22.03.1948
Neðri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

161. mál, bifreiðalög

Frsm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þetta mál og leggur til, að frv. verði samþ. með tveimur breyt. Um 1. gr. þessa frv. er það að segja, að það virðist vera mjög nauðsynlegt að setja þau ákvæði, sem sú gr. inniheldur, sem sé, að ef maður leitar eftir að fá ökuskírteini utan heimilissveitar sinnar, þá skuli hann láta beiðninni fylgja samþykki lögreglustjóra í heimasveit sinni. Allshn. leggur til, að þessi gr. verði samþ. alveg óbreytt. — N. hefur hins vegar lagt til, að á 2. gr. frv. verði gerðar tvær breyt. Það er svo nú, að til kennslu í akstri eru notaðar allar mögulegar tegundir bifreiða. Og ef maður lærir eða tekur próf á jeppabifreið eða lítilli enskri bifreið eða smá-sendiferðabifreið, þá getur hann fengið réttindi til að aka margra tonna vörubifreið, þó að reyndar sé enginn samanburður á því, hve miklu erfiðara er að stjórna svo þungri bifreið heldur en léttri bifreið. Allshn. hefur þess vegna lagt til, að sett verði í gr. heimild fyrir dómsmrh. ekki aðeins til að ákveða gerð þeirra bifreiða, sem notaðar eru til kennslu í akstri, heldur einnig þyngd þeirra. Þetta yrði nokkuð til samræmis við það, sem gerist í sambandi við meira próf. Þá yrðu menn ekki látnir taka meira próf á minni bifreið heldur en 20 til 30 manna fólksbifreið. — Ég vildi spyrja hæstv. dómsmrh., hvort hann mundi ekki, ef þetta ákvæði væri sett inn í l., nota það til þess að ákveða í þessu sambandi vissa þyngd á vörubifreiðum, sem tekin væru próf á, því að annars hefði ég talið, að Alþ. hefði jafnvel átt að setja ákvæði um þetta inn í I.

Þá er önnur brtt. n. sú, að aftan við síðustu málsgr. 2. gr. bætist: „Enn fremur er dómsmálaráðherra heimilt að ákveða hámarksgjald fyrir bifreiðakennslu.“

Í þessari sömu gr. frv., 2. gr., er gert ráð fyrir því, að ekki kenni aðrir bifreiðaakstur heldur en þeir, sem fá löggildingu hjá dómsmrn. Þar sem gera má ráð fyrir, að eitthvað fækki mönnum í faginu við þessa ráðstöfun, þá taldi allshn. rétt, að sett yrðu ákvæði um hámarksgjald fyrir bifreiðaaksturskennslu. — Ég vildi í þessu sambandi einnig spyrja hæstv. dómsmrh., hvort hann mundi ekki einnig nota þá heimild, því að ef hann teldi sig ekki geta notað hana, teldi ég, að setja bæri inn í 1. ákvæði um reglur fyrir hámarkstaxta fyrir bifreiðaaksturskennslu.

Það er orðið svo um okkar umferðamál, að þau eru að verða eitt okkar mesta vandamál. Sjóslysin hafa fram að þessu tekið hæstan skatt af landsmönnum á ári hverju. En umferðin hér er einnig farin að taka mjög háan skatt, og það svo, að síðustu árin munu hafa farizt hér um 20 manns á hverju ári í bifreiðaslysum. Umferðarmálin eru þess vegna orðin einhver okkar mestu vandamál samhliða öryggismálum á sjó, og það þarf að taka þau nokkuð föstum tökum. Bæði þarf að vinna að því að kenna mönnum umferðarreglur, svo sem nú er farið nokkuð að gera með kennslu Slysavarnafélagsins. og enn fremur þarf að hafa strangari gætur á því, að umferðarreglur séu haldnar. Það má segja, að einn þáttur í því að koma umferðarmálum okkar í lag sé að koma umferðarkennslu í betra horf heldur en verið hefur hingað til. Og ég vænti þess, að frv. það, sem hér liggur fyrir, stefni að því leyti í nokkuð rétta átt. En einn bezti grundvöllur þess að vita, hvað gera þarf í sambandi við umferðarmálin til þess að gera umferðina öruggari, er, að jafnan liggi fyrir skýrslur um umferðarslys, á hvaða stöðum þau verða og af hvaða orsökum þau verða. Fyrir síðasta stríð var sá siður uppi að halda nákvæma skrá um umferðarslys, sem gerð mun hafa verið á skrifstofu sakadómara. Þessi siður lagðist niður í ófriðnum, en var tekinn upp aftur að ófriðnum loknum. Og ég hafði, meðan ég var dómsmrh., látið semja nákvæma skýrslu um umferðarslys, bæði um það, hvar þau hefðu orðið og af hvaða orsökum, eftir því sem frekast varð upplýst. Síðan þessar skýrslur voru gerðar, eru nú liðin tvö ár, og ég hef á þeim tíma ekki séð neinar skýrslur frá dómsmrn. um þetta. — Vildi ég spyrjast fyrir hjá hæstv. dómsmrh. um það, hvort ekki muni verða hafinn undirbúningur að því, að slíkri skýrslugerð verði haldið áfram, því að ég tel hana mjög nauðsynlega og rétt að minnast á hana einmitt í sambandi við þetta mál.

Frá hv. þm. A-Húnv. liggur fyrir brtt. við þetta frv. á þskj. 546, um að láta aldurstakmark þeirra, sem mega fá bifreiðaaksturskennslu, miðast við 17 ára aldur í stað 17 ára og 9 mánaða, sem í frv. er gert ráð fyrir. — Ég get eftir atvikum mælt með því fyrir hönd allshn., að þessi brtt. nái samþykki, eftir að hafa borið mig saman við formann bifreiðaeftirlitsmannafélagsins hér á landi.

Ég mun svo láta máli mínu lokið, en vil aðeins láta það fylgja, að ég tel, að mjög nauðsynlegt væri fyrir umferðarmálin, að jafnhliða því, að kennslu bifreiðaaksturs væri komið í betra horf, eins og þetta frv. stefnir að, þá yrði einnig lögð áherzla á það að mennta bifreiðaeftirlitsmenn sem allra bezt í sinni grein. — Fyrir eitthvað þremur árum síðan, að ég hygg, gafst okkur kostur á því að hafa nokkra lögregluþjóna í lögregluþjónsstarfi í Svíþjóð, og hygg ég, að það hafi gefizt vel. Ef svo færi. að okkur gæfist kostur á að hafa nokkra bifreiðaeftirlitsmenn, t.d. í mannaskiptum, sem vel gæti komið til mála, í einhverju hinna Norðurlandanna, þar sem umferðarmenningin er á háu stigi, mundi það geta bætt aðstöðu okkar bifreiðaeftirlitsmanna til þess að sinna sínum starfa. Og væri vel, ef hæstv. dómsmrh. vildi hafa þetta í huga.

Einn nm. í allshn., hv. 7. þm. Reykv. (JóhH), var fjarverandi, þegar málið var afgreitt í n., eins og líka er tekið fram í nál. Veit ég því ekki um afstöðu hans.