28.11.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í D-deild Alþingistíðinda. (3526)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þessi þáltill., sem hér var til umr. í gær og aftur í dag, fjallar um það, að bann skuli verða lagt við því framvegis, að trúnaðarmenn þjóðfélagsins fái vörur, svo sem áfengi og tóbak, með undanþáguheimild við lægra verði en aðrir. Ég held, að þessi till. og önnur sama efnis, sem einnig liggur fyrir þinginu, hafi eingöngu átt erindi hingað inn í þingið vegna þeirrar siðferðislegu hliðar, sem þetta mál hefur, en hefðu ekkert erindi átt, ef þær hefðu eingöngu haft þá hlið, sem umræður hafa fjallað hér um í gær og í dag, hlið hins persónulega hnútukasts milli tveggja sagnfræðinga, sem eiga setu hér á þingi. Þær eiga ekki heldur erindi hér inn í þingið sem árásarefni á þá, sem nú eru forsetar hæstv. Alþ. Það er margupplýst í málinu, að þeir eru ekki upphafsmenn að þessum leiða sið, sem hér er um að ræða. Þess vegna ætti málið ekki að fá pólitískt þann svip að vera persónulegt hnútukast gegn núverandi forsetum. Ég vildi því leyfa mér að fara örfáum orðum um þá mórölsku hlið, sem þetta mál hefur og gefur málinu rétt til þess að vera til umr. á Alþingi.

Það er sem sé staðreynd, að forsetar sameinaðs þings hafa um nokkurt árabil haft réttindi til þess að fá áfengi frá Áfengisverzlun ríkisins með innkaupsverði, og eru þessi hlunnindi ekki bundin við neina hámarksupphæð. Síðar hafa deildaforsetar fengið þessi sömu réttindi, bundin við ákveðna upphæð, þannig að þeir máttu taka út áfengi á þingi hverju fyrir allt að 10 þús. kr. verðmæti að innkaupsverði. Ég hygg, að flm. þessarar till. hafi tekið fram í gær, að hann teldi meginefni þessa máls vera það, að ósæmilegt væri, að tvenns konar réttur gilti um þetta í þjóðfélaginu, og er ég honum sammála um það. Það hefur verið á það bent, að það gæti verið óheppilegt og lítt sæmandi, ef allir ölkærir menn þingsins teldu mesta keppikefli að komast í forsetastólana vegna þessara hlunninda. Og ég held, að ekki geti orðið um það deilt, að þetta væri skuggi á þeirri mórölsku hlið, sem þetta mál hefur.

En segjum svo, að af þessum hlunnindum forsetanna, hvort sem það er forseti sameinaðs þings eða deildanna, gæti leitt það, að þeir á mannlegan hátt, í skjóli þessara hlunninda færu að veita sínum samþm., sem ölkærir væru, eitthvað af þessu ódýra áfengi sínu, þar sem ekki væri neitt ósennilegt, að þeir vildu láta þá finna til gestrisni af þessum hlunnindum sínum. Það væri þá annar skuggaflóki á hinni mórölsku hlið. Og hver gæti tekið í forsvar, að forsetar mundu aldrei reyna að fá sér stuðning í kosningu þessara manna? Enn fremur mætti gera sér í hugarlund, að forsetar, hvort sem þeir nota vín sjálfir eða ekki, gæfu kunningjum sínum, t. d. bændum í sínu kjördæmi, flösku og flösku. Það vita allir, að sumum er ekki kærara að fá neina gjöf, jafnvel ekki heila jörð, en að fá flösku að gjöf. „Hann gaf mér það, sem mér þótti vænst um, blessaður maðurinn: eina flösku af brennivíni“. Og hver gæti láð einum forseta það, þó að hann léti fyrir kosningar eina og eina flösku fara til kjósenda? En þetta væri ekki æskilegt þjóðfélagsástand, þetta væri þjóðfélagsspilling, sem væri afleiðing af því ástandi, sem hér er um að ræða. Og það eru engar líkur til þess, að það hafi verið farið með svo miklum grandvarleik með þessi sérréttindi, að þetta hafi ekki átt sér stað, og sögur hafa um þetta gengið og ómögulegt fyrir nokkurn mann í forsetastóli að verja sig fyrir þeim gróusögum, sem um þetta hljóta að ganga. Af þessum ástæðum er óverjandi að viðhalda þessu skipulagi. Og ég er viss um það, að þeir menn, sem hafa verið forsetar, hafa ekki séð, að þeir voru ofurseldir ásökunum vegna þessa sérréttindaskipulags, að þeir gátu varla haldið mannorði sínu óskertu. Þess vegna er ég hissa á því, þar sem í forsetastólana hljóta að veljast menn, sem hafa glögga dómgreind á það, hvað sé sæmandi mönnum í þeirra stöðum — þeir hljóta að vera valdir fyrst og fremst með tilliti til þess, að þeir séu mjög dómbærir á mórölsk áhrif — ég er hissa á, að þeir skuli ekki fyrir löngu hafa fundið, að þetta gengur nærri sæmd þeirra, og borið fram kröfu um það, að þessi sérréttindi yrðu afnumin, því að þetta hlaut að verða þeim til óþurftar. Ég skal ekkert kapp á það leggja, hvort þessi þáltill. eða sú, sem ég er meðflm. að, verði borin fyrr undir atkv., en ég þori að fullyrða, að það hlýtur að verða niðurstaða þessa máls, að þessi sérréttindi verði afnumin og það á þessu þingi. Það gladdi mig að heyra við umr. í gær, að forseti Ed. bar fram ósk um það, að þessi sérréttindi yrðu felld niður. Ég vil því vona, að ekki einungis þeir, sem kallaðir eru ofstækismenn í bindindis- og bannmálum, fylgi þessari till., heldur og þeir, sem ölkærir eru, og líka þeir, sem hafa notið þessara sérréttinda eða átt kost á að njóta þeirra. Ég vil einungis líta á þetta mál sem móralskt og skal ekki fara neinum orðum um hina persónulegu hlið málsins. Álít ég þær persónulegu svívirðingar, sem hér hafa átt sér stað út af þessu máli. vera þinginu til lítils sóma og mun því ekki taka þátt í þeim.