18.02.1948
Sameinað þing: 45. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í D-deild Alþingistíðinda. (3880)

156. mál, þjóðleikhúsið

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af upplýsingum frá hæstv. menntmrh. vil ég gjarnan spyrja, hve mikinn hluta setuliðið hafi greitt fyrir skemmdir á húsinu eða í leigu þann tíma, sem þeir voru í því, á móti þeirri upphæð, sem hér hefur verið varið síðan til þess að halda áfram byggingu hússins. Ég geri ráð fyrir, að húsið hafi verið skemmt mjög mikið í höndum þessara aðila og mjög mikið af þessum kostnaði stafi af því, að bæta þurfti úr þeim skemmdum:

Annars gefa þessar upplýsingar, sem ráðh. gaf, tilefni til þess að athuga, hvort það á að leyfa að láta ákveðið fé, sem er skattur frá þjóðinni, renna til svona framkvæmda svo að segja eftirlitslaust, eins og hér hefur verið gert, því að það er víst, að ef þessar fjárveitingar hefðu verið greiddar árlega úr ríkissjóði, væri búið að segja mörg orð um þetta mál.