05.12.1947
Sameinað þing: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í D-deild Alþingistíðinda. (3325)

95. mál, kaffi- og sykurskammtur til sjómanna

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Mér kom þessi þáltill. dálítið spánskt fyrir sjónir, þegar hún kom fram, af því að ég vissi ekki betur en sjómenn fengju mikið til þann aukaskammt af kaffi og sykri, sem þeir höfðu óskað eftir. Og mér kom enn spánskar fyrir sjónir till. hv. þm. N-M., því að það hefur um langan tíma verið venja, að vegavinnumenn og aðrir hliðstæðir vinnuhópar hafa fengið ég vil segja upp undir það, sem þeir hafa beðið um af þessu tagi. — Ég bað skömmtunarstjóra að gefa mér skýrslu um það, hvernig þessi mál hefðu verið framkvæmd að undanförnu. Hann gerði það með bréfi, sem ég held, að bezt skýri málið og ég vil lesa hér með úr, með leyfi hæstv. forseta. Skömmtunarstjóri segir svo í þessu bréfi:

„Hinn almenni matvælaskammtur pr. mánuð er kaffi (brennt) 333 g, sykur 1500 g. Aukaskammtur til sjómanna pr. 4 vikur, brennt kaffi 120 g, sykur 800 g.“ Þ. e. a. s. þarna er um að ræða rúml. 50% viðbótarskammt til sjómanna af sykri, en hátt í 40% viðbótarskammt af kaffi. Þetta er nokkurn veginn fastur aukaskammtur til sjómanna. En svo segir í bréfinu: „Auk þessara skammta hefur þeim síldveiðiskipum, sem hingað hafa leitað til skömmtunarskrifstofu ríkisins, verið veitt um 160 g af kaffi og 800 g af sykri til viðbótar og engu slíku skipi verið neitað og yrði ekki gert, jafnvel þótt entist ekki. Hreinlætisvörum hefur verið úthlutað til hvers báts sem hér segir: 10 kg blautsápa, 5 kg þvottaduft (20 pakkar). Skömmtunarskrifstofunni hefur ekki borizt nein kvörtun um, að þessi hreinlætisúthlutun entist ekki, og engin beiðni um viðbót komið til hennar.“ — Engin beiðni um viðbót komið til hennar. Þá segir enn í bréfi skömmtunarstjóra: „Fyrir nokkru barst skömmtunarstjóra beiðni frá nokkrum aðilum um það, að benzínskammtar entust ekki til bifreiða, sem hefðu aukastörfum að sinna við ýmislegt, sem með þyrfti vegna síldveiðanna í Hvalfirði. Skömmtunarstjóri bauðst til þess við sendimann frá Hafsteini Bergþórssyni að hlutast til um það við viðskiptanefndina, að aukaskammtar af benzíni yrðu veittir í þessu skyni eftir þörfum. þannig að Landssamband ísl. útvegsmanna fengi benzíninnkaupaheimildir til ráðstöfunar í þessu skyni, með því að Landssambandið hafði með flutning síldarinnar og umskipun að gera og væri því bezt fallið til þess að vita, hverjir þyrftu þessa með. Viðskiptanefndin samþykkti svo tillögu skömmtunarstjóra í þessu tilliti, og Landssambandið fékk til að byrja með 1000 lítra í þessu skyni, en það var það magn, sem Jakob Hafstein stakk upp á. Jakob segir, að þetta sé nú að verða búið. Jakob veit eftir samtali við skömmtunarstjóra s. l. laugardag, að veitt verður viðbót af benzíni til þessa, hvenær sem þess verður óskað.

Fiskimálastjóri, Davíð Ólafsson, átti tal við skömmtunarstjóra fyrir nokkru um viðbótarskammta af kaffi og sykri handa bátunum, sem stunda nú síldveiðarnar. Var fiskimálastjóra skýrt frá því, hvernig aukaskammtarnir hefðu verið, og þar með, að Landsambandinu gæti staðið til boða viðbótarskammtar af þessum vörum til ráðstöfunar á sama hátt og væri nú með benzín. Taldi hann það ágæta lausn á málinu, að Landssambandið hefði með höndum skiptingu milli bátanna. Ekki hefur þó til þess komið, að Landssambandið fengi neitt af þessum vörum til ráðstöfunar, með því að það hefur ekki enn óskað þess.

Hinn fyrsti sjómannaskammtur af kaffi og sykri hefur verið í gildi alltaf, á meðan þessar vörur voru skammtaðar, en sykur hefur verið skammtaður síðan í september 1939 óslitið. Þegar kaffiskömmtunin var tekin upp í sumar aftur, var auglýst um þennan sjómannaskammt af kaffi.

Á meðan skömmtunin var í gildi áður, voru þessir aukaskammtar einnig látnir ná til vegagerðarmanna og símavinnumanna, sem störfuðu það fjarri byggð, að óhentugt var að ná daglega í næga mjólk. Höfðu vegamálastjóri og landssímastjóri með höndum skiptingu á þessum aukaskömmtum til hinna ýmsu vinnuflokka, eftir því sem þessir embættismenn töldu nauðsynlegt. Ganga má út frá, að þessu verði hagað á svipaðan hátt, verði þess óskað.“

Ég sé því ekki, að þörf sé á að fara með þetta mál hér inn í Alþ. og tefja þess störf með því að taka tíma vegna þess. Það hefur ekki komið nein kvörtun frá neinum aðila, sem við skömmtunina á að búa, heldur aðeins þessum sjálfskapaða fulltrúa þessara manna, þeim hv. þm., sem hefur fundið ástæðu til þess að koma með þetta mál hér inn á þingið. — Ég tel því mál þetta alveg óþarft og legg til. að þáltill. þessi verði felld.