16.02.1948
Neðri deild: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

148. mál, meðferð einkamála í héraði

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. að ráði, málið hefur ekki verið hér lengi á döfinni, en ég hef þá skoðun, að þm. þurfi ekki lengri tíma til að átta sig á því. En út af því, sem hv. dómsmrh. sagði um það, að héraðsdómarar nytu rýmri og meiri lagaverndar en hæstaréttardómarar, þá hef ég komið að því áður, að ef ósamræmi virtist þar á milli, þá lægi næst að veita hæstaréttardómurum hina sömu vernd og héraðsdómarar hafa nú. Mín skoðun er sú, að lagaákvæðin, sem koma í veg fyrir það, að unnt sé að víkja dómurum frá án undangengins dóms, séu eingöngu sett til að auka dómsöryggið í landinu, svo að ráðherra eða valdamenn geti ekki sópað burtu þeim dómurum, sem þeim eru ekki að skapi af einhverjum ástæðum. Hér er ekki um vernd til handa mönnunum sjálfum að ræða, heldur vernd þess embættis, er þeir gegna, og ef svo er, sem ég tel rétt hjá hv. dómsmrh., að frv. þetta, ef að lögum verður, fyrirbyggi ekki, að dómarar sitji í embættum til sjötugs, þá vil ég spyrja, hvaða ást:eða sé til þess að undanþiggja fimm síðustu árin, sem þeir gegna embættum sínum, þessari umræddu vernd. Hvað er á móti því, að sama réttaröryggið haldist allan embættisaldurinn, í stað þess að undanþiggja árin frá 65–70 ára og opna þar með leið til að veikja réttaröryggið? Annars er það ekki rétt hjá hæstv. dómsmrh., að ég hafi haldið því fram, að þetta frv. hér mælti svo fyrir, að héraðsdómarar væru undantekningarlaust látnir fara úr embættum 65 ára, en ég gerði ráð fyrir, að það sækti í sama horfið og áður, að ráðh. og aðrir valdamenn létu þessa embættismenn stundum fara frá, áður en þeir raunverulega þyrftu aldurs síns vegna, og þá án þess að líta á það, sem hagkvæmt er fyrir þjóðfélagið.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta meira, en einu er ekki hægt að neita, og það er, að með þessu frv. er opnuð leið, sem áður var notuð, til að láta héraðsdómara fara úr embættum 65 ára. án tillits til þess, hvort þeir eru færir um að gegna þeim áfram eða ekki.