05.11.1947
Sameinað þing: 18. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í D-deild Alþingistíðinda. (3768)

901. mál, síldarverksmiðja á Norðausturlandi

Fyrirspyrjandi (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir greið svör, þó að ekki sé hægt, því miður, að þakka framkvæmdirnar, en mér skilst þó, að hæstv. ráðh. verði ekki sakaður um það atriði, þar sem upplýst er, að hann hefur falið stjórn SR að gera þetta. En ég tel, að sú stjórn hafi sýnt vítavert tómlæti með því að gera ekkert í málinu. Hæstv. ráðh. taldi, að þessi dráttur yrði ekki til að tefja fyrir verksmiðjunni, en það er augljóst, að þetta getur tafið málið um eitt ár a. m. k. Hann talaði einnig um, að togstreita væri um það, hvar velja skuli verksmiðjunni stað, en ég held, að það verði ekki til að tefja málið. Að vísu er um fleiri en einn stað að ræða, en um það, hvort togstreita nær að brjótast fram, fer eftir því, hve málið er vel undirbúið með athugunum. Ég tel rétt, að stjórn SR hafi þessar athuganir með höndum, en hún þarf að hafa aðra með sér til aðstoðar á þeim stöðum, sem til greina koma, t. d. verkfræðinga, og rannsókn verkfróðra manna þarf að vera fyrir hendi, áður en verksmiðjustjórnin fellir rökstuddan úrskurð. Því betur sem athugað er og undirbúið, því minni hætta er á togstreitu um þetta.

Ég geri ráð fyrir því, að okkur fyrirspyrjendum og öðrum, sem hafa skilning á nauðsyn málsins og áhuga á, að því verði hrundið sem fyrst í framkvæmd, — ég geri ráð fyrir, að okkur sé það öllum ljóst, að svo megi fara, að meiri dráttur verði á sjálfri framkvæmdinni en nú er gert ráð fyrir. En því aðeins getum við sætt okkur við örðugleikana, að unnið sé að málinu af heilum hug, það sem unnt er, að reynt verði að gera það, sem mögulegt er, og að undirbúningur eða þeir hlutir, sem auðvelt virðist að framkvæma, verði a. m. k. ekki látinn dragast lengur.