10.12.1947
Neðri deild: 30. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

23. mál, bændaskólar

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég lýsti því yfir við 1. umr. þessa máls, að ég varð fyrir vonbrigðum, er ég sá frv. frá hendi hæstv. atvmrh., og vonbrigði mín minnka ekki, þegar ég nú heyri, að hv. landbn. mælir með því svo að segja óbreyttu.

Nú er það svo, að að undanförnu hefur farið fram nokkurs konar endurskoðun á skólum í landinu, og hefur verið ætlazt til þess, að bændaskólarnir heyrðu undir hana sem aðrir skólar. Sérfróðir menn skyldu við þessa endurskoðun leggja fram sína sérfræðilegu þekkingu og koma með tillögur, sem til bóta mættu verða.

Ég ætla, að báðum skólastjórum bændaskólanna hafi verið skrifað af mþn. og þeir verið beðnir um að láta í té upplýsingar og koma með till. um væntanlegt fyrirkomulag bændaskólanna, eftir að hin nýja fræðslulöggjöf gengur í gildi, og ég hygg, að n. hafi vænzt samstarfs við þessa menn. Ég hef við fyrri umr. þessa máls lýst því yfir, að mér voru það ógeðfelld vonbrigði, að enn hefur ekkert svar borizt frá þessum mönnum.

Ég tel það efalaust, að bændaskólunum sé í framtíðinni ætlað að taka á móti nemendum, sem lokið hafa miðskólaprófi, og sama máli gegnir um iðnskólana. Að vísu hefur það enn ekki verið ákveðið fyrir fullt og fast, en ég veit, að í bígerð er frv. — þótt það sé enn ekki komið fram — um, að nemendur, sem lokið hafa miðskólaprófi, skuli fá inngöngu í iðnskóla. Ég álít, að meginverkefni bændaskólanna eigi að vera verklega námið, en ég vil frábiðja þann misskilning, sem fram kom hér við 1. umr. málsins, að með því vilji ég, að bændur séu verr menntaðir en aðrir, en það er eindregið álit mitt, að sjómannaskólar, bændaskólar, iðnskólar og aðrir slíkir skólar skuli taka við að miðskólaprófi loknu. Nemendur hafa þá lært: í fyrsta lagi íslenzk fræði og í öðru lagi reikning, eðlisfræði og fleira það, sem almenn fræði kallast. Ég held því, að verið sé að ganga í öfuga átt með því að stytta verknámstímann við bændaskólana í stað þess að lengja hann. Ég hygg hins vegar, að í rétta átt sé gengið með stofnun framhaldsdeildar, en að verklega námið þurfi miklu gagngerari endurskoðunar við.

Það mun vera ætlazt til þess, að verklega námið fari fram á jörðum skólanna. Þetta er skólunum alveg um megn. Nemendurnir þyrftu að geta verið við verklega námið á tilrauna- og myndarbúum, sem væru undir eftirliti skólanna.

Ég skal svo ekki fjölyrða þetta frekar, en vil enn lýsa yfir skoðun minni, að mér finnst með þessu frv. í fyrsta lagi gengið fram hjá þeim aðilum, sem um þessi mál eiga að fjalla, í öðru lagi, að með því sé verið að ganga á verklega námið í stað þess, að það þyrfti að lengja það. Ég er því á móti frv. í heild, þó að ég hins vegar sé með ákvæðinu um framhaldsdeildina, en ég hygg, að það nái fram að ganga, þó að frv. verði fellt, en eins og ég hef áður sagt, þá hygg ég, að bændaskólarnir þurfi gagngerra breytinga við, áður en þeir séu komnir í það horf, sem æskilegt er.