29.10.1947
Sameinað þing: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í D-deild Alþingistíðinda. (3750)

900. mál, starfskerfi og rekstrargjöld ríkisins

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. 3. marz 1945 var samþykkt hér á Alþ. ályktun um að skora á ríkisstj. að láta þá þegar fara fram rækilega athugun og rannsókn á því, hvernig hægt væri að draga verulega úr rekstrarkostnaði ríkisins og ríkisstofnana, og jafnframt skyldi leitazt við að gera þetta starfskerfi einfaldara og óbrotnara. Þál. þessi var flutt af fjvn. árið 1945, og fylgdi henni ýtarleg grg., þar sem birt var yfirlit yfir útgjöld ríkisins og ríkisstofnana frá 1939 og gerður var samanburður á gjöldunum 1939 og 1945, miðað við fjárlög síðara ársins. Það var vitanlega hugmynd flm. þessarar till., að sú athugun og rannsókn, er þar getur, beindist að því að finna leiðina til að draga úr hinum gífurlega kostnaði við ríkisreksturinn, sem (eins og grg. till. bar með sér) hafði vaxið gífurlega frá því fyrir stríð. Það er ekki vitað, að fyrrv. ríkisstj. gerði neitt í málinu, a. m. k. hef ég ekki orðið var við neina skýrslu frá henni um málið, sem henni bar þó vitanlega að gera. Þessu verkefni var því ólokið er núverandi stjórn tók við völdum, og nú hef ég leyft mér að flytja hér fsp. um það, hvað rannsókn þessari liði. Það er óhætt að fullyrða, að rekstrargjöld ríkisins hafa enn farið vaxandi frá 1945, og er því sízt minni þörf á rannsókn og athugun í þessu efni en þá var. Ég hef heyrt, að núverandi hæstv. ríkisstj. hafi fyrir nokkru skipað einhverja starfsmenn ríkisins til að gera einhverja rannsókn eða athugun, en ég hef óljósar fregnir af því og vænti þess að fá nú upplýsingar nánar um hana., hvernig henni er hagað, hvenær vænta má, að rannsókninni ljúki og niðurstöður fáist, og þá einhverra tillagna til úrbóta, sem menn hljóta að vona, að sigli í kjölfar rannsóknarinnar.