15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

187. mál, síldarvinnslutæki o.fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil í sambandi við þetta mál beina tveimur fyrirspurnum til hæstv. fjmrh., sem ég óska eftir, að hann svari þegar. Fyrst þeirri, hversu mikið af þessu láni er hugsað að taka í dollurum. Mér skilst reyndar á grg. frv., að ríkisstj. geri ráð fyrir því, að hún þurfi tveggja millj. dollara lán, eða um það bil 13 millj. kr. En ég taldi rétt, að skýrt væri tekið fram, og kannske í frv., hvað af þessu láni væri heimild til að taka í erlendum gjaldeyri og hvað í innlendum. — Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. fjmrh., hvort hæstv. ríkisstj. hugsaði sér, að þessi erlenda lántaka yrði hluti af Marshall-áætluninni, eða hvort lánið yrði bundið einhverjum sérstökum skilyrðum eða öðrum skilyrðum um afborganir og vexti og tryggingu heldur en venjulegum verzlunarskilyrðum, sem gerast við lántökur. Það er alveg nauðsynlegt að fá skýr svör við þessu, áður en frv. fer til n., til þess að n. viti um þetta, áður en hún tekur afstöðu til málsins. Vildi ég fara þess á leit við hæstv. ráðh., að hann gæfi um þetta yfirlýsingu.