27.02.1948
Neðri deild: 65. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

61. mál, sementsverksmiðja

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Við 2. umr. bar iðnn. fram tvær brtt. á þskj. 339 við frv. þetta og lagði til, að 7., 8. og 9. gr. yrði breytt. Þessar till. voru teknar aftur til 3. umr., vegna tilmæla hv. þm. V-Ísf. um að taka til athugunar breyt. á 7. gr., er fjallar um greiðslu skatta og útsvars. N. hefur athugað þetta og orðið sammála um að breyta 7. gr. nokkuð. Flytur n. um það brtt. á þskj. 393 við brtt. á þskj. 339. Ég skal gera nokkra grein fyrir því, hvernig n. leggur til, að 7. gr. verði orðuð.

Það er gert ráð fyrir því, að verksmiðjan verði undanþegin öllum sköttum og opinberum gjöldum nema útsvari til sveitarsjóðs. Þetta útsvar er þó háð þrenns konar takmörkunum. Það má aldrei nema meiru en helmingi af tekjuafgangi verksmiðjunnar eða 1/2% af kostnaðarverði framleiðslunnar ár hvert, og útsvar verksmiðjunnar má ekki nema hærri fjárhæð en fjórða hluta samanlagðra útsvara Flateyrarhrepps og Mosvallahrepps. Til þess að tryggja hreppunum nokkra útsvarsmöguleika, skal þó jafnan heimilt að leggja á verksmiðjuna útsvar, er nemi allt að 1/4% af árlegu kostnaðarverði framleiðslunnar.

Ef athugað er, hvað þetta þýðir og miðað við þann framleiðslukostnað, er frv. gerir ráð fyrir, má útsvarið aldrei fara fram úr 45000 kr., en jafnan má leggja á útsvar allt að 1/4 % af kostnaðarverði framleiðslunnar eða allt að 22500 kr. Það er því vel séð fyrir því, að verksmiðjunni verði ekki íþyngt, en hreppunum þó séð fyrir útsvari.

Þá er enn fremur tekið inn í gr. samkvæmt tilmælum hv. þm. V-Ísf., að verði verksmiðjan reist í Flateyrarhreppi, en skeljasandur tekinn í Mosvallahreppi, þá skuli útsvarinu skipt milli hreppsfélaganna eftir samkomulagi eða að öðrum kosti samkvæmt úrskurði atvmrh.

Þetta er brtt. n. við 7. gr. Um brtt. við 8. Og 9. gr. ræddi ég við 2. umr. og sé ekki ástæðu til að ræða hana frekar nú.

Auk þessara tveggja brtt. liggur einnig fyrir brtt. frá hv. þm. Siglf., þar sem horfið er frá heimildarforminu og kveðið svo á, að skylt skuli að byggja verksmiðjuna, hefja framkvæmdir á árinu 1948 og hraða þeim sem mest. Um þetta var rætt við 2. umr. málsins.

Ég vil leggja áherzlu á það, að iðnn. er sammála um það að mæla með frv. eins og það kom frá hæstv. ríkisstj. Í ræðum þeim, er haldnar voru um málið við 1. og 2. umr., kom ekki fram neinn ágreiningur um það, að þetta væri nauðsynjamál. Þar sem enginn ágreiningur var, tel ég brtt. hv. þm. Siglf. ástæðulausa og ekki ástæðu til að hverfa frá venjulegu formi. Allir flokkar í iðnn. eru málinu samþykkir. Barátta hv. þm. Siglf. og hv. 2. þm. Reykv. er því hálfgerð Don Quijote-barátta, því að það er enginn, sem berst gegn þeim. Ef lagzt verður á málið, er nógur tími fyrir þessa hv. þm. að hefja branda sína á loft og beita þeim af djörfung. Nú er þess engin þörf. Ég er því andvígur till. hv. þm. Siglf. af því einu, að hún er óþörf eins og málið stendur nú.