19.11.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í D-deild Alþingistíðinda. (3776)

902. mál, fjármál flugvallanna í Keflavík og Reykjavík

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir, að hann hefur lagt sig í framkróka með að gefa sem greiðust svör. Þó voru það þrjú atriði, sem hann gaf ekki svar um og ég held, að hann geti svarað, og ég hef áhuga fyrir að fá svör við.

Fyrst var það 4. liður spurninganna. Ég hef áhuga fyrir því að fá að vita, hve margir tæknimenntaðir menn og sérfræðingar vinna á hvorum flugvellinum. Þetta kom ekki fram, en ég vænti þess, að hæstv. ráðh. geti svarað því. Þá var það viðvíkjandi 6. og 7. lið fsp. Hversu margar herflugvélar koma við á Keflavíkurflugvellinum að meðaltali á mánuði, og hve margar einkaflugvélar á vegum A. O. A., sem annast rekstur flugvallarins. Ég vildi fá það staðfest, hvort það er rétt, sem komið hefur fram, bæði hér á þingi og í blöðunum, að tala herflugvéla sé aðeins 11 á mánuði. Í þriðja og síðasta lagi var það viðvíkjandi 6. liðnum. Ég hef áhuga á að fá að vita, hvort einkaflugvélar greiða öll lendingargjöld.