24.03.1948
Sameinað þing: 62. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í D-deild Alþingistíðinda. (3721)

186. mál, Skipanaust h/f í Reykjavík

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að fara þess á leit, að mál þetta verði tekið út af dagskrá og umr. um það frestað. Ég tek fram, að ef forseti verður ekki við þessari ósk að taka málið út af dagskrá, mun ég ekki telja mál mitt nú til ræðu.

Fjvn. hefur enn sem komið er ekki getað gefið sér tíma til þess að útbúa nál. vegna mikilla anna, og hún er heldur ekki óklofin í málinu. Frv. til l. var borið fram í Ed. um, að ríkisstj. skyldi byggja þurrkví við Elliðaárvog í Reykjavík. Þetta frv. var afgr. með rökst. dagskrá, sem sjútvn. þeirrar d. bar fram. Rökst. dagskráin er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Í trausti þess, að ríkisstj. leiti samkomulags við bæjarstjórn Reykjavíkur um að ákveða stað fyrir væntanlega þurrkví og tryggja henni nægjanlega stórt landssvæði fyrir starfsemi hennar og að ríkisstj. einnig sjái um, að gerðar verði fullkomnar áætlanir um kostnað við byggingu þurrkvíarinnar, eftir að staður hefur verið valinn, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“ Þessi mál eru svo nátengd, að ég legg til, að málið verði ekki afgr. á þessu þingi. Ég legg til, að ríkisstj. tilnefni einn mann af sinni hálfu til þess að hafa samstarf við Skipanaust h/f, Reykjavíkurbæ, Slippfélagið og Stálsmiðjuna, sem eru bundin og nátengd þessum málum, og hafi sá aðili forgöngu um allan undirbúning og afgreiðslu þessa máls, en niðurstöður hans yrðu svo lagðar fyrir næsta þing.