28.10.1947
Neðri deild: 9. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

13. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Í raun og veru er þetta mál sjálft, sem fyrir liggur, ekki stórt. Það mun hafa verið svo fyrir stríð, að slíkar undanþágur sem þarna um ræðir, voru þá gefnar Landsbankanum, því að hann þurfti þá á þeim að halda. Síðar, þegar nægilegar gjaldeyrisinnstæður sköpuðust erlendis, féll þetta eðlilega niður. Og nú fer bankinn fram á það aftur, að lögleiddar verði þessar undanþágur.

Það er rétt að athuga, hvernig stendur á þessu lagalega sambandi bankans og Alþingis. Í l. um bankann er gengið út frá gullinnlausn á seðlum, en gert er ráð fyrir, að þau skuli ekki öðlast gildi, fyrr en Alþingi ákveður, þannig að þessi innlausn hefur ekki komið til greina. Hins vegar hafa þessi ákvæði um gullinnlausn hjá fjöldamörgum þjóðum verið eins konar átylla, til þess að löggjafarsamkundan léti rokkuð til sín taka um fjármálastefnu bankans á hverjum tíma. En búast má við því, að þessi undanþága, sem hér um ræðir, verði endurtekin, að hún verði veitt stöðugt áfram, og það er í rauninni það formlega tækifæri, sem þannig gefst, sem ég vildi nota til þess að varpa fram þeirri uppástungu, hvort ekki væri rétt, að Alþingi léti meir til sín taka um stefnu bankans. Raunar má segja, að Alþ. hafi mikið yfir þessu að segja, þar sem það ákveður með lögum alla starfsháttu bankans og kýs landsbankanefnd. En að því er snertir þann möguleika Alþingis að hafa raunverulega ráð yfir stefnu bankans með þessari aðferð, þá skulum við minnast þess, að að því er það snertir að breyta að einhverju leyti lögum bankans, hefur það sýnt sig s.l. 20 ár, að mönnum hefur þótt það mjög varhugavert að raska lögunum út af fyrir sig. Reynslan hefur sýnt, að þrátt fyrir það, að ríkisstj. fengi oft ástæðu til að gera þarna nýjungar, þá hefur það alltaf orðið úr, að þessi lög hafa verið látin standa óbreytt. Hins vegar er svo komið málum okkar hér, að þjóðfélag okkar er orðið allt annað en þegar l. um Landsbankann voru sett. Þegar þeim var breytt 1927, var fjármála- og atvinnulíf þjóðarinnar fyrst og fremst rekið án nokkurra verulegra afskipta Alþingis. Nú er þetta gerbreytt. Nú er svo komið, að í raun og veru er það Alþingi, sem með hverju ári hefur verið að setja ákveðnari og ákveðnari lög um allt atvinnulíf þjóðarinnar, nú síðast l. um fjárhagsráð, þar sem ríkisstj. tekur í sínar hendur höfuðstjórnina á fjármála- og atvinnulífi þjóðarinnar, þannig að það er orðið gersamlega annað viðhorf en var 1927, þegar l. var breytt. Nú er það hins vegar reynslan, sem hver einasti maður hefur rekið sig á, sem eitthvað hefur starfað s.l. ár, að þetta hefur veruleg áhrif á fjármálalíf þjóðar okkar. Stefna sú, sem Alþ. og ríkisstj. hefur tekið, hefur oft verið allt önnur en sú, sem ráðið hefur í Landsbankanum, og þetta hefur orðið til þess, að það hafa beinlínis orðið árekstrar milli þessara stofnana, Alþingis og ríkisvaldsins annars vegar og Landsbankans hins vegar, og öllum þm. er kunnugt um það, hvers konar barátta hefur farið fram í þessu sambandi, þannig að engum getur blandazt hugur um það, að Landsbankinn er nú orðinn ríki í ríkinu. Mín skoðun er sú, að í augnablikinu sé ástandið þannig, að stjórn Landsbankans ráði raunverulega meira um fjármála- og atvinnulíf þjóðarinnar en sjálf ríkisstj. En það er ekki aðalatriðið í sambandi við þetta, heldur hitt, að það er ekki hægt að reka skynsamlega fjármálastefnu í okkar landi, án þess að þessar tvær stofnanir séu samræmdar. Annars verða þarna árekstrar, sem valda þjóðinni miklu tjóni í framkvæmd. Þess vegna held ég, að það væri mjög heppilegt, svo að ekki sé hér farið fram á stærra, að það væri rætt einu sinni á hverju ári á Alþ., hvaða stefnu Alþ. og þar með ríkisstj. álíti rétt, að seðlabankinn reki. Ég veit, að t.d. Svíar hafa slíkan hátt á hjá sér, og með þeim hætti tókst þeim að yfirvinna kreppuna frá 1934, sem hefði verið alveg óhugsandi, ef þessi samræming hefði ekki átt sér stað milli aðgerða þingsins og ríkisbankans. Nú háttar svo til hjá okkur hvað Landsbankann snertir, að valdið er hvorki hjá landsbankanefnd né landsbankaráði, heldur raunverulega hjá bankastjórunum, og það þýðir, að það er raunverulega undir þeirra skoðun komið, hvers konar stefna er rekin. Þetta skapar hjá okkur á sviði, sem hefur afgerandi þýðingu fyrir atvinnulíf okkar, embættisvald, sem að mínu áliti er hættulegt. Við tölum allmikið um lýðræði, og við viljum framfylgja því, en við höfum banka, marga banka, sem ríkið á, og þjóðbanka, sem ríkið beinlínis á að stjórna, en reynslan verður sú, að stjórnin á þessum þjóðbanka verður í hönd um nokkurra embættismanna, sem setja verður ævilangt, en ríkisstj. og Alþ. geta ekki tryggt það, að vilji þjóðarinnar á hverjum tíma komi í ljós í þessari stofnun ríkisins — nema þá grípa til þeirra ráða, sem menn ógjarnan vilja grípa til og ég skal viðurkenna, að mjög óviðkunnanlegt væri að grípa til, þ.e. ef eftir hverjar kosningar væri farið að breyta landsbankalögunum. Það er því gefið, að það væri miklu betri aðferð, að þing og stjórn láti sínar skoðanir í ljós við árlegar umræður. Ég hafði þess vegna hugsað mér, þegar þetta frv. kom fram og fór fram á þessa undanþágu, að rétt mundi vera að freista þess, hvort Alþ. mundi vilja taka upp þann sið að hefja árlega nokkrar umræður í sambandi við þessi mál. Ég geri það þess vegna a ð tillögu minni, að í stað „septemberloka 1952“ komi: októberloka 1948. Það er svo, að Alþ. er yfirleitt kvatt saman 1. okt., og gæfist þá þinginu tóm til að framlengja slík lög, ef meiri hluti þess vill. Ég fæ ekki séð, að þessi breyt., sem ég legg til, að hér verði gerð, muni á nokkurn hátt verða til tjóns fyrir bankann, og álít ekki rétt að binda hendur þingsins með því að veita þessa undanþágu til 5 ára, heldur, að hvert þing fái að ráða slíku.