19.02.1948
Neðri deild: 60. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

61. mál, sementsverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti, Ég vil þakka hv. iðnn. fyrir það starf, sem hún hefur lagt í að athuga þetta mál, og fyrir þær niðurstöður, sem hún leggur hér fram á þskj. 399 og komu fram í framsöguræðu hv. frsm. iðnn. Ég skal geta þess um leið, að eins og kemur hér fram í nál., þá ræddi n. við mig um þær smávægilegu breyt., sem hún vill gera á frv. Og ég fellst fyllilega á, að þær séu til bóta.

Eins og hv. frsm. n. tók fram, er þetta fm. aðeins um heimildarl. um að reisa þessa verksmiðju.

Ég tel, eins og ég hef látið í ljós við þetta mál, að hér sé um svo mikilsvert mál að ræða. ef það er sýnilegt, að svona verksmiðja ætti hér tilgangsrétt og gæti starfað nokkurn veginn á samkeppnishæfum grundvelli við erlendar verksmiðjur, þó að segja megi, að ýmsa hluti þyrfti að athuga betur, áður en ráðizt er í framkvæmdir. En málið er sem sé það mikilsvert, að rétt væri að afla ríkisstj. heimildar til að hefja framkvæmdir í þessu máli.

Ég geri ráð fyrir og vænti þess, að þetta frv. verði að l. á þessu þingi. Og meðan ég á sæti í atvmrn., mun ég beita mér fyrir því, að það verði kannað enn betur en orðið er, hvort sá grundvöllur, sem hér er byggður á útreikningur og rannsóknir, sé ekki öruggur til að hefja framkvæmdir á. Það er sýnilegt, eins og nú er háttað um gjaldeyriseignir þjóðarinnar, að það er ekki á þessu eða næsta ári hægt að verja af þeim gjaldeyri, sem til fellur, því sem fram þarf að leggja samkvæmt frv. í þetta fyrirtæki. Sjálfsagt tel ég, ef málið þarf að standa eða bíða vegna þessa, að leita fyrir sér um erlent lán, að því leyti sem erlendan gjaldeyri þyrfti að nota til kostnaðar fyrirtækisins. Ég tel sjálfsagt, að það sé reynt, heldur en að málið af þeim ástæðum þyrfti að dragast um ófyrirsjáanlegan tíma. Hvernig það muni ganga, er ekki hægt að segja um fyrirfram, en ég tel sjálfsagt að reyna þá leið til þrautar, heldur en að verkið tefjist. Að öðru leyti er sjálfsagt að verða við því, sem kom fram hjá hv. frsm., að rannsaka niður í kjölinn einstaka kostnaðarliði, sem hægt er að fá betri vissu um, nema með útboðum í vélar, þannig að nokkurn veginn sé tryggt, að ekki sé rasað um ráð fram í þessu og að ekki sé ráðizt í annað og meira fyrirtæki en hér er gert ráð fyrir að byggja.