20.02.1948
Neðri deild: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

61. mál, sementsverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ég er undrandi á umr. um þetta mál. Þær hafa snúizt á þá leið, að ókunnugir, sem hlýddu á þær, gætu haldið, að hér væri um að ræða eitt mesta deilumál þingsins, og þó er málinu skilað af n., þar sem allir flokkar eiga fulltrúa, og eru allir nm. sammála. Svo risa hér upp tveir sósíalistaþm. og vaða vítt og breytt og virðast helzt ætla að stöðva málið með málæði og málþófi. Ég verð að segja, að ekkert hefur komið fram í umr., sem þoki málinu áfram.

Hv. 2. þm. Reykv. er orðinn langeygður eftir áætlun fjárhagsráðs, og lái ég honum það raunar ekki. Það er eðlilegt, að hv. þm. langi til að sjá hana, en það kom fram hjá honum, er hann var að ræða gerðir nýbyggingarráðs, að það er enginn leikur að gera slíka áætlun. Byrja þarf frá grunni og gera margar skýrslur og athuganir, og er eðlilegt, þegar þetta er gert í fyrsta skipti, að þá sé samning slíkrar áætlunar æði tímafrek. Og ég held, að það sitji sízt á þessum hv. þm. að deila á þá menn, sem gera eiga þessa áætlun, því að hann átti sæti í nýbyggingarráði, sem lögum samkvæmt átti að gera 5 ára framkvæmdaáætlun, sem aldrei var gerð. Næst á eftir þessu átti svo ráðið að ráðstafa fé til framkvæmdanna. Svo les hv. þm. reglugerð um framkvæmdir ráðsins. Ég verð að segja, að þessi reglugerð er tæplega byggð á lögum, því að fyrst átti að gera áætlunina og síðan að ráðstafa fé til framkvæmdanna. En öllu er snúið við, framkvæmdirnar gerðar fyrst og áætlunin aldrei, og því erum við svo illa staddir fjárhagslega, að peningunum var eytt áður en áætlunin lá fyrir. Í reglugerðinni er talað um áburðarverksmiðjuna, en aldrei var gerð nein áætlun um hana og engir peningar lagðir til hliðar til hennar. Það var aðeins ákveðið að veita 50 millj. kr. til landbúnaðarins, en þegar ráðstafað hafði verið helmingi þeirrar upphæðar, voru allir peningar nýbyggingarráðs búnir. Fyrir vanrækslu hv. 2. þm. Reykv. stöndum við nú í fjárhagsvandræðum. Hann buslaði við að veita fé til þarfa og óþarfa, en hirti ekki um að skipuleggja það svo, að nauðsynlegar framkvæmdir gengju fyrir. Það sitja því illa á honum þau álösunarorð til fjárhagsráðs, að ekki skuli vera búið að leggja fram áætlunina fyrir þetta og næsta ár. En það get ég sagt, að fjárhagsráð er komið lengra í sínu starfi en hv. 2. þm. Reykv. komst í nýbyggingarráði. Síðast liðið haust sendi ég fjárhagsráði skjöl og skýringar á þessu máli, og hefur ráðið tekið málið til athugunar og gert því nokkra grein, en með því að ekki er gert ráð fyrir, að framkvæmdir hefjist á þessu ári. gerir ráðið ekki heldur ráð fyrir gjaldeyri til þessa á þessu ári. Af því að ég hef áhuga á þessu máli, tel ég reynandi að leysa það með því að taka lán, og veit ég, að hæstv. fjmrh. er mér þar sammála, um það, að rétt sé að leita fyrir sér um lán, því að sýnt þykir, að fyrirtækið geti borgað sig gjaldeyrislega. Ef gjaldeyrisástandið verður hins vegar betra en gert er ráð fyrir, þá verður sá gjaldeyrir, sem fæst, notaður til sementsverksmiðjunnar. Ef það verður ekki. vil ég ekki loka þeirri leið til framkvæmda, að tekið verði lán.

Ég skal svo ekki lengja umr. og vona, að hv. þm. geri sér ekki leik að því að tefja málið. Ég tel enga nauðsyn að samþykkja brtt. hv. þm. Siglf. og tel málið engu nær með því. Fjáröflunarleiðir þarf alltaf að athuga áður en byrjað er á framkvæmdinni, og að órannsökuðu máli er ekki hægt að skipa ríkisstj. að reisa verksmiðjuna, en ríkisstj. mun leysa þetta mál eins fljótt og henni er unnt.