28.11.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í D-deild Alþingistíðinda. (3529)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Hv. þm. V-Húnv. lauk máli sínu með því að ræða um hina óhreinu bókfærsluleið, sem farið væri með mál þetta eftir, og get ég þar að nokkru verið sammála honum. Hins vegar sagði hann, að ég hefði sagt, að það væri halanegraháttur að veita ekki vín í opinberum veizlum. Ég tel það engan halanegrahátt, þó að menn, sem sjálfir eru bindindismenn, veiti ekki vín í veizlum sínum. En hitt verð ég að segja, að ég uni því ekkert illa, þó að þing, sem skipað er hófsmönnum á áfengi, telji það halanegrahátt að vera andvígir því að veita vín í opinberum veizlum, og ég tel það hræðslu við almenningsálitið, ef Alþingi, þar sem um 90% þm. eru ekki bindindismenn, samþykkir að banna vínveitingar í opinberum veizlum, þó að þeir í hjarta sínu séu því andvígir, og það er tilraun til að berja opinberlega inn allt annað siðferði en raunverulega er. Þess vegna greina menn ekki á milli hófsemdar og ofdrykkju. Með þessu svara ég ummælum hv. þm. V-Húnv., er hann sagði, að ég hefði verið að óvirða fyrrv. ráðh., sem ekki höfðu vín í veizlum sínum. Þetta er alveg misskilningur. Hins vegar má minna á það, að samstarfsmaður þessa ráðh. hefur skýrt frá því opinberlega, að gestir, bæði innlendir og útlendir, hafi komið með vín með sér í rassvasanum í veizlur þessa ráðh. Þetta hefur verið lagt út til skammar, en fyrir þetta verður ekki komið í veg með öðru en að breyta siðferðinu. Á meðan menn vilja hafa vín um hönd, er halanegraháttur að leyfa ekki að hafa áfengi um hönd í opinberum veizlum, þegar þess er neytt alls staðar annars staðar.