26.11.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í D-deild Alþingistíðinda. (3540)

46. mál, vinnuhælið á Litla-Hrauni

Flm. (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Út af ræðu hv. 2. þm. Árn. vil ég segja þetta. Ég held, að áhyggjur hv. þm. um velferð hinna ógæfusömu manna á Litla-Hrauni séu ekki rétt grundaðar, og ég vil segja þessum hv. þm., að merkur lögfræðingur og fyrrv. þm. Árn. sagði, að í Danmörku væri keppnin á milli borganna ekki um skóla, t. d. menntaskóla, heldur fangelsi. En fjárhagsleg hlið þeirra mála færir heim sanninn um það, að þeim sé heppilegt að njóta slíkra hlunninda. Reykjavík hefur fangelsi inni í miðjum bænum. Það hús var lengi eitt hið fegursta í bænum, og sama má segja um Litla-Hraun. Það er eitt fallegasta húsið við Eyrarbakka. Ég sé ekki, að Eyrbekkingum sé vandara um en íbúum Reykjavíkur, og held, að starfsemin á Litla-Hrauni sé þeim eigi til ama.

Hvað snertir staðarvalið, þá voru þær ástæður hjá landssjóðnum, að ekki var hægt að halda þeirri byggingu áfram. Það var til láns fyrir lausn þessa vandamáls. Á Litla-Hrauni eru heilnæm húsakynni. Það var byggt fyrir sjúkrastofur. Hið fagra Suðurland blasir þar við úr gluggunum. Um leið og vistmenn fengu ágæt húsakynni, gátu þeir að nokkru notið hinnar miklu náttúrufegurðar. Ég mótmæli ekki till. þeirri, sem hv. þm. minntist á, en ég vil skýra eitt atriði dálítið nánar. Ef ég hefði átt að velja stað fyrir vinnuhæli, þá held ég, að vart hefði fundizt heppilegri staður. Það er tiltölulega stutt síðan fundust miklar vikurnámur við fjörurnar hjá Eyrarbakka. Úr þessu efni hafa vistmenn unnið að því að steypa vikurplötur og steina. Slík vinna er mjög hentug fyrir þessa menn, sem þurfa að taka út sína hegningu í lengri eða skemmri tíma. Það er erfitt að finna heppileg verkefni að vinna á vetrum fyrir vistmennina., en önnur vinna hefur ekki fundizt heppilegri en sú, sem ég gat um. Það hafði verið reynt að láta fanga vinna að bílaviðgerðum, smíðum o. fl. Þá vinnu gátu ekki allir gert, en allir geta þeir steypt hellur og steina úr vikrinum, og hefur hælið haft talsverðar tekjur af þeirri iðju. Við Litla-Hraun er mjög grasgefið land, og hafa fangar verið látnir vinna á sumrin við garða og tún. Þetta hvort tveggja gefur góðan rekstur á hælinu. Enn fremur eru fangarnir þar í nokkurri snertingu við fólkið. Vistmenn hafa stundum verið látnir grafa skurði fyrir Eyrbekkinga. Ætti slík liðveizla að vera að nokkru þakkarverð.

Svo vil ég benda hv. þm. á, að svo er langt síðan byggt hefur verið fangelsi, að nú mun vanta um 70 klefa í Reykjavík, en hún hefur ekki efni á að stækka fangelsi sitt, þótt hún hafi um 50 milljónir kr. í tekjur. Fangelsi Reykjavíkur mun ekki hafa verið stækkað síðan um 1880, og ætti Reykjavík að vera þakklát Eyrbekkingum fyrir hjálpina, bæði fyrir sig og landið. Landið getur ekki bætt betur úr þessum vanda en með því að láta vistmenn Litla-Hrauns stækka húsakynnin þar. Og hvar væri höfuðborgin og ríkissjóðurinn annars staddur í sínum mikla vanmætti í þessum málum? Litla-Hraun hefur leyst þetta mikla spursmál. Þar eru fangar tiltölulega frjálsir menn og vinna úti. Þar er engin mikil eða djúp gjá á milli þess frjálsa og ófrjálsa. Það er eitthvað demokratiskt við þetta, en þó er mönnum hegnt. Hér er mönnum hegnt á mjög eftirtektarverðan hátt og mjög ólíkt því, sem gerist í einræðislöndum.