19.11.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í D-deild Alþingistíðinda. (3802)

81. mál, opinberir starfsmenn

Fyrirspyrjandi (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef borið fram fsp. um, hvað liði undirbúningi löggjafar um opinbera starfsmenn, sem Alþ. fól ríkisstj. að framkvæma með þál. 5. okt. 1944. Í þál. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um opinbera starfsmenn og leggja frv. um þetta efni fyrir Alþ., er það kemur saman næst “

Mér er ekki kunnugt um, að annar árangur hafi orðið af þessu enn sem komið er en reglugerð, sem gefin var út af fjmrn. 11. marz 1946 af knýjandi nauðsyn, vegna þess að lögin vantaði. Reglugerðin ákveður, að þeir, sem starfa í 1. flokki, skuli vinna 35½ klukkustund á viku, eða minna en sex stundir á dag. Í 2. flokki er vinnutíminn bundinn við 45 stundir, í 3. flokki við 36 stundir og í 4. flokki við 48 stundir á viku. Auk þess á að greiða með 50 og 100% álagi þá vinnu, sem unnin er fram yfir þetta. Grunnlaun fyrir slíka vinnu eru 3, 4 og 5 kr. á klukkustund, eftir því um hvaða flokk er að ræða. Það er sýnilega ætlazt til, að með vísitöluuppbót geti þetta orðið allt að 30 kr. á klst., sem greitt er fyrir yfirvinnu.

Þessi reglugerð hefur valdið ýmsum stofnunum ríkisins erfiðleikum, sem þær eru gersamlega að sligast undir, eins og t. d. póstur og sími, og aukið svo rekstrarútgjöld þeirra, að ekki er hægt að láta þær bera sig. Í öðru lagi hefur verið svo mikil óánægja meðal starfsmanna annarra stofnana, þar sem laun eru ákveðin samkvæmt launalögum, að vart hefur verið hægt að halda þeim við störf nema greiða þeim stórar fúlgur fyrir yfirvinnu.

Þetta ætti að vera nóg til þess að sýna, að óhjákvæmilegt er, að lög verði strax samþ. um þessi efni. Ég vildi heyra, hvað gert hefur verið, hvort vænta má, að frv. verði lagt fyrir þetta þing, hvort hæstv. stjórn hefur möguleika á að afnema reglugerðina eða breyta henni eða hvort hún ætlar að hafa hana eins og áður, þar til l. verða samþ. um þetta á Alþ.