27.10.1947
Sameinað þing: 15. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í D-deild Alþingistíðinda. (3385)

8. mál, skömmtunarreglur

Viðskmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að lengja þessar umræður meira, en hv. 6. þm. Reykv. hefur beint til mín svo ákveðnum fyrirspurnum, að ég tel rétt að svara þeim með nokkrum orðum. Ég gat þess í upphafi, að skömmtunina hefði borið að með meiri skyndingu en búizt hafði verið við, og átti áróður kommúnista einmitt sinn þátt í því að herða á eftir. Tíminn til ráðstöfunar var naumur, naumari en svo, að hægt væri að gera skömmtunarkerfið úr garði í öllum atriðum eins og menn hefðu helzt getað kosið. Það var því tekið það ráð að hafa skömmtunarfyrirkomulagið óbreytt frá því, sem verið hefur um skammtaðar vörur hér, þ. e. a. s., að allir fengju sama skammt. Hefði átt að mismuna mönnum við skömmtunina varðandi ýmsar vörur og reikna út allar hugsanlegar sérþarfir, þá hefði þurft miklu meiri undirbúning en um var að ræða. Ég hef áður getið þess, að það tók hálfan mánuð að prenta skömmtunarseðlana og þrjár vikur að dreifa þeim út, þannig að rúmur mánuður hlaut að líða frá því að skömmtuninni var slegið fastri og þar til kerfið var komið í lag. Þetta er ástæðan til þess, að skömmtunin er í því formi, sem hún er í, þrjá fyrstu mánuðina, eða til áramóta. Ákveðið hefur verið að verja þessu fyrsta tímabili til þess að gera þær lagfæringar á skömmtuninni, sem eðlilega munu reynast nauðsynlegar á reynslustigi fyrirkomulagsins, og fara inn á aðrar brautir í samræmi við það að loknum þessum þremur mánuðum.

Viðvíkjandi fyrirspurn hv. þm. um sérstakan skammt til verkamanna vegna vinnuskófatnaðar og vinnufata á þessu tímabili, þá er hæpið að haga því á annan hátt en með undanþágum, því að ef prenta ætti og dreifa út skömmtunarseðlum fyrir aukaskammti, þá mundi vera komið fram undir áramót áður en því lýkur. Séu hins vegar einhverjir í kröggum á þessu tímabili, þá hefur verið hugsað að laga það á fyrrgreindan hátt, með því að veita þeim mönnum undanþágur.

Ég kem þá aftur að upphafinu, er skömmtunin var ákveðin. og þeim hlut, sem kommúnistar og blað þeirra áttu í því að skapa erfiðleika, er verið var að koma henni á. Hv. 6. þm. Reykv. hefur nú að vísu auglýst mig ósannindamann í þessu sambandi, en ég ætla samt að reyna að finna orðum mínum lítils háttar stað.

Þegar ríkisstj. ákvað að banna verzlunum að selja meira en ákveðið vörumagn til einstaklinga og mælti svo fyrir, að hver kaupandi skyldi rita nafn sitt undir úttektarnótur fyrir þeim vörum, sem hann keypti, þá voru einmitt gerðar sérstaklega hatramar árásir á þetta atriði í blaði kommúnista, Þjóðviljanum, og útmálað og bent rækilega á, hve auðvelt væri að fara á bak við þetta fyrirkomulag. Ég hef nú ekki Þjóðviljann við höndina til að lesa upp úr honum, en þessi áróður var endurtekinn blað eftir blað, það muna allir og geta lesið. Að vísu voru menn ekki beint hvattir til að hamstra, en mjög greinilega var bent á, hvernig hægt væri að komast í kringum þetta, og allur tónninn í blaðinu var sá, að lýsa því fyrir fólki, hve auðvelt væri að fara á bak við nótufyrirkomulagið, þar til skömmtunarseðlarnir kæmu út 1. október. Ég skal svo fúslega játa, að ég hefði heldur kosið, að ekki hefði þurft að grípa til víðtækrar skömmtunar, og hefði allt gengið eins og vonir stóðu til í efnahagsmálum þjóðarinnar, hefði ekki þurft að grípa til slíkrar skömmtunar. Ég á hér sérstaklega við benzín, það er mjög bagalegt að þurfa að grípa til víðtækrar skömmtunar á því og geta átt á hættu að draga þannig úr atvinnu manna. En þegar ljóst varð, hvernig ástandið er orðið, varð skömmtunin ekki umflúin, þó að kommúnistar hafi gert allt, sem þeir gátu, til að gera hana tortryggilega, áður en hún kom til framkvæmda. Eins og t. d. þegar sagt var frá því í Þjóðviljanum, að bílstjórar færu með tunnur að benzíntönkunum til að sækja benzín í þær, eins og til að ýta undir menn að hamstra benzíni, og m. a. vegna þess áróðurs varð að koma skömmtuninni á sem skjótast. Þjóðviljinn er eina blaðið í landinu, sem hefur ýtt undir menn að fara á bak við þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, og reynt að gera þær tortryggilegar.

Viðvíkjandi fyrirspurn hv. 6. þm. Reykv. um söguburð kommúnista, þá get ég svarað honum því, að fyrir utan annað veit ég t. d. sjálfur persónulega um tvö tilfelli, sem ég hef rannsakað, þar sem menn úr þessum flokki sögðu frá skömmtun áður en hún kom til framkvæmda, og ég gæti nefnt nöfn þessara manna hér, ef ég vildi. (SigfS: Ég þakka fyrir, ég óska eftir, að hæstv. ráðh. nefni nöfn þessara manna.) Ég get það, en geri það þegar mér sýnist og þegar mér þykir við eiga, ég er ekki að tala hér út í bláinn.

Hvað skömmtunarstjóri hefur fyrir sér í sínu bréfi, er mér ókunnugt með öllu, en ég geri ráð fyrir, að hann geti fært rök fyrir sínu máli, ef á þarf að halda. M. ö. o.: Kommúnistar og blað þeirra eru staðnir að því að róa að hömstrun, og svo stendur hv. 6. þm. Reykv. hér upp og kallar mig ósannindamann. En ég beini þeirri ásökun heim til föðurhúsanna, til hans sjálfs. Ég veit svo ekki, hvort meira er um þetta að segja. Ég get ekki upplýst hv. þm. um það, hvaða búðir kommúnista skömmtunarstjóri á við í bréfi sínu, en ég geri ráð fyrir, að hann eigi við þær búðir, þar sem kommúnistar eru að starfi. Annars veit ég ekki nánar um þetta. sem stendur í bréfinu. — Um uppboðið, sem hv. þm. nefndi, veit ég ekki annað en það, að ég las auglýsingu um það, og mér er ekki kunnugt um annað en að það uppboð hafi verið stöðvað. En þessi áhugi hv. þm. fyrir þessu uppboði er einmitt ágætt dæmi um það, hvernig hann og flokksbræður hans reyna að grípa hvert tækifæri til að gera skömmtunarkerfið og framkvæmd þess sem tortryggilegast, en blása sig svo út af áhuga fyrir skömmtun að öðrum þræði eða í orði kveðnu. Þetta er það, sem kallað er í bréfi skömmtunarstjóra að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri.