20.02.1948
Neðri deild: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

61. mál, sementsverksmiðja

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Það er aðeins út af nokkrum þeim atriðum, sem komu fram hjá hæstv. atvmrh. og hv. þm. Rang., sem ég stóð hér upp.

Ég skil það ósköp vel hjá hv. 2. þm. Rang., að hann sé á móti því að hafa þetta annað en heimild, eins og hann túlkaði þetta mál í ræðu sinni, en það er grundvallarmismunurinn á skoðun minni og hans, að ég tel, að búið sé að gera fullnaðarrannsókn á þessum efnum, sem leitt hafi í ljós, að mögulegt sé að ráðast hér í sementsframleiðslu. Hér eru hráefnin fyrir hendi. sem þarf til þessarar framleiðslu, og mun óviða í Evrópu þurfa eins lítinn tilkostnað í sambandi við þessa framleiðslu eins og hér á landi. Mér er kunnugt um það, að viða í nágrannalöndunum þarf að flytja hráefnið á flutningaböndum úr 40 km fjarlægð til verksmiðjanna, og sér hver maður, hvað slíkt hlýtur að vera dýrt miðað við að hafa ótakmarkað af hráefnum til staðar, þar sem verksmiðjan er staðsett og ekki þarf að flytja þau nema nokkra tugi metra eins og hér háttar í þessum efnum. Málið liggur því þannig fyrir frá minn sjónarmiði, að það sé í alla staði mögulegt að leggja út í þessar framkvæmdir. Einasta vafaatriðið í þessum efnum kann að vera það, að við Íslendingar kunnum ekki að fara með þær vélar, sem nágrannaþjóðirnar eru búnar að koma upp hjá sér. Það hefur farið mikið í vöxt undanfarið í öllum löndum að byggja sementsverksmiðjur, og gerir hin aukna eftirspurn eftir slíkum vélum auðvitað okkur stórum erfiðara fyrir um útvegun þeirra. Sýnir þetta, hve nauðsynlegt er að ráðast í þetta fyrirtæki og gera vélapantanir sem fyrst, og það þarf mikla bölsýni til að álita það vanhugsað og varhugavert fyrir okkur að hrinda þessu fyrirtæki af stað á sama tíma sem allar nágrannaþjóðir okkar keppast við að koma slíku upp. Ég fæ ekki betur séð en að allri undirbúningsrannsókn sé lokið, en hv. 2. þm. Rang. virðist hins vegar á þeirri skoðun, að hér sé ekki um annað að ræða en að ríkisstj. láti fara fram rannsókn á því, hvort það muni svara kostnaði að byggja sementsverksmiðju hér á landi. Hann telur, að slík rannsókn hafi ekki verið gerð, en það er ekki hægt fyrir hann að hafa þessa skoðun nema því aðeins, að hann áliti þá menn, sem unnið hafa að undirbúningi málsins, ómerka fleiprara, en þeir hafa lýst yfir og lagt við embættisheiður sinn, að þessum spurningum sé svarað og það játandi. Hitt er annað mál, að ef hv. 2. þm. Rang. vill halda því fram, að þessar rannsóknir séu ófullkomnar eða óáreiðanlegar, er eðlilegt, að hann vilji, að frv. sé barið fram í heimildarformi til þess að ríkisstj. fari ekki út í þessar framkvæmdir þegar í stað, og að tilgangur frv. sé að láta þessa rannsókn fara fram, þar sem hann telur, að undirstöðurannsókn sé enn ógerð. Þá rannsókn er hins vegar búið að gera, en það eru aðrar rannsóknir, sem ekki er búið að gera, svo sem nákvæmar teikningar og ákvörðun um fyrirkomulag á verksmiðjulóð ö. fl., sem að vísu er töluvert verk, en mundi þó aldrei taka eins langan tíma og að bíða eftir vélunum, frá því að þær hafa verið pantaðar.

Þá sagðist hv. 2. þm. Rang. hafa haft slæma reynslu af því, hvernig áætlanir verkfræðinga reyndust og hve þær færu fram úr áætlun. Nefndi hann í því sambandi Skeiðfossvirkjunina og síldarverksmiðjurnar, og hygg ég, að þau dæmi hafi verið valin með tilliti til mín. En það er nú svo, að það er vitanlega ekki á færi verkfræðinga og engin sanngirni að ætlast til þess, að þeir geti séð fyrir þær verðlagsbreytingar. sem verða almennt. Það getur t.d. vel svo farið. að þótt áætlað sé, að bygging sementsverksmiðju kosti um 15 millj. kr., að raunverulegur kostnaður hennar verði um 30 millj., en það er þó ekki þar með sagt, að afkomumöguleikar hennar verði neitt verri fyrir það. Og ef kostnaðurinn fer svo langt fram úr áætlun vegna almennra verðlagsbreytinga eða að gildi peninga hafi breytzt, getur svo farið, að afkomumöguleikar hennar verði enn betri. — Um annað dæmið. sem hv. 2. þm. Rang. tilnefndi, sem sé það, að kostnaður Skeiðsfossvirkjunarinnar, sem áætlaður var í fyrstu 6 millj. kr., reyndist helmingi hærri, eða 12 millj., er það að segja, að afkomumöguleikar þessarar virkjunar með þessum háa kostnaði eru mun betri en þeir áttu að vera samkv. 6 millj. kr. áætluninni, vegna þess að tekjumöguleikarnir með hækkuðu rafmagnsverði hafa fyllilega fylgzt með — og meira en það, því að verulegur þáttur þarna voru vélarnar, sem voru keyptar það snemma, að verðlagshækkunin kom aðallega á byggingarkostnaðinn, en þessi virkjun var byggð á mjög miklum breytingatímum, og við vitum ekki, hvort þeir tímar eru liðnir eða ekki. Það eru margir, sem óska þess, að þessi bylgja vaxandi verðlags stöðvist, a.m.k. hér á landi. En það er nú svo, að verulegur hluti af nauðsynjum einstaklinga hér á landi er ákveðinn hvað verðlag snertir erlendis frá, og við verðum því að fljóta þar með og getum ekkert þar við ráðið. Ég er hins vegar sannfærður um það, að þótt byggingarkostnaður sementsverksmiðjunnar fari svipað fram úr áætlun og kostnaður Skeiðsfossvirkjunarinnar, þá eru engar líkur til þess, að verð á afurðum verksmiðjunnar fylgist ekki algerlega með þeim verðlagsbreytingum, sem valda verðhækkun, þannig að afkomumöguleikar hennar ættu að vera svipaðir eins og Skeiðsfossvirkjunarinnar, sem — eins og ég sagði áðan — hafa ekki orðið verri þrátt fyrir þessa hækkun á byggingarkostnaðinum. Og það er dálítið skrýtið sjónarmið hjá hv. 2. þm. Rang., að framkvæmdum sé bezt borgið með því að bíða með þær, unz hægt er að gera áætlanir upp á eyri. Við getum rakið alla okkar atvinnuframkvæmdasögu og hvarvetna séð dæmi um það, að þeir, sem hafa haft þennan hugsunarhátt, hafa jafnan beðið stærstan skaða af seinlæti sínu. Þó að sementsverksmiðja, t.d., sem reist hefði verið 1938, hefði að kostnaði til farið 200% fram úr áætlun, hefði sá kostnaður ekki orðið nema 1/3 af því fé, sem nú yrði að greiða fyrir slíka verksmiðju. Það ber því fyrst og fremst að athuga, hvort fyrirtækið er þjóðfélagsleg nauðsyn og hvort nægilegt vinnuafl sé fyrir hendi til framkvæmda, og sé svo, þá að ráðast í það. Hvað viðvíkur síldarverksmiðjubyggingunum, vildi ég benda á, að það er kannske mesta gæfan, að ráðizt var í þær svo snemma og framkvæmdum hraðað, þótt þær færu fram úr áætlun. T.d. fengust vélar til þeirra árið 1945 fyrir helming þess verðs, sem orðið hefði að greiða nú. Og það mundi koma í ljós, ef reisa ætti slíkar verksmiðjur nú, að þótt verksmiðjurnar á Siglufirði og Skagaströnd yrðu dýrari en ætlað var, þá væri sá kostnaður lítill á móts við það, sem nú yrði, og ef sú gæfa fylgdi á eftir, að við fengjum góða síldarvertíð á næsta sumri, mundu þær alveg borga sig gjaldeyrislega og jafnvel mikið af kostnaðinum við að reisa þær.

Það er misskilningur hjá hv. 2. þm. Rang. hvað snertir sementsverksmiðjuna, að það standi eins á um hana og áburðarverksmiðjuna. Þar voru ótal atriði, sem ekki var búið að rannsaka. til dæmis það, sem veigamest var, að ekki var rannsakað til fulls, hvers konar áburð væri þýðingarmest að framleiða. Þar vantaði allt. Nú kann að vera, að hyggilegt hefði verið að ráðast í byggingu áburðarverksmiðju, en þá stóð öðruvísi á en nú um sementsverksmiðjuna, þar sem rannsökuð hafa verið öll meginatriði og fagmenn okkar hafa átt kost á að kynna sér málið ýtarlega.

Enda þótt verðlag breytist og verð hækki, eru engin hyggindi í því að halda að sér höndum. Við verðum að halda áfram að byggja upp atvinnutækin, hvað sem því líður. Þetta trúleysi og vanleysi, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Rang.. hefur þegar valdið okkur óbætanlegu tjóni í sambandi við allar mögulegar framkvæmdir, sem við höfum verið að veita fyrir okkur áratugum saman. Til dæmis fóru fram undirbúningsrannsóknir í þessu máli fyrir árið 1935 og ríkisstj. það ár falið að láta framkvæma þær. Þær rannsóknir leiddu hið sama í ljós í málinu og nú er fram komið, svo að þær rannsóknir, sem nú hafa verið gerðar, hafa þess vegna orðið miklu léttari. Við bættum því ekkert fyrir málinu með því að velta því fyrir okkur svo lengi. Og ef hæstv. atvmrh. hefur áhuga fyrir að leysa málið, sem ég efast ekki um, þá stendur hann ólíku betur að vígi, ef hann fær um það fyrirmæli í ákveðnu formi frá þinginu heldur en heimild eina. Hæstv. atvmrh. ætti að vera mér þakklátur fyrir till. og fylgja henni.

Hæstv. atvmrh. taldi nauðsynlegt að taka erlent gjaldeyrislán til þessara hluta. En eins og hv. 2. þm. Reykv. (EOl) sagði, er ekki rétt að fara inn á þá braut fyrr en áætlun liggur fyrir um gjaldeyrisöflun okkar og hve miklu af gjaldeyrinum við þurfum að verja til daglegs brauðs og hve miklu við getum varið til bygginga á atvinnufyrirtækjum. Þá fyrst, er það er komið á daginn, að um raunverulega gjaldeyrisþörf sé að ræða, koma lántökur til greina. Ég er svo annars sammála hæstv. atvmrh. um það, að sé gjaldeyrir ekki fyrir hendi til þessara framkvæmda. sé rétt að taka lán.

Hæstv. atvmrh. minntist á, að ríkisstj. vildi ekki fara inn á þá braut að prenta peningaseðla til þess að afla innlends fjár til þessara framkvæmda, eins og hv. 2. þm. Reykv. talaði um. og lái ég honum það ekki, ef hann heldur, að með því sé átt við það að reisa verksmiðjuna úr tómum seðlum. Spurningin er fyrst og fremst um vinnuaflið, og á Vestfjörðum eru hendur í hundraðatali til þess að vinna þetta verk. Seðlaveltan á hverjum tíma verður svo að vera í samræmi við það vinnuframboð, sem í landinu er, ef hún á að miðast við það að halda öllum vinnufærum mönnum að starfi.

Eina vandamálið verður þá gjaldeyririnn. Höfum við hann? Og ef svo er ekki, hvernig fáum við þá lán? Hitt sjá allir heilvita menn, að það borgar sig að láta atvinnulausar hendur koma upp arðbærum fyrirtækjum, og það er óþarft að vera að rugla og flækja svo ljóst mál með háfleygum hagfræðiskýringum um peningapólitík og seðlaveltu.

Það kom ekki greinilega fram í ræðu hæstv. atvmrh., og ég vænti þess, að hann gefi upplýsingar um það, hvort sementsverksmiðjan hefur verið tekin inn í fjárfestingaráætlun fjárhagsráðs eða ekki. Ef svo er ekki, verður Alþ. að skera úr því, hvort hún skuli reist, og því er brtt. mín fram komin, að það er nauðsynlegt. að sá úrskurður verði sem skýrastur, ef þdm. ætla að vera vissir um, að ráðizt verði í þessar framkvæmdir, en ekki fari enn á sömu leið og 1935, að við verðum enn að velta málinu fyrir okkur í 5–10 ár og eyðum erlendum gjaldeyri tugmilljónum saman til sementskaupa. Þm. verða hér að taka alveg af skarið og ákveða að reisa verksmiðjuna. Þetta er svo þýðingarmikið skref til að skapa hér stóriðnað, að við megum ekki við því að eyða fleiri árum í tómar bollaleggingar um það, hvort rétt sé að ráðast í það eða ekki. heldur ber að viðurkenna almennar staðreyndir, er fyrir liggja, og ákveða, að verksmiðjan skuli reist.