans ásakaður um að heyja kynþáttaofsóknir hér á landi fyrir þá ráðstöfun að banna skemmtanir erlendra trúða og annarra slíkra skemmtimanna, sem enginn menningarauki stafar af. Í hinu orðinu segir blaðið sjálft, að „það hefði vitanlega verið eðlileg og sjálfsögð ráðstöfun að takmarka eða banna með öllu starfsemi slíkra manna og hefði átt að gerast fyrir löngu“. Svo mörg eru orð blaðsins, en af því að það er ég, sem geri þessa „eðlilegu og sjálfsögðu ráðstöfun“. þá er það sönnun fyrir kynþáttahatri mínu.

En hvað halda menn, að sagt hefði verið, ef ég á sama tíma og hér er skortur á nauðsynjum vegna gjaldeyrisleysis og fjöldi ungra efnismanna fær af sömu ástæðum vart eða ekki stundað nám erlendis, hefði veitt bandarískum jassleikurum dvalarleyfi hér undir því yfirskini, að það væri ekki eyðsla á erlendum gjaldeyri að borga fyrir þá farið flugleiðis fram og aftur yfir Atlantshafið milli Bandaríkjanna og meginlands Evrópu.

Sama daginn er ég ásakaður fyrir að „lögleiða innbrot hér á landi“, vegna þess að ég taldi ekki ástæðu til að höfða sakamál gegn tveim opinberum starfsmönnum, sem gert höfðu gangskör að því að komast eftir, hver væri eigandi skúrs, sem stóð í heimildarleysi inni á Íþróttavellinum í Reykjavík, og gerðu síðan réttum eiganda aðvart, jafnskjótt og þeir komust að, hver hann var.

Ásakanirnar um vernd á innbrotsþjófum og kynþáttahatur eru þó vissulega smávægilegar miðað við landráðaákærurnar, sem sí og æ eru endurteknar í Þjóðviljanum.

Suma af landráðaglæpum mínum á ég þó ekki að hafa framið einn og óstuddur, því að þar er ég sagður vera í fylgd með þeim yfirgnæfandi meiri hluta Alþ., sem samþ. samninginn við Bandaríkin um brottflutning herliðs þeirra og takmörkuð afnot þeirra um sinn af Keflavíkurflugvellinum. Til viðbótar þessum almennu landráðum, sem þér, hv. þingbræður mínir, kvað hafa gert yður seka um, koma svo einkalandráð mín.

En þau eru þá ekki heldur féleg, því að ég er sagður hafa brotið hvorki meira né minna en sjálfa 3. málsgrein 91. greinar almennra hegningarlaga, nr. 19 frá 12. febr. 1940, og er lagt fangelsi, allt að 16 árum, við því broti.

Samkv. ummælum Þjóðviljans er hið eina, sem hlífir mér við þessari 16 ára fangelsisvist, það, að ég er sjálfur dómsmálaráðherra og læt því ekki höfða mál á móti hinum ægilega afbrotamanni utanríkisráðherranum.

En þó að lögspeki þeirra Þjóðviljamanna sé mikil, má þó segja, að í þessu skjótist þeim, þó skýrir séu. Ákæruvaldið út af embættisbrotum ráðherra er sem sé alls ekki hjá dómsmálaráðherra, hvort sem hann heitir Bjarni Benediktsson eða eitthvað annað, heldur samkv. 14. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands hjá sjálfu Alþingi.

Úr því að hv. Sameiningarfl. alþýðu, Sósfl., telur, að slíkur afbrotamaður sitji í sæti utanríkisráðherra, er það þess vegna skylda þingmanna hans, en ekki dómsmálaráðherrans, að hlutast til um, að mál sé höfðað á móti honum.

Ég tel víst, að hinn virðulegi flokkur láti ekki fremur í þessu en öðru sitja við orðin ein. Bið ég þess því með eftirvæntingu, að fram komi á Alþ. tilllaga um ályktun slíkrar málshöfðunar.

Hið eina, sem ég þá get glaðzt yfir, er, að hér skuli ekki vera í lögum ákvæði, sem var í sumum hegningarlögum áður fyrri, að hegningar fyrir mörg afbrot voru allar lagðar saman án nokkurs frádráttar.

Eftir þeim lögum mundi ég vafalaust hafa verið dæmdur til margfalds og ítrekaðs lífláts. ekki sízt eftir að upp komst hinn síðasti af stórglæpum mínum, sem Þjóðviljinn skýrir frá með margfaldri fyrirsögn s. 1. sunnudag, sem sé, að ég hafi þá á laugardag neitað að tala við sjálfan Ammendrup, þann, sem vildi flytja inn jassleikarana amerísku.

Mikilvægi þess atburðar var slíkt, eftir frásögn blaðsins, að helzt minnti á, þegar Vilhjálmur I. Prússakonungur neitaði að tala við sendiherra Frakkakeisara og hratt þar með af stað stríðinu 1870.

Ástæðan til þess, að flutningur málshöfðunartillögunnar gegn mér hefur dregizt, er auðsjáanlega sú, að áður en þingmönnum hv. Sameiningarfl. alþýðu, Sósfl., vannst tími til að sinna skyldum sínum gagnvart íslenzkum almenningi, urðu þeir að hlýða boði þess húsbónda, sem þeir meta miklu meira en alþýðuna hér á landi, svo sem fram kemur í flutningi máls þess, sem hér er til umræðu.

Jafnvel þó að glæpir mínir séu miklir og margvíslegir, er, eins og ég áður drap á, langt frá því, að þeir séu hinir einu, sem núverandi ríkisstjórn á að hafa framið. Öll er ríkisstjórnin sögð glæpunum ofurseld. Það mundi taka allt of langan tíma að telja öll afbrot hennar upp, en segja má, að kjarna ásakananna sé þjappað saman í greinargerð tillögu þeirrar, sem nú er til umræðu, þar sem sagt er:

„Ráðherrar núverandi ríkisstjórnar — eru reyndir að því að ofurselja erlendu stórveldi dýrmæt landsréttindi þvert ofan í vilja þjóðarinnar og eru nú að vinna að því að eyðileggja afkomumöguleika hennar og rýra lífskjör almennings í hvívetna —.

Eftir þessar geipilegu ásakanir hefði mátt vænta þess, að hv. flm., 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, hefði látið það verða sitt fyrsta verk á þessu nýsamankomna Alþingi að flytja tillögu um að hindra stjórnina í einhverju af hinum mörgu eyðileggingarverkum hennar, því að ekki hefði átt að standa á honum, svo fjölfróðum manni og víðreistum, að gera nánar grein fyrir þeim. Og ef það var einhverjum vandkvæðum bundið, var þó það ráð fyrir hendi að flytja vantraust á svo vonda stjórn. Ekki hefði átt að vera erfitt að rökstyðja það. Hitt er óneitanlega nokkuð veik vörn gegn öllum þessum ófarnaði og ósköpum, að skora á skemmdarvargana sjálfa að gefa skýrslu um sín skuggalegu áform, svo sem hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, ætlast nú til.

En hv. 2. þm. Reykv., Einari Olgeirssyni, finnst allt annað mega sitja á hakanum fyrir einu stórmáli, sem hann endilega varð að koma á framfæri.

Svo er mál með vexti, að úti í löndum, suður í París, var í sumar haldin ráðstefna um viðreisn Evrópu. Franska og brezka ríkisstjórnin boðuðu til þessarar ráðstefnu og buðu þangað öllum ríkjum í Norðurálfu, að undanteknum Spáni einum. Ástæðan til þess, að efnt var til ráðstefnu þessarar, var vaxandi öngþveiti í efnahagsmálum Norðurálfu, en um þann voða hafði Mr. Marshall, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, talað í ræðu, sem hann hélt í Harward 5. júní s. l. Hét hann þá Norðurálfuþjóðunum stuðningi Bandaríkjanna, ef þær legðu fram skýrslu um þarfir sínar og framleiðslugetu og legðu enn fremur fram gild rök fyrir því, að væntanleg fjárhagsaðstoð Bandaríkjanna yrði til þess notuð fyrst og fremst að koma iðnaði Evrópuþjóðanna og matvælaframleiðslu í það horf, að þær gætu af eigin afrakstri séð sér farborða.

Nú er það að vísu umdeilanlegt, hversu mikinn þátt Íslendingar eigi að taka í alþjóðasamtökum, en fátt varðar þá þó meira en að þjóðir Norðurálfu rétti við. Ef fátækt og vandræði haldast við með þessum þjóðum, er ljóst, að sá faraldur hlýtur að berast á örskammri stundu til Íslands. Að vísu getum við ekki lagt mikið af mörkum til viðréttingar nágrönnum okkar. Eftir okkar litlu getu er okkur þó skylt, bæði annarra vegna, en þó umfram allt sjálfra okkar vegna, að taka þátt í uppbyggingarstarfinu. Það lá því í augum uppi, að við hlutum að taka þátt í þessari ráðstefnu, sem tvær af okkar beztu vina- og viðskiptaþjóðum efndu til.

Ríkisstjórnin varð um þetta sammála svo og utanríkismálanefnd, þegar málið var undir hana borið á fundi 7. júlímánaðar s. 1. Þar var aðeins einn, sem skarst úr leik, hv. fulltrúi Sameiningarfl. alþýðu. Sósfl., 6. þm. Reykv., Sigfús Sigurhjartarson. Mótbára hans var þó í fyrstu aðeins sú, að við ættum að bíða þangað til sýnt væri, hverja afstöðu hin Norðurlöndin tækju til þessa boðs, þó að það hefðist upp úr honum að lokum, að hann væri á móti því, að við þægjum boðið.

Danmörk, Noregur og Svíþjóð höfðu þá efnt til fundar um þetta, án þess að kveðja Ísland til. Þótti öllum öðrum en hinum háreista og djarfhuga hv. 6. þm. Reykv., Sigfúsi Sigurhjartarsyni, ástæðulaust að bíða ákvörðunar fundar, þar sem við værum hvergi nærri og ekki til kvaddir.

Á sínum tíma kom það einnig í ljós, að öll þessi þrjú ríki tóku sömu ákvörðun og Ísland hafði gert, sem sé þá að þiggja boðið. Ríkisstjórnir þeirra mátu hagsmuni landa sinna á hinn sama veg og ríkisstjórn Íslands og utanríkismálanefnd höfðu metið íslenzka hagsmuni.

Raunin varð sú, að öll ríkin, 16 að tölu, í vestur- og mið-Evrópu, sem boðið fengu, tóku því. En því miður höfnuðu Rússar og nokkrir nágrannar þeirra boðinu. Það getur ekki verið hlutverk íslenzku ríkisstjórnarinnar að átelja afstöðu þeirra ríkja, sem ekki vildu þekkjast boðið. Stjórnir þeirra ráða gerðum sínum án þess að þurfa um þær að sækja dóm undir okkur. Hins vegar getur engum óblinduðum Íslendingi blandazt hugur um, að lítt hefði land okkar vaxið eða orðið öfundsvert af afstöðu sinni, ef það hefði bætzt í hóp þeirra, sem boðinu neituðu.

En það voru ekki aðeins stjórnarvöldin í Austur-Evrópu og á Balkan, sem neituðu þátttöku í Parísarráðstefnunni, heldur hófu kommúnistar um gervallan heim heilagt stríð gegn ráðstefnunni. Sá eldmóður krossfarans, sem nú hefur gripið hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, út af þessu máli, hefur einhvern veginn borizt með austanblænum hingað til landsins.

Það er þessi óskiljanlegi austanandvari, sem ætíð leikur um forystumenn hv. Sameiningarfl. alþýðu, Sósfl., sem hefur hvíslað því að hv. 2. þm. Reykv., Einari Olgeirssyni. að það, sem íslenzku þjóðinni riði nú mest á af öllu, væri að gera Parísarráðstefnuna tortryggilega. Þá viðleitni yrði að setja ofar öllu öðru. Henni yrði að helga fyrsta mál stjórnarandstöðunnar á þessu nýja þingi. Öll skemmdarverk hrunstjórnarinnar illu yrðu að liggja í láginni á meðan tekið væri undir sönginn að austan um voðann, sem stafaði af Parísarráðstefnunni.

En þeir segja mest af Ólafi konungi, sem hvorki hafa heyrt hann eða séð. Ef til vill hefði og verið hægt að egna menn hér á landi til haturs gegn Parísarfundinum, ef engar fregnir hegðu af honum borizt nema með austanblænum. En hvaða gagn það hatur átti svo að gera íslenzku þjóðinni, er raunar allt annað mál.

En nú vill svo vel til, að einn ágætur Íslendingur, Davíð Ólafsson fiskimálastjóri, fylgdist með störfum Parísarfundarins sem erindreki íslenzku stjórnarinnar. Davíð hefur gefið ýtarlega skýrslu um ráðstefnuna og sérstaklega þátttöku Íslands í henni, en hann var sá fulltrúi, sem allan starfstíma fundarins fór með umboð Íslands.

Skýrsla Davíðs er því miður svo löng, að ég get nú ekki lesið hana alla og skal því aðeins drepa á nokkur höfuðatriði, og munu menn þá sjá, að eðli ráðstefnunnar var allt annað en hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, vill láta menn halda.

Aðalverkefni ráðstefnunnar var að safna gögnum um, hvað helzt væri hægt að gera til endurreisnar Evrópu, og semja framleiðsluáætlun samkv. upplýsingum þeirra landa. sem þátt tóku í ráðstefnunni. Um þetta segir Davíð Ólafsson:

„Til þess að tryggja það, að svo miklu leyti sem að þeim snýr, að endurreisn Evrópu verði framkvæmd, samþykkja hinar þátttakandi þjóðir að gera sitt til

1) að auka framleiðsluna, aðallega á kolum og matvælum, eftir föngum.

2) að nota til hins ýtrasta framleiðslugetu sína, bæði hvað snertir vinnuafl og tæki.

3) að fullkomna framleiðslutæki sín og samgöngutæki sín og samgöngutæki svo sem frekast er unnt, og auka þannig afkastagetu vinnuaflsins, vinnuskilyrði verði bætt og afkomumöguleikar Evrópuþjóðanna bættir.

4) að vinna saman innbyrðis og hafa samvinnu við aðrar þjóðir, sem þess óska, að öllu því, sem leiða mætti til lækkandi tolla og minnkandi hindrana á milliríkjaviðskiptum.

5) að hafa samvinnu um nýtingu sameiginlegra gæða.“

Þarna er það í mjög stuttu máli rakið, sem Evrópuþjóðirnar ætla af sinni hálfu að gera til að rétta hag sinn við. Ég sé ekki, að það sé neitt ískyggilegt eða nokkuð það, sem Ísland geti haft skömm eða skaða af að taka þátt í. Þvert á móti sýnist mér, að hér sé um stórfellda nýsköpun að ræða, nýsköpun, sem er alveg sama eðlis og okkar íslenzka nýsköpun, sem Einar Olgeirsson áður fyrri vissulega lét sér annt um, áður en austanvindurinn feykti honum af réttri leið.

Þátttaka Íslands í þessum áformum, sem sannarlega geta miklu góðu til vegar komið fyrir þann hluta heimsins, er við byggjum, var fólgin í því að gera grein fyrir, hverjar nauðsynjar við þurfum að fá innfluttar nú og á næstu árum. En þær nauðsynjar þarf að mestu leyti að sækja til þeirra þjóða, sem að ráðstefnunni stóðu. Í sambandi við þetta var einnig gerð grein fyrir gjaldeyrisástandi og horfum. eftir því sem þá voru gögn fyrir hendi suður í París.

Umfram allt beindist þó þátttaka Íslands að því að minna þær þjóðir, sem þarna voru samankomnar, á, að Ísland hefði til sölu fisk, sem þær gætu notað. Mun það öllum vera augljóst, að það er lífsskilyrði fyrir Íslendinga, að í áætlunum um endurreisn Norðurálfu sé hæfilegt tillit tekið til fiskveiðanna og séð fyrir, að sem flestir geti orðið neytendur fiskjar, bæði sjálfum sér og framleiðendunum til gagns.

Fulltrúi Íslands beindi áhrifum sinum einkum að því að brýna þetta fyrir mönnum. Skal ekki um það sagt, að hverju gagni það kemur. En hitt er ljóst, að ekki hefði okkar hlutur orðið betri, ef fiskurinn hefði alveg fallið niður, þegar rætt var um matarþörf þessara Evrópuþjóða og áætlanir gerðar um fullnæging hennar.

Því miður er efnahagur margra Evrópuríkja svo slæmur eftir eyðileggingar styrjaldarinnar, að þeim er um megn að standa sjálf straum af endurreisnarstarfinu. Þess vegna er það von þeirra, að áætlanir þessar verði grundvöllur þess. að Bandaríkin veiti þeim fjárhagslegan tilstyrk.

Ísland er hins vegar ekki í hópi þeirra þjóða, sem hafa beðið um slíka aðstoð, og við skulum vona, að við berum gæfu til að haga svo málum okkar, að við þurfum ekki á henni að halda.

Um þetta segir í skýrslu Davíðs Ólafssonar: „Þjóðir þær, sem þátt tóku í ráðstefnunni, voru mjög misjafnlega á vegi staddar fjárhagslega, en verst var að sjálfsögðu ástandið í þeim löndum, sem styrjöldin geisaði í og hafði valdið miklum eyðileggingum á mannvirkjum.

Ýmsar af þeim þjóðum, sem þátt tóku í ráðstefnunni, voru þó ekki þangað komnar í því skyni að verða beint aðnjótandi væntanlegrar aðstoðar frá Bandaríkjunum, heldur var tilgangur þeirra sá að hafa samvinnu við aðrar þjóðir Evrópu um endurreisn álfunnar, þar sem þær álitu réttilega, að ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir velmegun þeirra sjálfra væri, að sú endurreisn mætti takast sem fyrst.

Frá Íslands hálfu lá engin ósk fyrir um fjárhagslega aðstoð. — Hins vegar getur það orðið mjög þýðingarmikið fyrir okkur, ef þær þjóðir, sem gjarnan vildu kaupa framleiðslu okkar, en geta það ekki vegna gjaldeyriserfiðleika, fengju þá aðstoð, sem vænzt er eftir. Mundi það hafa í för með sér aukna framleiðslu viðkomandi þjóða og minnkandi gjaldeyriserfiðleika. Enn fremur væri það þýðingarmikið, ef takast mætti, sem afleiðing af fjárhagslegri aðstoð til þeirra þjóða, sem þess óskuðu, að losa nokkuð um þær viðjar, sem öll milliríkjaviðskipti eru nú hneppt í, og loks ef sá árangur yrði, sem vonir standa til, að samvinna Evrópuþjóðanna á sviði fjármála og viðskipta gæti leitt til aukinna milliríkjaviðskipta og aukinnar velmegunar þjóðanna, en það var álit ýmissa þeirra, sem þátt tóku í ráðstefnunni og kunnugir eru þessum málum, að aldrei hefði komið fram jafneindreginn vilji til samstarfs eins og á þessari ráðstefnu.“

Að svo stöddu skal ég ekki fara fleiri orðum um þátttöku Íslands í Parísarfundinum. Sú þátttaka miðaði að því að forða Íslandi frá því að taka stórfelld lán. Alveg þvert á móti því, sem hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, gefur í skyn í hinni austrænu þingsályktunartillögu sinni.

Enda er það eindregin stefna núverandi ríkisstjórnar, að Íslendingar verði í allra lengstu lög að komast yfir núverandi örðugleika án erlendrar lántöku. Þar sem stefna hv. 2. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar, og félaga hans hlýtur hins vegar óhjákvæmilega að leiða til þess, ef ofan á verður, að Íslendingar á skammri stund lendi á kafi í skuldum, ef þeir eiga ekki að selja ákvörðunarvald í sínum eigin málum með fiskinum, eins og orð hv. 2. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar og félaga hans óneitanlega stundum hníga að.

Í áróðri sínum í sumar hafa þeir félagar haldið því mjög á lofti manna á milli, að auðvelt væri að selja allar íslenzkar afurðir í Austur-Evrópu fyrir svo hátt verð, að núverandi verðlagi mætti halda hér á landi, einungis ef vinveitt stjórn þessum þjóðum færi hér með völd.

Því miður hefur hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, og skoðanabræður hans aldrei í alþjóðar áheyrn útskýrt, hvað þeir eigi við með þessum fullyrðingum sínum.

Ef þeir meina það, sem óneitanlega virðist felast í orðum þeirra, að aðrir en Íslendingar eigi að segja til um, hverjir sitji í ríkisstjórn á Íslandi, er öruggt, að sá boðskapur fær lítinn hljómgrunn meðal íslenzku þjóðarinnar. Stjórnir fara og koma, og í frjálsu þjóðfélagi mun seint verða mynduð sú stjórn, að öllum líki og svo sé háttað, að hún sitji að eilífu. En eitt er víst, og það er, að á meðan Íslendingar ráða nokkru sjálfir um mál sín, ætlast þeir til, að þeir einir og engir aðrir kveði á um, hvaða stjórn sitji á Íslandi hverju sinni.

Því fer og fjarri, að þessir hugarórar hv. 2. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar, og félaga hans eigi nokkra stoð í veruleikanum. — Samninganefndir, sem nú hafa farið víðsvegar um lönd, hafa hvergi orðið þess varar, að andúð á íslenzku ríkisstjórninni réði neinu um það, hversu samningar um fiskverð og lýsis tækjust.

Þar hefur þvert á móti hvarvetna komið fram sama skoðunin, sem samninganefndin austur í Moskva hefur eftir viðsemjendunum rússnesku, er „þeir sögðust sem góðir kaupmenn gera kaupin þar, sem þau væru hagkvæmust. Við yrðum að vera samkeppnisfærir í verði, ef við vildum selja varning okkar. — Verðlagsmálin á Íslandi þóttu þeim vera vandi stjórnarinnar þar, en ekki ráðstjórnarinnar í Moskva.“

Þessi hollráð hinna rússnesku samningamanna eru áreiðanlega af heilum huga mælt. Ráðstjórnin austur í Moskva kaupir af þeim, sem bezt kaup býður, og ætlar sér ekki að leysa verðlagsvandræði okkar með því að gefa okkur hærra verð en hún þarf að greiða öðrum. Hún mun ekki leysa okkar vanda, frekar en við ætlum okkur ekki þá dul að segja Rússum fyrir, hvernig þeir skuli hátta sínum málum. Skipti sjálfstæðra þjóða geta ekki orðið á öðrum grundvelli en þessum, og það er sannarlegt gleðiefni, að viðskiptaþjóðir okkar skuli hafa á þessu hinn sama skilning og við.

Hitt þarf ekki heldur að fara mörgum orðum um, að íslenzka ríkisstjórnin núverandi sé óvinsamleg þjóðunum í Austur-Evrópu. Það er þvert á móti eindregin ósk og vilji ríkisstjórnarinnar, að sem mest vinátta megi haldast á milli okkar litlu þjóðar og allra annarra þjóða og þar á meðal hinna miklu þjóða, sem þann heimshluta byggja.

Um sjálfan mig er það sannanlegt, að ég átti í því engu minni hlut, ef ekki meiri, en hv. þm. Sameiningarfl. alþýðu, Sósfl., að á sínum tíma var stofnað íslenzkt sendiráð í Moskva, og ég hef ætíð verið eindreginn talsmaður þess að hafa eðlileg, vinsamleg skipti við Rússland, eins og önnur Austur-Evrópuríki. Hitt er allt annað mál, þó að meginþorri Íslendinga telji sér ekki ávinning af að taka upp sama stjórnarfar og þær hafa, frekar en þær vilja taka okkar stjórnarfar sér til fyrirmyndar.

Í umræðum hér á hv. Alþingi s. 1. vor kallaði hv. 4. landsk. þm., Brynjólfur Bjarnason, mig stríðsæsingamann, af því að ég tel kommúnistískt stjórnarfar ekki henta á Íslandi. Þetta heiti er eitt þeirra, sem austanandvarinn sífellt blæs í málpípur hv. Sameiningarfl. alþýðu, Sósfl. Verður þó að segja það eins og er, að þetta orð hljómar einstaklega illa í munni hv. 4. landsk. þm., Brynjólfs Bjarnasonar, og nánustu félaga hans. Því að þeir eru einmitt einu stríðsæsingamennirnir, sem þetta land hefur alið, a. m. k. á seinni öldum. — Kærleikar þeirra til mín, sem óneitanlega voru allheitir um skeið, byrjuðu einmitt að kólna, þegar ég beitti mér gegn þeirri ráðagerð þeirra að steypa Íslandi í stríð á móti Japönum og Þjóðverjum snemma árs 1945.

En af hverju er jafngreindur maður eins og hv. 4. landsk. þm., Brynjólfur Bjarnason, með svona uppnefni, og hvers vegna er jafngott skinn og hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, óneitanlega er að skrökva upp fjandskap til vinsamlegra þjóða og fyrirætlun um kúgun á almenningi?

Það er vegna þess, að taumlaus útþenslu- og kauphækkunarstefna þeirra hefur nú leitt þjóðina í ógöngur.

Af einhverjum orsökum vilja þeir ekki snúa við, heldur halda lengra í ófæruna. Þess vegna reyna þeir að telja mönnum trú um markaði, sem ekki eru til. En af því að ómögulegt er, að venjulegir mennskir menn grípi ekki fegins hendi ágætum sölumöguleikum á framleiðslu landsins, ef fyrir hendi væri, er ríkisstjórninni lýst sem samsafni úrhraka og stórglæpamanna.

Sjálfir vita þó þessir menn, að allt hjal þeirra um óendanlega markaði fyrir afurðir okkar í Austur-Evrópu fyrir það verð, sem okkur lystir, er því miður af sama toga spunnið og vefur hv. þm. Siglf., Áka Jakobssonar, fyrir réttu ári, þegar hann þóttist vera að semja við hr. Semenov um afurðir okkar. Rétt stjórnarvöld rússnesk tættu þann heilaspuna í sundur, strax og til þeirra kasta kom, og sögðust ekki, sem von var, kaupa aðrar vörur en þær, sem Rússar hefðu þörf fyrir, og ekki af okkur, nema við værum samkeppnisfærir við aðra.

Sama er reynslan hvarvetna. Á þessu ári hefur einmitt verið reynt rækilegar en nokkru sinni fyrr að selja vörur okkar í Austur-Evrópu. Ástæðurnar til, að það hefur ekki tekizt betur en raun ber vitni um, eru, að þessar þjóðir eru engar góðgerðastofnanir.

Á meðan við erum ósamkeppnisfærir vegna verðbólgunnar og of mikils kostnaðar við framleiðsluna, bíða okkar vonbrigði og erfiðleikar.

Þegar við komum málum okkar í lag, eins og við einir getum gert og verðum að gera, bíða okkar farsælli tímar og meiri möguleikar en nokkru sinni fyrr.