14.10.1947
Sameinað þing: 6. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (3252)

5. mál, Parísarráðstefnan og dollaralán

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Tillagan á þingskjali 5, sem er grundvöllur þessara útvarpsumræðna, er flutt af öðrum höfuðforustumanni íslenzkra kommúnista, hv. 2. þm. Reykv., Einari Olgeirssyni. Eins og menn þegar hafa heyrt af umræðum þessum, fjallar till. um það, að ríkisstjórnin eigi að gefa þinginu skýrslu um þátttöku sína í Parísarráðstefnunni og samningaumleitanir um dollaralán.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur nú þegar í umræðunum skýrt frá verkefnum Parísarráðstefnunnar og hrakið hinar fjarstæðu fullyrðingar og þann látlausa róg, er kommúnistar hafa reynt að þyrla upp í sambandi við ráðstefnu þessa og þátttöku Íslands í henni. En tillaga þessi, sem er mjög einkennandi, bæði að efni og formi, um starfsaðferðir og stjórnarandstöðu íslenzkra kommúnista, gefur ágætt tækifæri til þess að minnast á aðkallandi verkefni í íslenzkum stjórnmálum og þátt og starfsemi kommúnista varðandi lausn aðsteðjandi vandamála.

Orðalag á greinargerð fyrir tillögunni er mjög táknrænt fyrir bardagaaðferðir kommúnista bæði hér á landi og annars staðar og lýsir einnig mætavel aðförum þeirra öllum í stjórnarandstöðunni. Í grg. þessari segir m. a., — með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem ráðherrar núverandi ríkisstjórnar hins vegar eru áður reyndir að því, að ofurselja erlendum stórveldum dýrmæt landsréttindi, þvert ofan í vilja þjóðarinnar, og eru nú að vinna að því að eyðileggja afkomumöguleika hennar og rýra lífskjör almennings í hvívetna.

Orðbragðið sver sig átakanlega í ætt kommúnista, bæði hér á landi og annars staðar. Það er eins og heyrist bergmál úr sölum Sameinuðu þjóðanna, þar sem fulltrúi kommúnistans Títós í Júgóslavíu var að flytja ræðu fyrir fáum dögum, þar sem hann kallaði grísku stjórnina samkundu svikara og níðinga, Breta og Bandaríkjamenn ofbeldisseggi og formann brezku fulltrúanefndarinnar á allsherjarþinginu, Hector McNeil, sóma-, tilfinninga- og siðgæðislausa persónu.

Það er víst og áreiðanlegt, að endurreisn eða nýopinberun alþjóðasambands kommúnista, „Komintern“, sem nú á að hafa aðseturstað sinn í ríki Títós, og sagt er að hafi þar upplýsingaskrifstofu, mun upplýsa íslenzka kommúnista bæði um það, hvernig þeir eigi að hegða sér í alþjóðamálum, og eins um fyrirmyndarorðbragð og starfsaðferðir.

En það er ekki einungis orðbragðið, sem einkennir kommúnista, hvar sem þeir eru, hvort heldur á Íslandi eða í Júgóslavíu, — afstaðan í utanríkismálum er nákvæmlega eins og algerlega mótuð af utanríkispólitík ráðstjórnarríkjanna. En sú afstaða ræður svo aftur beint og óbeint afskiptum þeirra af innanlandsmálum.

Kommúnistar hafa alls staðar barizt heiftúðlega gegn Parísarráðstefnunni. Jafnvel ríki, er gjarnan vildu taka þátt í ráðstefnunni, eins og Finnland og Tékkóslóvakía, virðast hafa fallið frá ákvörðunum sínum vegna sterkra áhrifa úr austurvegi. Hins vegar er þess að gæta, að þau ríki hér í álfu, þar sem jafnaðarmenn fara með stjórn, annaðhvort einir eða með öðrum flokkum, eins og til dæmis í Bretlandi, Svíþjóð, Noregi, Belgíu, Hollandi og Frakklandi, töldu sjálfsagt að taka þátt í ráðstefnunni, og gefur það út af fyrir sig nokkra hugmynd um afstöðu jafnaðarmanna almennt til þessa máls. Hæstv. utanrrh. hefur og rökstutt það rækilega, hversu eðlilegt það var og sjálfsagt, að Ísland yrði þar aðili. En um hvatir kommúnista, hérlendra jafnt sem erlendra, til andstöðu við ráðstefnuna þarf í raun og veru í engar grafgötur að fara.

Það mátti ekki koma á samtökum til efnahagslegrar viðreisnar álfunnar. Það þótti ekki heppilegt fyrir kommúnista til aukinna áhrifa og yfirráða.

Hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, hefur slegið því föstu í greinargerð fyrir tillögu sinni. að ríkisstjórnin hafi, að þinginu fornspurðu, gengið að samningaumleitunum um dollaralán. Ég veit og með vissu, að skæðar tungur kommúnista hafa reynt að dreifa þessari fullyrðingu út á meðal almennings. Nú hefur hæstv. utanrrh. skýrt frá því sanna í þessu efni, en fullyrðingar þessar, bæði í þingskjölum og í fyrirskipuðum. munnlegum áróðri, eru einnig mjög táknrænar um starfsaðferðir og stjórnarandstöðu kommúnista. Fjarstæðar fullyrðingar og fyrirlitning á staðreyndum er uppistaða og ívaf í hinum mikla blekkingavef, er kommúnistar leitast nú við að vefa.

Eins og kommúnistar, bæði hér á landi og annars staðar, hafa barizt með hnúum og hnefum gegn tilraununum til samtaka um efnahagslega viðreisn Evrópu, á sama hátt eru kommúnistar hér á landi að tygja sig til orrustu gegn efnahagslegri tryggingu íslenzkra atvinnuvega. Og baráttuaðferðin er nákvæmlega eins og á alþjóðlegum vettvangi. Staðreyndum er neitað og fullyrðingum haldið á loft, sem enga stoð eiga í veruleikanum. Það er full ástæða til við umræðu þessa máls að koma nokkuð nánar inn á það efni.

Þegar fjárhagsráð gefur ýtarlega og rökstudda skýrslu um gjaldeyrisástand hér á landi, dettur málgögnum kommúnista ekki í hug að birta þá skýrslu né segja frá þeim upplýsingum, sem þar eru gefnar.

Meðal kommúnista er aðeins fullyrt blákalt, að allt sé í stakasta lagi hvað gjaldeyri snerti, að verðbólgan hindri ekki atvinnurekstur og framkvæmdir og að unnt sé að selja íslenzkar afurðir fyrir geysihátt verð, — vel að merkja í ráðstjórnarríkjunum og nágrannaríkjum þeirra í Austur-Evrópu, — ef ríkisstjórnin vildi, — en hins vegar sé ríkisstjórnin að búa til hrun og kreppu, að manni skilst af einskærum illvilja til alþýðu þessa lands. Jafnósvífinn og fáránlegur málflutningur og stjórnarandstaða hefur sjaldan eða aldrei heyrzt í íslenzkum stjórnmálum. Og mikið mega þessir stjórnarandstæðingar vera þakklátir fyrir það, að hér á landi gilda ekki búlgarskir stjórnskipulagshættir, því að þar í landi hefur einvaldurinn Dimitrov lýst yfir því, að hann mundi ekki þola stjórnarandstöðu, heldur í mesta lagi gagnrýni á smáatriðum.

Í ræðum þeirra hæstv. ráðherra, sem talað hafa hér á undan mér, hefur allverulega verið komið inn á þessi mál og hinar röngu fullyrðingar og blekkingar kommúnista rækilega hraktar. En óvefengjanlegur sannleikur málsins er sá, að nýjustu skýrslur og upplýsingar sanna varðandi gjaldeyrinn, að það er vel í lagt að gera ráð fyrir því, að bankarnir eigi erlendan gjaldeyri, sem að viðbættum væntanlegum útflutningstekjum það sem eftir er af árinu, muni aðeins hrökkva til þess að standa straum af þegar áföllnum gjaldeyrisskuldbindingum, þótt engin ný leyfi yrðu gefin út til áramóta, að verðvísitala ef ekki verða auknar niðurgreiðslur, verður við næsta útreikning 324 stig og að greidd eru nú niður 56 stig, svo að raunveruleg vísitala um næstu mánaðamót verður ekki lægri en 380 stig, og útlit fyrir frekari hækkun og minnkandi möguleika á niðurgreiðslum ríkissjóðs, að ekki er með nokkru móti unnt að selja íslenzkar sjávarafurðir á erlendum markaði nándar nærri því verði, sem ríkissjóður ábyrgist fyrir þessar afurðir á yfirstandandi ári, og það mun kosta ríkissjóð tugi milljóna og alls ekki vera hægt að taka slíka ábyrgð áfram, en talið var þó, að ábyrgðarverðið mætti ekki vera lægra, miðað við 310 stiga vísitölu, til þess að hægt væri að stunda arðbæran atvinnurekstur.

Það er öldungis víst, að gjaldeyrisskorturinn leiðir óhjákvæmilega til þess, að takmarka verður mjög verulega kaup á aðfluttum vörum, og gæti jafnvel svo farið, og er útlit um það mjög uggvænlegt, að ekki verði unnt að kaupa inn til landsins jafnvel brýnustu nauðsynjar og framleiðsluvörur, ef ekki tekst að breyta um til mikilla bóta. Sé hin mikla og vaxandi verðbólga, sem mæld er í stigum með verðvísitölunni, svo og staðreyndir, sem liggja fyrir um það, að alls ekki sé unnt að selja íslenzkar framleiðsluvörur, þótt miðað væri við 310 vísitölustig í stað 380 stiga, nokkuð í þá átt, að framleiðslan gæti gengið án stórtaps, leiðir að sjálfsögðu til þess, að atvinnureksturinn hlýtur að dragast saman og stöðvast að verulegu leyti. En allt þetta hefði svo óhjákvæmilega í för með sér atvinnuleysi og skort.

Í íslenzku dagblaði 4. sept. 1942 var áhrifum verðbólgunnar lýst á þessa leið: „Fullkomin verðbólga þýðir, að allur þjóðararður færist á hendur þeirra, sem eiga framleiðslutæki, jörð eða önnur varanleg verðmæti. Allir þeir, sem ekkert eiga af slíkum verðmætum, verða örsnauðir. Verðbólgan þýðir tvímælalaust atvinnuleysi, og það í enn geigvænlegri mynd en áður hefur þekkzt. Verkamenn verða því að taka upp forustuna gegn verðbólgunni.“

Og hvar halda menn, að þessi — að mörgu leyti rétta — klausa hafi birzt? Hún birtist í aðalmálgagni íslenzkra kommúnista, Þjóðviljanum, fyrir 5 árum. En nú er það talin höfuðsynd og skaðræði ríkisstjórnarinnar að leggja höfuðáherzlu á að berjast gegn verðbólgunni.

Og nú segja kommúnistar einnig, að núverandi ríkisstjórn sé að koma af stað kreppu, hruni og atvinnuleysi, þegar hún er að draga fram staðreyndir um ástandið í þjóðfélaginu, — staðreyndir, sem er víðsfjarri, að núverandi ríkisstjórn eigi nokkra minnstu sök á. Gjaldeyrisskorturinn er sízt af öllu hennar sök, því að núverandi ríkisstjórn hefur frá upphafi gert sitt til þess að takmarka notkun hans með minnkandi innflutningi. Hækkandi verðlag innanlands hefur stjórnin og reynt að hindra, eftir því sem aðstæður hafa frekast leyft, meðal annars með ströngum verðlagsákvæðum, auk þess sem hún hefur alvarlega varað við kauphækkunum og öðru, er auka kynni verðbólguna, og sízt af öllu hefur ríkisstjórnin það á valdi sínu að segja öðrum þjóðum fyrir um það, hvaða verð þær eigi að greiða fyrir afurðir okkar, en ríkisstjórnin hefur sannanlega haft öll þau útispjót, sem unnt var, til þess að selja afurðirnar sem hæstu verði og haganlegast, eins og hæstv. utanrrh. hefur sannað í umræðunum.

Það er því vissulega ekki sök núverandi ríkisstjórnar, hvernig komið er. Að því liggja ýmis rök og þróun undanfarinna ára, og er það víst og vafalaust, að svo miklu leyti, sem um má kenna íslenzkum stjórnmálaflokkum, að kommúnistar eiga sinn hlut óskertan í ástandi því, sem skapazt hefur.

Að því leyti, sem kommúnistar hafa komið við sögu sem ráðamenn undanfarm ár, bæði í ríkisstjórn og verkalýðshreyfingu, þá er ferill þeirra varðaður sukki, eyðslu og skemmdarstarfsemi. Kaupdeilurnar síðastliðið vor og sumar, sérstaklega á Siglufirði, eru einkennandi dæmi um ábyrgðarleysi þeirra og uppivöðsluhátt, ef ekki væri réttara lýst með öðrum enn sterkari orðum. Get ég ekki stillt mig um í þessu sambandi að benda einnig á nokkur atriði í framkvæmdum fyrrv. atvmrh., hv. þm. Siglf. Áka Jakobssonar, sem fáein dæmi af ótal mörgum um sukk og óreiðu í atvinnumálum.

Þrátt fyrir það, þótt stjórn síldarverksmiðjanna hefði með skýrum rökum talið það réttara að hraða sem mest byggingu síldarverksmiðjunnar á Siglufirði og koma henni þannig fyrir, að hún yrði fullgerð til afnota sumarið 1946, — sem hins vegar var talið illkleift, nema sú verksmiðjubygging væri látin sitja í fyrirrúmi fyrir verksmiðjunni á Skagaströnd, — þá heimtaði atvmrh. þáverandi, Áki Jakobsson, að báðar verksmiðjurnar skyldu byggðar samtímis. Þetta varð til þess, að hvorug verksmiðjan varð tilbúin 1946. Einnig leiddi þetta til þess, að unnin var alls konar auka- og eftirvinna við byggingarnar, sem annars hefði sparazt.

Til dæmis voru iðnaðarmenn látnir vinna 14–18 klukkustundir á sólarhring, jafnt virka daga sem helga, og sumir enn meira. Eru þess dæmi, að einn iðnaðarmaður vann allan júlímánuð 17–24½ klukkustund á sólarhring og hafði að launum fyrir þennan mánaðartíma 14700 krónur, auk ókeypis fæðis, en það samsvarar kr. 176400 í árslaun, auk fæðis.

Þá vil ég enn fremur nefna sem dæmi um óstjórn ýmissa atvinnumála í tíð þessa kommúnistaráðherra, hv. þm. Siglf., Áka Jakobssonar, að fyrir og eftir samþykkt laganna um tunnuverksmiðju ríkisins hafði þessi hv. þm. í þjónustu sinni mann til undirbúnings og athugunar á málinu. Þessi maður fékk úr ríkissjóði, svo að vitað er, kr. 64034,52 frá. 6. sept. 1945 til 31. ágúst 1946, eða á tæpu ári. Eftir að lögin um tunnuverksmiðju ríkisins höfðu verið samþykkt, var ekki strax skipuð stjórn fyrirtækisins og því ekki unnt að spyrja hana til ráða um þennan kostnað, nema að litlu leyti. Síldarútvegsnefnd hafði undanfarin ár haft á hendi sölu á síld og útvegun á tunnum. Veturinn 1946 ákvað þáverandi atvinnumálaráðherra, Áki Jakobsson. hv. þm. Siglf., að ganga framhjá þessari stofnun með útvegun á tunnum.

Sendi hann þrjá menn utan til þess að afla tunna og með þeim einn sérfræðing og síðar annan. Sendimennirnir fengu frá 26 til 29 þús. krónur hver. Sérfræðingurinn, sá er fyrr fór, fékk 34 þús. krónur, en hinn síðari 10 þús. krónur. En að lokum voru samningar gerðir fyrir milligöngu norsks manns, sem áður hafði undirbúið málið í samráði við sendiherra Íslands í Stokkhólmi. Þessi norski maður fékk 2% í umboðslaun eða 33400 íslenzkar krónur. Keyptar voru eitt hundrað þúsund tunnur, og nam kostnaðurinn alls við kaupin. 159400 krónum.

Útflutningsleyfi fyrir þessum tunnum frá Noregi var þó eigi tryggt, og þurfti íslenzka ríkisstjórnin að framlengja norska samninginn til þess að útflutningsleyfið fyrir tunnunum fengist.

Enn einn mann hafði hv. þm. Siglf. í þjónustu sinni, meðan hann var atvinnumálaráðherra. Sá fór til Ameríku og Norðurlanda í sams konar erindum. Sagðist þessi maður hafa umboð til þess að kaupa tunnur og efni í þær og jafnvel heila skóga í útlöndum, án nokkurs tillits til útflutningsleyfis. Þessi maður hafði á stuttum tíma fengið greitt úr ríkissjóði tæp 52 þús. króna. Um árangurinn er það vitað, að hann gerði samninga í Svíþjóð um kaup á hálfsmíðuðum tunnum, sem eiga að greiðast í sænskum krónum jafnóðum og smíðinni miðar áfram, alveg án tillits til þess, hvort þær fást fluttar út úr Svíþjóð, enda er útflutningsleyfi fyrir þeim enn ófengið. En ríkissjóður verður að greiða andvirðið og geymslugjald fyrir tunnurnar, þangað til þær verða teknar og verður þá greiðslu að taka af hinni allt of takmörkuðu gjaldeyriseign þjóðarinnar, — og verst af öllu, að engin vissa er fyrir því, að nokkru sinni fáist leyfi til að flytja þær úr landi í Svíþjóð.

Allar þessar ráðstafanir gerði þáverandi atvinnumálaráðherra án þess að bera þær undir stjórn viðkomandi fyrirtækja, sem raunverulega eiga að bera ábyrgð á rekstri stofnananna. En til þess að fá þessar fjárhæðir út úr rekstrarreikningi ríkissjóðs, þá var ríkisbókhaldinu fyrirskipað af sama hv. þingmanni að færa þetta til skuldar hjá viðkomandi fyrirtækjum, en þau hafa neitað að inna þessar greiðslur af hendi. Á þennan hátt mun ríkisbókhaldið hafa skuldað hjá 2 fyrirtækjum ríkisins um 830 þús. krónur, en treystist ekki til þess að sundurliða upphæðina og skipta á milli þeirra. Fyrirtækin neita að greiða, og skapast af þessu hinn mesti glundroði.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi af mörgum um óstjórn, ábyrgðarleysi og sukk, sem fylgir hvarvetna í fótspor kommúnista, þar sem þeir koma við sögu í stjórnmálum eða verkalýðsmálum. En öll þessi afglöp eða jafnvel skemmdarstarfsemi lendir að lokum á alþýðu manna. Og svo er þessi flokkur að tala um, að ríkisstjórnin sé að skapa hrun og öngþveiti.

Nú, þegar ríkisstjórnin er að undirbúa tillögur til úrbóta, beinlínis til þess að hindra hrun og atvinnuleysi í landinu, þá halda kommúnistar uppi í málgögnum sínum og á fundum undirbúningi að allri þeirri andstöðu, er þeir mega veita, gegn öllum þeim ráðum, er hugsanlegt væri að gripið yrði til til lækkunar framleiðslukostnaði í landinu, og reyna fyrirfram að gera allar þær leiðir tortryggilegar, sem unnt væri að fara til viðreisnar. Afstaða þeirra til íslenzks atvinnulífs er hin sama og flokksbræðra þeirra gegn tilraunum til efnahagslegrar viðreisnar í Evrópu og af sama toga spunnin. En ríkisstjórnin og flokkar þeir, er að henni standa, mega ekki og munu ekki frekar en Evrópuríkin 16, er Parísarráðstefnuna hafa skipað, láta hótanir, andstöðu og áróður kommúnista á sig fá, heldur taka höndum saman til þess að tryggja íslenzkan atvinnurekstur og hindra atvinnuleysi og hrun. Ég er þess alveg fullviss, að þjóðin metur og skilur þá viðleitni, en mun dæma hart og að verðleikum baráttu kommúnista gegn viðreisninni.

Þá skal ég víkja aftur að ástandi því, sem skapazt hefur í atvinnu- og gjaldeyrismálum þjóðarinnar.

Þar má — eins og sýnt hefur verið fram á — slá föstum eftirfarandi staðreyndum:

1) Skapazt hefur sá gjaldeyrisskortur, að örðugt mun á næstu tímum að kaupa inn brýnustu nauðsynjar og framleiðsluvörur, hvað þá meira.

2) Verðlagsvísitalan hlýtur að hækka og þar með möguleikar ríkissjóðs til niðurgreiðslna að minnka.

3) Erlent markaðsverð á sjávarafurðum er hvergi nærri fullnægjandi til þess, að sjávarútvegurinn geti borið sig með þeim framleiðslukostnaði, sem nú er, og hlýtur að hækka vegna minnkaðra niðurgreiðslna og hækkaðs vöruverðs innanlands.

Til þess að bæta úr gjaldeyrisvandkvæðunum, er lífsnauðsyn, að framleiðslan geti haldið áfram. En til þess að hún geti haldið áfram, þarf að lækka framleiðslukostnaðinn, og þar er komið að þungamiðju málsins.

Ísland er að vísu ekki eina landið, sem í stríði á við verðbólguna. Flest Evrópuríkin eiga við hið sama að stríða. Vísitalan í Finnlandi var vorið 1946 komin upp í rúm 430 stig. Þá voru gerðar ráðstafanir til þess að draga úr öllum launagreiðslum og halda verðlagi niðri, en verkamenn urðu að sætta sig við að fá ekki fulla dýrtíðaruppbót á laun sín, og gerðu verkalýðssamtökin um það samkomulag við ríkisstjórnina að halda niðri launagreiðslum til þess að hindra veróbólguna.

Í Frakklandi er ástandið enn verra. Verkamenn fá þar hvergi nærri uppbót á laun sín í samræmi við verðvísitölu, sem þar í landi er komin upp í rúm 850 stig. Vegna þjóðarafkomunnar þótti þar í landi alls ekki fært að láta launin fylgja verðlagsvísitölunni.

Ef aftur á móti er litið til Norðurlandanna þriggja, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, þá sést, að þeim hefur tekizt að halda vísitölu sinni mjög langt niðri, a. m. k. miðað við okkur. Í Danmörku var vísitalan í sumar 162 stig, í Noregi 163 og í Svíþjóð 154 stig. Samt eru öll þessi lönd mjög uggandi um, að þetta geti leitt til stöðvunar á atvinnurekstrinum hjá þeim. Og einmitt í því landinu, sem orðið hefur fyrir mestu áfalli af völdum stríðsins, Noregi, sem einnig er mesta samkeppnisland Íslendinga á erlendum markaði, hafa verið gerðar öflugar ráðstafanir til að hindra frekari vísitöluhækkun, þótt hún sé ekki enn nema ein 163 stig.

Í Noregi var í haust ákveðið að banna hækkun á öllum launagreiðslum til loka þessa árs, samkvæmt frumvarpi, sem félagsmálaráðuneytið þar lagði fyrir þingið, samtímis því sem gerðar voru ráðstafanir til þess að halda niðri verðlagi, sérstaklega á innlendum framleiðsluvörum.

Það er vert að hafa það í huga. að þessar ráóstafanir eru gerðar af stjórn norska Alþýðuflokksins og í fullu samkomulagi við stjórn Alþýðusambandsins þar í landi.

Ef framkvæmdar væru hér á Íslandi nauðsynlegar ráðstafanir, sem þarf og verður að gera til þess að lækka framleiðslukostnaðinn, þá ættu Íslendingar að standa vel að vígi í lífsbaráttunni. Það er því ekki nein ástæða til að láta hugfallast né gefa upp von um áframhaldandi bjarta framtíð, ef rétt er á haldið. Ég vil sérstaklega benda á sjávarútveginn. Ísland á óvenjugóða og starfshæfa sjómannastétt, nýtízku skip, togara og vélbáta, sem koma nú óðum til landsins. Verksmiðjur eigum við, sem vinna úr aflanum. Fiskimiðin eru auðug og kunn. Tækni og atorkusamt fólk er fyrir hendi, en það, sem á vantar og lífsnauðsyn er að tryggja, er það, að framleiðslukostnaðurinn lækki. Reynt er að komast sem víðast inn á markaði og fá hæsta verð fyrir vörurnar. En reynslan sýnir, að erlendir markaðir geta ekki tekið við vörum okkar á því verði, sem við þurfum að fá fyrir þær.

Allt ber að sama brunni. Það er óhugsandi, ef lífsafkoma fólksins í þessu landi á ekki að fara í kaldakol, að komizt verði hjá að gera ráðstafanir til, að tilkostnaðurinn við framleiðsluna lækki. En til þess að svo verði, þarf þjóðin öll að leggja nokkuð af mörkum í bráð til þess að geta lifað góðu lífi í landinu í framtíðinni.

Ríkisstjórnin mun alls ekki fara fram á, að launastéttirnar einar leggi af mörkum. Þeir, sem breiðust hafa bökin, þola mestar byrðar, og að sjálfsögðu verður að haga ráðstöfunum í samræmi við það. En þó verður eigi hjá því komizt, að allir leggi nokkuð af mörkum, hver eftir sinni getu og til bráðabirgða, til þess að bjarga sér og öðrum.

Íslenzka þjóðin verður að lifa lífi sínu um skeið við minni þægindi en verið hefur síðustu ár og neita sér um margt, sem æskilegt væri að njóta, en síðar mun koma, ef réttilega er á haldið. Það verður að leggja kapp á það að halda þeim miklu umbótum, sem almenningi hafa fallið í skaut hm síðustu ár, t. d. almannatryggingum, bættum og auknum skólum, bættum aðbúnaði við vinnu og bættum húsakosti. Þessi gæði og öryggi í þjóðfélaginu þarf að vernda og efla, og umfram allt þarf að sporna við því, eftir því sem möguleikar frekast leyfa, að hið geigvænlega atvinnuleysi haldi innreið sína á ný. En það er aftur komið undir því, sem er upphaf og endir alls þessa máls: Að framleiðslan haldist í öruggu horfi.

Ríkisstjórnin heitir á aðstoð allrar þjóðarinnar, allra landsmanna, til þess að styðja að lausn þessa mikla vandamáls, og ríkisstjórnin æskir einskis fremur en hafa sem bezta samvinnu við launastéttirnar og framleiðendur til sjávar og sveita um þessi efni. Það er mikið undir því komið fyrir framtíð þjóðarinnar allrar, að sú samvinna geti tekizt einmitt nú.

Ég vil að lokum snúa mér alveg sérstaklega til íslenzkra verkalýðssamtaka um land allt. Ég hef haft af þeim mikil kynni og fylgzt nákvæmlega með og átt nokkurn þátt í stjórn og starfsháttum Alþýðusambandsins á árunum 1924 til 1940 og hef fulla ástæðu til að ætla, að verulegur hluti þessara samtaka skilji og kunni vei að meta, að það ástand, sem nú ógnar þjóðinni. krefjist úrlausnar, — ekki hvað sízt vegna verkalýðsins sjálfs, og að hann muni sjá, að það er hans mesta nauðsyn að styrkja alla heilbrigða viðleitni til að hindra atvinnuleysi í landinu, með því að draga úr verðbólgunni og lækka framleiðslukostnaðinn.

Og það þarf vissulega ekki til þess að koma, að til fullra vandræða leiði, ef viturlega er við málunum snúizt. Verkalýðssamtökin eiga án efa mest undir því, að gerðar séu ráðstafanir til hindrunar atvinnuleysi. Verkalýðssamtökin á Norðurlöndum og í Bretlandi hafa vel skilið þessa nauðsyn. Þau hafa því stutt að þeim ráðstöfunum, sem valdhafar þessara landa hafa þurft að gera til þess að vinna gegn verðbólgu, er að öðrum kosti mundi hafa skollið á verkalýðnum að lokum.

Ég vildi mega treysta því, að íslenzkir verkamenn verði ekki eftirbátar stéttarbræðra sinna í þessum löndun, er hafa sýnt í verki, að þeir vilja mikið á sig leggja til þess að hefta dýrtíðina og verðbólguna, og hafa í því skyni látið sér það vel lynda, að kaupgjaldið yrði þar ekki að neinu leyti þröskuldur í vegi.

Ég veit, að íslenzkur verkalýður verður ávarpaður úr annarri átt og sagt, að það sé verið að ráðast á kjör hans af ríkisstjórninni. En því fer víðsfjarri, að svo sé. Ríkisstjórnin æskir einskis fremur en góðs samstarfs við verkalýðssamtökin til bjargar frá þeim vandkvæðum, er nú ber að höndum. Ég treysti því, að svo megi verða, þegar til kemur, og að þroski og skilningur íslenzks verkalýðs styðji að skynsamlegri og réttlátri lausn þessara miklu vandamála.