15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

178. mál, fiskmat o.fl.

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi biðja hv. 1. landsk. afsökunar á því, að ég tók ekki eftir þeim fyrirvara, sem hann hafði varðandi breytingu á tölu matsmanna í Suðvesturumdæminu. Það er rétt, að hann hafði hann í nefndinni.

Ég mun ekki gera það að neinu kappsmáli, hvort fiskmatsmennirnir verða 7 eða 6 á landinu, það ætti aðallega að koma til kasta ráðherra að gera það upp, hvers þörf krefði um það. Og mér þykir rétt, eftir að þau gögn hafa komið fram, sem hv. 1. landsk. las upp, að þessi liður verði tekinn til baka til 3. umr. Annars skal ég upplýsa, að Sveinn Árnason fiskimatsstjóri taldi þetta kröfu freðfisksmatsstjóra og vegna afstöðu hans væri hann ekki með því, að talan yrði lækkuð, og benti mér á að tala við hann. En ég þekki hans stefnu í þessu máli, og hv. 1. landsk. veit það líka, að eiginhagsmunastefnan hjá freðfisksmatsstjóra ræður meira um afstöðu hans en nokkuð annað, og það hefur komið í ljós, að undir hans stjórn hefur freðfisksmatið orðið helmingi dýrara en það þurfti að vera, og það er fyrir starf fjvn., sem tók þar í taumana, að það hefur lækkað. Og sannleikurinn er sá, að krafan er öll frá freðfisksmatsstjóra og kappið um það, að hann geti setið hér jafnrétthár fiskimatsstjóra og haft hægari daga. Hv. 1. landsk. veit, að fyrirskipanir freðfisksmatsstjóra hafa verið ein í dag og önnur á morgun, og ef það hefði átt að fara eftir þeim, þá væri engin freðfisksframleiðsla í dag hér við Faxaflóa.

Er þá þörf á þremur matsmönnum við Faxaflóa? Mundi ekki hægara fyrir tvo yfirfiskmatsmenn og fiskmatsstjóra að annast þessi störf með þeim samgöngum, sem eru á þessu svæði, heldur en fyrir einn mann á Vestfjörðum öllum til dæmis með þeim samgöngum, sem þar eru? Annríkið stendur hér heldur ekki lengur en frá 1. jan. til 14. maí. Hinn tíminn er allur dauður. Og ég teldi það enga goðgá, þótt yfirfiskmatsmaðurinn í Vestmannaeyjum þyrfti að skreppa annað slagið til Stokkseyrar og Eyrarbakka, og dálítið annað eða þurfa að ferðast frá Ísafirði til Tálknafjarðar, — eða við skulum taka Austurland til dæmis, þar sem þess er krafizt, að yfirfiskmatsmaðurinn sitji á Seyðisfirði og hafi eftirlit með allri saltfisks- og freðfisksverkun alla leið til Hornafjarðar. Ég verð því að segja, að Suðvesturlandið er betur sett með þrjá menn í Reykjavík, eins og samgöngum þar er háttað, þar sem þeir geta komizt með mjólkurbílunum í allar áttir, ef þeir komast ekki öðruvísi.

Ég mun ekki greiða atkv. um þetta nú, en skal taka till. til baka til frekari umr. í n., en vil þó benda á, að þetta gæti orðið til að tefja málið. Ég hef annars rætt þetta við hv. þm. Ísaf., form. sjútvn. Nd., og það eina, sem hann hnaut um, var, að yfirmatsmennirnir yrðu sjö, og geri ég ekki ráð fyrir, að hans skoðun hafi breytzt í málinn. En ég mun reyna að hafa samband við sjútvn. Nd. til þess að forða hrakningi á milli deilda.

Í sambandi við aths. hv. þm. Seyðf. þykir mér rétt að taka þá till. til baka til 3. umr.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar nú og skal ekki tefja umræður.