23.03.1948
Sameinað þing: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

129. mál, fjárlög 1948

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Heiðruðu hlustendur. Ég sagði í gær í ræðu minni, að svarið hjá ráðh. við öllu, sem ég spurði um, mundi verða: Moskva — Moskva. Það hefur líka rætzt. En þótt þeir tali um utanríkispólitík og sjálfstæði Íslands, þá hafa þeir ekki látið svo litið að svara þeim ádeilum, sem ég kom með út af framkvæmd Keflavíkursamningsins, né spurningunni um það, hvort Ísland ætti að taka þátt í Marshallhjálpinni. Hins vegar hafa þeir reynt að svara ádeilum út af innanlandsmálum.

Þá er það vísitalan. Má ég spyrja, hvað vísitalan er nú. Af hverju bannar ríkisstj. að birta hana? Hún hefur alltaf verið birt 15. hvers mánaðar, — nú er kominn 23. Af hverju fær kauplagsnefnd ekki að birta hana? Það er af því, að vísitalan er raunverulega 329 stig í þessum mánuði. þegar smjörið er reiknað með. Það hefur ekki fengizt, þess vegna er rangt að reikna það með. En ríkisstj. þorir ekki að láta frá tölu koma í ljós fyrir eldhúsumræðurnar, en er að reyna að finna einhverjar krókaleiðir til að falsa hana.

Þá kom hæstv. samgmrh. að því að tala um lánsfjárkreppuna og sagði að við sósíalistar vildum auka seðlaútgáfuna. Þetta eru ósannindi. Við höfum farið fram á, að hún væri ekki minnkuð, en hún hefur verið minnkuð úr 181 millj. kr. niður í 122 millj. Þannig er farið að því að skapa lánsfjárkreppu, og það hefur hæstv. ríkisstj. gert, og hæstv. samgmrh. hefur aukið hana með því að gefa ávísun á 8 millj. kr. úr stofnlánadeildinni handa ríkustu togaraeigendum Reykjavíkur, en lætur þá fátæku sitja á hakanum. Hann þagði um þessa aðgerð sína.

Ég talaði um hráefnaskortinn handa iðnaðinum. Hæstv. samgmrh. svaraði með því að segja, að fjárhagsráð hefði safnað skýrslum. Ég spyr iðnrekendur: Hvernig hefur þeim gengið að halda iðnaðinum gangandi með því að láta hann vinna úr skýrslunum?

Emil Jónsson féll í stafi yfir því, að ég væri að hrósa einstaklingsframtakinu. Einstaklingsframtakið er mjög gallað. En einokun sinnulausra afturhaldsseggja er enn verri, en það er það ástand, sem hæstv. samgmrh. hefur skapað, svona illa hefur þá fyrsta ríkisstj. Alþfl. á Íslandi getað stjórnað.

Aumleg var útúrsnúningstilraun hæstv. forsrh. og hæstv. samgmrh. úr ræðu minni í gær. Þeir fundu þar ógnun — má ég spyrja, frá hverjum til hverra? Ég þekki stríð betur en hæstv. samgmrh. og hæstv. forsrh., og ég vil ekki. að stríð sé haft í þeim flimtingum, sem Ameríkuagentarnir á Íslandi nú hafa það. Það er of ægilegur og alvarlegur hlutur til þess, og það reyndi ég að gera þjóð minni ljóst. Ekkert var þar fjær en ógnun. En ógnanir og hótanir eru vopn þessarar ríkisstj., sem nú ofsækir alla, sem ekki aðhyllast hennar skoðun. — En hvað hefur hæstv. ríkisstj. hins vegar verið að fara í þessum umr. um alþjóðamálin? Mér skilst hún helzt hafa boðað samninga Íslands við England og Beneluxlöndin, inngöngu í hernaðarlega Vesturblökk. Er það vegna slíkra fyrirætlana, að henni er illa við, að þjóðinni sé sagður sannleikurinn um hve mikið liggi við, að við leggjumst allir á eitt um að bjarga þjóðinni úr eldi ófriðar, en ekki að kveikja eld hér? — Hæstv. forsrh. og atvmrh. töluðu báðir um það, að það væri gersamlega óhugsandi, að Bandaríkin væru að hugsa um árásarstríð. Hverjir eru það, sem hafa ógnað heiminum með atómbombunni nú? Eru það ekki auðmenn Ameríku? Annars get ég ekki rakið ágang þess stórveldis gagnvart oss eða öðrum smáþjóðum á þessum fáu mínútum, en ég vísa þeim, sem kynna vilja sér þá sögu, til greinar, sem ég hef skrifað í tímaritið Rétt nú nýlega um Ísland og Ameríku. Hverjir voru það, sem heimtuðu 1. okt. 1945 að fá þrjá staði af Íslandi — Reykjavík, Hvalfjörð og Keflavík — til 99 ára, afhenta sér sem herstöðvar? Það voru Bandaríkin. Til hvers átti að nota þær herstöðvar. Til hvers á að nota Keflavík, Hvalfjörð og Reykjavík nú? Til að ná sterkum tökum á okkur. Ég hef vakið eftirtekt á þeirri hættu, sem hér er leidd yfir okkur. Ég skal ekkert segja um, hvaðan atómbombur koma. Ég álít þær jafnægilegar, hvort þær væru amerískar eða rússneskar. Það, sem gildir, er að hindra, að Ísland dragist inn í átök þessara hervelda. En þessi hæstv. ríkisstj. er einmitt að draga þjóðina inn í þau átök, þvert ofan í loforð þessara flokka fyrir síðustu kosningar, og því mun þjóðin ekki gleyma. Hún fyrirgefur þeim ekki, því að þeir vita, hvað þeir gera.

Ég undrast þrek hæstv. forsrh., þegar hann talar um sukk og óreiðu í sambandi við meðferð á fé og eignum. Vill hann ekki athuga um sumar þær stofnanir, sem heyra undir hann sem félmrh., og upplýsa Alþ. og þjóðina um t.d. þjófnaði úr sjóðum, sem þar hefur brugðið fyrir? Eða vill hann ekki segja, með hve heiðarlegu móti honum og flokki hans tókst að klófesta húseignir verkalýðsfélaganna í Rvík? Ég undrast það, að hæstv. forsrh. skuli minnast á sögu nokkurs manns í íslenzkum verkalýðsmálum, því að fáir eiga þar ljótari sögu en hann. Hitt skil ég vel, að hann reyni eftir mætti að rægja þá menn, sem alltaf hafa reynzt trúir hagsmunum verkalýðsins.

Launakúgunarl. 1939 voru fyrsta afrek Stefáns Jóh. Stefánssonar eftir að hann komst í ríkisstj. Þegar þau þrælal. féllu úr gildi, fullvissaði Sfefán Jóh. Stefánsson afturhaldið um það í nóv. 1941, að það væri engin hætta á kauphækkunum. Síðan barðist Stefán Jóhann gegn öllum kauphækkunum, sem verkalýðurinn hefur komið fram, — þeim mestu, sem íslenzk alþýða hefur áunnið sér. — Þegar nýsköpunarstj. var mynduð 1944, til þess að framkvæma stærstu endurbætur í íslenzkum félagsmálum og íslenzku atvinnulífi, þá barðist hæstv. forsrh. á móti þeirri stjórnarmyndun eins og hann gat. Og þegar hann nú loks hefur tekið við af henni, þá er aðalstarf hans að rifa niður stórvægilegustu endurbætur nýsköpunarstj. og setja nýja þrælalöggjöf gegn verkalýðnum. Ég skal ekki segja sögu ráðh. nánar, en ekki mun saga Íslands heldur gleyma því, að hans fyrsta verk eftir að Alþfl. hafði samþ. að berjast fyrir lýðveldisstofnun á Íslandi með samþykkt stefnuskrár sinnar 1938, var, að hann, eftir að Stauning hafði talað við hann, afneitaði því í ágúst 1939, að Alþfl. væri ákveðinn með lýðveldisstofnun. Afstaða hans síðar er kunnari en frá þurfi að segja.

Hæstv. forsrh. talaði fagurlega um lýðræði hér í gær sem oftar. En hvernig eru verkin? Þegar þessi hæstv. ráðh. réð í íslenzkum alþýðusamtökum, kom hann þar á einræði Alþfl., bannaði öllum flokkum í alþýðustétt starfsemi og lét svipta þá kosningarrétti. Íslenzk alþýða varð að heyja harða og langa baráttu til þess að hnekkja einræði þessa hæstv. ráðh. og koma á lýðræði. Og ettir að alþýðan vann sigur og endurheimti lýðræðið, þá hófst hin árangursríkasta sókn, sem verkalýður Íslands hefur háð fyrir betri kjörum, og alla þá baráttu varð að heyja gegn þessum hæstv. forsrh. Þessi hæstv. ráðh. hefur aftur sýnt afstöðu sína til lýðræðisins í verki. Einn sinni var lýðræði drottnandi í Byggingarfélagi alþýðu í Reykjavík. Meiri hlutinn kaus Héðin Valdimarsson sem formann. Það þoldi Stefán Jóhann ekki, en hann var þá félmrh. þjóðstjórnarinnar. Hann gaf út brbl. um að afnema lýðræði í byggingarfélögum alþýðu. Þessi hæstv. ráðh. hefur sýnt ást sína á lýðræðinu í því að afnema það, þegar hann hefur getað. þjóðin kallar það ekki lýðræði, heldur gerræði.

Mér sýnist allir ráðh. einbeita sér að einu: reyna að skapa hér hatursbál, reyna að sundra þjóðinni, þegar henni ríður mest á að standa sameinuð. Baráttan gegn kommúnismanum, sem er eina sameiginlega stefnuskrá þessarar ríkisstj., eins og Hitlers forðum, er aðeins hjúpur fyrir baráttu gegn lífskjörum og mannréttindum íslenzkrar alþýðu og frelsi íslenzku þjóðarinnar. Ameríska auðvaldið skipuleggur þessa baráttu og blandar sér einnig í innanlandsmál vor Íslendinga til þess að sundra þjóð vorri og stela landi voru. Mér sýnist stjórnvizka þeirra manna, sem nú reka erindi ameríska auðvaldsins, vera sams konar stjórnvizka og Kristjáns skrifara forðum. Og framkvæmd þeirrar stjórnvizku, þar sem ameríska auðvaldið hefur getað farið sínu fram gagnvart sósíalistum, svo sem í Grikklandi, sýnir, að kjörorð afturhaldsins gegn sósíalistum er þetta: „Öxin og jörðin geyma þá bezt.“ Stjórnarliðið er undarlega þögult um ástandið, sem skapað er í þeirri amerísku paradís. — Ég hef reynt af veikum mætti að vara þjóð mína við að láta hatursbálið, sem afturhaldið nú kveikir, vaxa. Ég get ekki meir en varað. Valdið er þjóðarinnar sjálfrar. Íslenzk alþýða á nú í harðri baráttu. Sú barátta er ekki aðeins háð gegn þeirri árás, sem þessi ríkisstj. nú hefur gert á launakjör og samningsrétt verkalýðsins. Barátta íslenzkrar alþýðu fyrir hagsmunum sínum er um leið barátta gegn ágengni erlends auðvalds og íslenzkrar leppstjórnar þess gagnvart íslenzkum I. og rétti, gagnvart yfirráðum íslenzku þjóðarinnar yfir landi sínu. Sigur íslenzkrar alþýðu og þar með sigur íslenzku þjóðarinnar í þessari baráttu er öruggur, ef hún aðeins stendur sameinuð. Ég vonast til, að það takist, áður en þessi ríkisstj. hefur steypt þjóðinni í þau vandræði, sem ég reyndi að lýsa í gær, að skapa slíka sameiningu. Ég hef lagt áherzlu á það oftar en einn sinni, að það verði nauðsynlegt að sameina alla íslenzka krafta til þess að koma í veg fyrir slíka sundrung, og ég treysti á, að þjóðin geri það. Góða nótt.