09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það hafa farið fram nokkrar umr. síðan n. lagði fram brtt. sínar, og líka hafa komið fram tvær brtt., á þskj. 672 og 678. Ég skal fara nokkrum orðum um till. sjálfar og aths. þær við frv., sem fram hafa komið.

Fyrst vil ég snúa mér að hv. 3. landsk. og gagnrýni hans á till. n. og frv. eins og það er nú. Hann taldi m.a. fyrstu brtt. á þskj. 670 varhugaverða og vildi leggja til að skylda lögskráningarstjóra, en ekki útgerðarmann. Það væri hægt varðandi það, hvenær skráð er á skipið, en ekki hvenær það skiptir um veiðiaðferð, veiðisvæði eða hættir veiðum, það þarf ekki að afskrá skipshöfnina fyrir því. Það minnsta, sem hægt er að krefjast af útgerðarmanni, er það, að hann tilkynni, hvenær hann byrjar veiði og hættir og hvenær hann breytir um veiðiaðferð. Ég tel þessa breyt. ekki til bóta og vona, að hann fallist á það. Hann sagðist vera sammála annarri brtt., og er því ekki tilefni til að athuga hana frekar, en við fjórðu brtt. hafði hann ýmislegt að athuga, sérstaklega að ekki væri tekið þar upp ákvæðið um aflaverðmæti. Hann hnýtti við þetta ádeilu á frv., sagði að það væri hálfgerður „bæklingur“ eða væri orðið bæklað, en ég vil benda á, að ég boðaði hv. 3. landsk. á þennan fund og bauð honum að vera með að laga það, sem þyrfti, eftir að frv. var gengið til 3. umr. Ég gerði þetta af því, að ég vissi, að hann hafði verið með í að semja frv., og mér þótti ekki ólíklegt, að hann vildi sjá það fara óbæklað út úr d., en hann hafði ekki það mikinn áhuga, að hann vildi koma. Mér finnst honum því sízt farast. Það er ekki „pósitívt“ að koma bara með gagnrýni, en vilja ekki taka þátt í tilraunum til bóta. — Eins og 9. gr. var, rakst eitt á annars horn, en samræmi er í því að bæta upp aflamagn eftir prósenttölu, og er gert ráð fyrir því í till. n., að 45% eða minna af meðalaflamagni eigi að bæta. — Þá hef ég á þskj. 671 flutt brtt. við 9. gr. þess efnis, að ef hægt er að sýna með tölum, að aflaverðmæti hlutar er svo hátt, að það er hærra, en verðmæti annarra hluta, sem ekki eru bótaskyldir, þá á ekki að fara lengra. Um þetta er ekkert í frv. nú, og ef þessi till. verður felld, verður að setja um þetta reglugerð. Það bannar frv. ekki. Það verður að taka tillit til þess, eins og hv. 3. landsk. benti á, að eitt skip getur veitt 20 tonn af kola og annað 20 tonn af steinbít, en ég er ekki sammála hv. 3. landsk. og hv. 6. landsk. um það, að fara eigi eftir aflaverðmæti. Segjum, að tvö skip fari á síldveiðar og annað skuldbindi sig til að veiða í salt, en hitt í bræðslu. Það, sem veiðir í salt, fær minna aflamagn, því að það skuldbindur sig til að koma með síldina söltunarhæfa, en hitt ekki. Eða tökum tvö skip. Annað leggur upp hjá ríkisverksmiðjunum og tekur þann kost að láta vinna úr síldinni, hitt selur síldina föstu verði. Það getur orðið mismunur á verðmæti, og ég tel það varhugavert að slá föstu um aflaverðmæti. Hugsum okkur tvo togara eða skip, sem sigla út með afla sinn, og segjum, að þau fari með 150 tonn hvort. Annað selur kannske fyrir 8 þús. pund, en hitt fyrir 12 þús. pund. Ég held, að það verði erfitt að skýrgreina þetta nánar í l. og bezt sé að samþ. mína till. sem varnagla, svo að ekki verði greitt hærra verð fyrir neinn hlut, en verðmæti þess hlutar, er ekki er bættur í næsta flokki. Það verður óánægja, ef hlutur, er bættur er upp í einum flokki, verður hærri að krónutölu en hinir, sem ekki ná rétti til bóta. Ég skal svo ekki ræða þetta nánar. — Hv. þm. sagði, að fimmta till. væri til bóta, en var á móti því, að í l. væru ákvæði um tvær reglugerðir. Í 4. gr. er ekki um að ræða hina almennu reglugerð, heldur það, hvernig ákveða eigi veiðimagn, skiptingu veiðiskipa í flokka og bótatímabil. (HV: Það er um tvær reglugerðir að ræða.) Þó að þær væru 100, væri það rétt, ef það getur hjálpað málinu áfram. Ég vildi biðja hv. þm. að athuga, hvort 14. gr. getur staðíð óbreytt. Það getur hún ekki, því að það er búið að taka upp, m.a. í 4. gr., ákvæði 14. gr.

Ég skil afstöðu hv. þm. til frv. Hann vill ekki að það nái fram að ganga, af því að það er ekki í því formi, sem hann vildi. Það hefur ekki vakað fyrir okkur í sjútvn., allir hafa viljað það bezta. Þó að skoðanir væru mismunandi, hefur verið samkomulag um að gera frv. þannig úr garði, að það væri ekki „vesalingur“ eða afskræmi, er það færi út úr þessari hv. d. Meiri hl. Alþ. eða d. ræður svo, hvernig málið verður afgr.

Þá er brtt. á þskj. 672. Till. er um það að fella burt 2. tölul. 8. gr. frv., en þar stendur, að tekjur sjóðsins skuli m.a. vera: „1/2% innflutningsgjald af verðmæti allra innfluttra vara, hverju nafni sem nefnast. Skal gjald þetta reiknast af verði vörunnar á sama hátt og annað vörugjald og greiðist af innflytjendum vörunnar, og má ekki bæta því við söluverð hennar.“ Ég varð undrandi, er þessi brtt. kom fram, af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi hafði hv. þm. N–Þ. tjáð mér, að hann ætlaði ekki að bera fram brtt., og í öðru lagi sagði hv. 1. þm. Reykv., að hann væri ekki með neina brtt. En nú hafa þeir „rottað“ sig saman um till., sem er til tjóns fyrir málið. (BÓ: Þurfum við að biðja hv. þm. Barð. um leyfi?) Nei, þeir þurftu ekki að biðja mig um leyfi, en ég hafði haldið, að þeir gætu staðið, lengur en sólarhring, við orð sín. Hv. 1. þm. Reykv. hefði líka átt að sjá sóma sinn í því að koma á fund til þess að ræða málið eða biðja um leyfi til að vera fjarverandi, en hann sýndi ekki þann áhuga að koma og ræða málið, kannske vil] hann spilla fyrir málinu og till. borin fram til þess. Ef miðað er við fyrirmæli frv., eins og það er nú á þskj. 664, og verðmæti útflutnings og innflutnings 1947, yrðu tekjur sjóðsins 1.060.500.00 kr. af útflutningsgjaldinu og 2.151.500.00 kr. af innflutningsgjaldinu. Samanlagt yrðu því tekjur hlutatryggingasjóðs af þessu 3.212.000.00 kr. Nú er lagt til í þriðju till. á þskj. 670, að ef þessar tekjur samkv. 1. og 2. tölul. nái ekki 4 millj. kr., þá leggi ríkissjóður til það fé, sem vantar á 4 millj. Í þessu tilfelli þyrfti ríkið því að leggja fram 788.000.00 kr. Á þennan hátt fengi sjóðurinn 4 millj. kr. Ef till. á þskj. 672 yrði felld, mundu fjórir af fimm sjútvnm. vilja samþ. þriðju till. n. og tryggja þar með sjóðnum 4 millj. kr. En ef till. á þskj. 672 verður samþ., verða tekjur sjóðsins 1.060.500.00 kr. af útflutningsgjaldinu og jafnt framlag úr ríkissjóði eða alls 2.121.000.00 kr. Það getur verið, að þessir hv. þm. álíti, að það þurfi ekki meira, en þeir hafa þá ekki kynnt sér málið. (HV: Það þarf miklu meira.) Já, það þarf miklu meira. Ríkissjóður yrði þá að leggja fram 1.879.000.00 kr. til viðbótar, svo að tekjur sjóðsins yrðu 4 millj. kr., og væri þá framlag ríkissjóðs komið upp í 2.939.500.00 kr. til þess að tryggja sjóðnum 4 millj. kr. tekjur. Hverjir eiga að greiða þetta gjald? Það verður að leggja það á einhverja. Flm. vilja ekki nýtt vörugjald, eins og við viljum, annars mætti ræða það, hvort ríkissjóður megnar að greiða þetta eða þjóðin öll. Ef á að leggja á tekju- og eignarskatt til viðbótar, þarf að koma með till. um það, en það hafa ekki komið fram neinar till. í þá átt. Hv. flm. ætlast til, að þetta sé tekið úr ríkissjóði, en allt er í óvissu um það, hvort ríkissjóður megnar að greiða þetta framlag, og þess vegna engin trygging fyrir því, að sjóðurinn fái féð. Þá er hitt atriðið. Er þetta ranglátt gjald? Er það ranglátt, að þessi stétt greiði þetta, því að því er haldið fram, að þetta sé lagt á eina stétt? Ég verð að segja, að í sambandi við innflutning kaupfélaganna og S.Í.S. er þetta lagt á alla, sem verzla við þau. Þegar söluskatturinn var lagður á, var því haldið fram, að hann væri lagður á allan almenning, og það var meira að segja reiknað út, að hann næmi 400 eða 500 kr. á hvert heimill. Það vörugjald, sem lagt er á kaupfélögin og S.Í.S., er því ekki lagt á eina stétt. Svo eru hinir, sem gjaldið er lagt á, heildsalarnir, og það má segja, að þar sé gjaldið lagt á eina stétt. En ég vil spyrja, er það ósanngjarnt, þegar barátta stendur um að fá gjaldeyri, sem er mjög ranglega skráður, eins og hv. 1. þm. Reykv. hefur oft talað um? (BÓ: Það kemur ekki þessu máli við.) Jú, því að ef þessu væri breytt, þyrftu sjómenn ekki að biðja um hjálp. Öngþveitið stafar af því, að gengið er ranglega skráð. Það er réttlátasti skattur, sem til er, að lagður sé á innflutninginn léttur skattur eins og þessi. Og það er smásálarlegt af mönnum, sem flytja inn fyrir milljónir, að kvarta og kveina, er verja á örlitlum hluta af gróða þeirra til sjómanna, sem leggja líf sitt í hættu til þess að afla gjaldeyrisins fyrir þá. Hverjir standa betur að vígi en þessi stétt, er búið er að sjúga merg og blóð úr útveginum? Ef flett er í blaði hv. þm. N-Þ., Tímanum, hvað sér maður þá? Jú, hér stendur: „Kaupfélag Siglfirðinga bætir hag sinn verulega. Hefur greitt félagsmönnum sínum tugi þúsunda í arð þrátt fyrir lækkaða álagningu og mikinn vöruskort.“ Hvað skyldu bátaútvegsmenn hafa sagt, ef þeir hefðu fengið tugi þúsunda í arð? Nei, sannleikurinn er sá, að það er innflutningsverzlunin, sem fleytir rjómann af öllu saman. Og svo er verið með þessa kveinstafi yfir því að gefa 1/2% fyrir að mega halda áfram að fleyta rjómann. Það er ekki að furða, þó að menn taki höndum saman við þá, sem nota öll tækifæri til þess að koma sér undan skatti í landinu. (BÓ: Hverjir eru það?) Samvinnufélögin. (HV: Ekki heildsalarnir. Hv. 1. þm. Reykv. vildi fá syndakvittun.) Það þarf brjóstheilindi til þess að koma með slíka till. og ætlast til, að hún verði samþ. Ég öfunda ekki þá, sem samþ. hana hér með nafnakalli. Það er nú komið svo, að því að mér er sagt, að þó nokkur hluti bátanna, sem flytur út fisk, neyðist til að skila ekki gjaldeyrinum, og útgerðarmenn hafa sagt við bankann, að hann geti gert hvað sem hann vilji. Þannig er ástandið í dag. Svo koma þessir menn og segja: „Fyrst er að tryggja okkar rétt og ekki greiða 1/2% innflutningsgjald.“

Út af brtt. hv. 6. landsk., þar sem hann tekur upp sína till., að 10% af árlegum nettóhagnaði Landsbankans og Útvegsbankans renni til sjóðsins, verð ég að segja það sama og áður. Ég tel ekki hægt að breyta með þessum l. bankal., þar sem tryggt er skattfrelsi. En ég er sammála till. og tel, að það væri rétt, að bankarnir legðu fram þessi 10%. (SÁÓ: Hér féllust Heródes og Pílatus í faðma.) Það kemur ekki við mig, ég er ekki svo flokksbundinn, að ég láti kúga mig móti sannfæringu minni eins og þessi hv. þm. hefur oft gert. Ég læt ekki fyrirskipa mér. — Ég teldi það bönkunum í hag að gera þetta. Hver er ekki áhætta bankanna, ef allt fellur í kaldakol hjá útgerðinni, og hvað græða bankarnir ekki, ef hægt er að halda henni í stöðugum rekstri með þessu? Nýlega sagði mér bankamaður, að fluttur hefði verið inn hlutur og að bankakostnaðurinn hefði verið eins mikill og flutningskostnaðurinn frá Ameríku til Reykjavíkur. Hversu miklu betra væri það ekki fyrir bankana, ef tryggt væri, að ekki þyrfti að stöðva þennan rekstur eða krefjast persónulegra ábyrgða af mönnum, svo að ekki yrði gert fjárnám í eignum þeirra? Sannleikurinn er sá, að það er misskilningur, að hér sé verið að tryggja útgerðina eina. Það er verið að tryggja afkomu landsins og þar með líka bankana. Því er haldið fram, að þeir, sem tryggðir eru, eigi að bera kostnaðinn, og þá ættu bankarnir líka að gera það. Þetta er hins vegar ekki hægt nema með breyt. á bankal., og þess vegna mun ég greiða atkv. á móti þessari till.

Ég vil að síðustu benda hæstv. forseta á, að ég neyðist til að bera fram skriflega brtt., af því að deilt er um, hvernig skilja beri 1. tölul. 8. gr., svo lengi sem ábyrgðarverðið varir. Eins og nú er hljóðar gr. þannig: „1/2% útflutningsgjald af öllum útfluttum sjávarafurðum, öðrum en þeim, sem koma frá botnvörpuskipum, hvalveiðum og selveiðum. Skal gjald þetta reiknað á sama hátt og annað útflutningsgjald af sömu vöru“. Í dag ber ríkissjóður ábyrgð á 65 aura verði og 1.33 kr. til þeirra, sem frysta. Hver greiðir þetta gjald nú? Um það segir frv. ekkert. En það hefur komið áður fram í umræðum, að þeir, sem veiði fiskinn, eigi að greiða gjaldið, og komi það þá endanlega fram í fiskverðinu. Ég vil því leyfa mér að flytja um þetta brtt., svo hljóðandi:

„Á meðan ríkissjóður greiðir lögboðið ábyrgðarverð fyrir sjávarafurðir, skal útflutningsgjaldið, sem um ræðir í þessari gr., dregið frá ábyrgðarverðinu.“

Ég leyfi mér að leggja fram þessa brtt. fyrir hæstv. forseta. Mun ég svo ekki tefja umræður, nema sérstakt tilefni gefist.