27.02.1948
Neðri deild: 65. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

61. mál, sementsverksmiðja

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. við brtt. hv. þm. Borgf. (PO). Ég hef talað við þá meðnm. mína, sem hér eru staddir, og erum við sammála um að leggja til, að málið verði afgr. út úr d. og að till. okkar á þskj. 393 verði samþ. Höfuðatriði þessa máls er, að starfræksla verksmiðjunnar mun væntanlega hafa áhrif á atvinnulíf beggja hreppanna, sem hér eiga hlut að máli.

Eins og hæstv. atvmrh. hefur tekið fram, verður væntanlega valinn staður nærri mörkum þessara tveggja hreppa, og er þá gert ráð fyrir, að samkomulag náist milli hreppanna um skiptingu útsvarsins. Náist það ekki, á hæstv. atvmrh. að skera úr. Svo að áætla má, að hér sé vel búið að og að í þessu sambandi verði ekki stigin nein þau spor, sem talist gætu óheppileg fordæmi í framtíðinni eða á öðru sviði.

Hins vegar vil ég ítreka það fyrir hv. þm. Borgf., að ég hef vakið athygli iðnn. á þessu máli, og óskar hún að athuga það, hvort ástæða þætti til að breyta hér um. En n. leggur það til, að málið nái fram að ganga eins og hún hefur lagt til í brtt. á þskj. 393.

Við hv. þm. Siglf. vil ég segja það, að mér kom það nokkuð á óvart, hve mikla tilhneigingu hann hefur til þess að draga þetta mál á langinn með alls konar umr., sem ekki eiga skylt við þetta mál. Ég hef ekki dregið nein óviðkomandi mál inn í þessar umr. Það eina, sem ég sagði og ekki telst þessu máli við koma, var örstutt svar við þeim ummælum, sem hv. þm. lét sér um munn fara.

Hv. þm. skoraði á mig að ræða við sig um fjármálastefnu Landsbankans. Ég vænti þess, að enginn láti sér detta í hug, að ég hafi ástæðu til að skorast undan hv. þm. Siglf. Ég mundi feginn grípa hendi til að eiga slíkar umr. við hv. þm. Siglf., þegar eðlilegt tilefni gefst til þess. Hins vegar sé ég ekki ástæðu til að blanda því inn í þetta mál. Það yrði bara til að tefja málið meira en orðið er. Þar sem hv. þm. hefur talað báða ræðutíma sína og á þess vegna ekki kost á að svara, þá held ég, að það sé bezt fyrir okkur að geyma það til annars og betri tíma. Hann getur verið þess fullviss, að það stendur ekki á mér að ræða þessi mál almennt í heild við hv. þm.