09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég held nú, að þessar umræður séu orðnar óþarflega langar. Ég ætla því ekki að blanda mér inn í pex um einstök atriði. Það liggja ekki fyrir nema tvær aðrar brtt. en þær, sem sjútvn. flytur. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. séu ljós efnislega brtt. á þskj. 678. Hún er samhljóða annarri till., sem hér var felld. En um brtt. á þskj. 672 má segja, að ekki sé úr því skorið, hvort d. vil] fara inn á að ætla ríkissjóði að leggja á móti að jöfnu við þetta 1/2%. Tekjur sjóðsins yrði þá nokkuð litlar, svo að hætt er við, að hann kæmi ekki að fullu gagni. Og þessar tekjur má ekki gera svo litlar. Það gefur auga leið, að sjóðurinn getur ekki með því móti rækt sitt hlutverk. Ég er því andvígur þessari brtt. Um aðrar brtt. er ekki að ræða nema á þskj. 670, sem á að samþykkja, þar sem þar er um að ræða nauðsynlegar breytingar á frv., sem sjútvn. er sammála um.

Það, sem kom mér því aðallega til að standa nú upp, voru ummæli hv. 6. landsk. Rökin hjá honum voru þetta gamla: Hvítt er svart, og svart er hvítt! — og endurtekningar á ósannindum hans við 2. umr. Hann virðist ekki vera kominn hér til að sannfærast, heldur til þess að endurtaka sömu lygina nógu oft, ef einhver skyldi þá loks fara að trúa henni. Hann hefur ekki hrakið með neinum rökum, að fyrstu samningarnir um hlutatryggingar voru gerðir við atvinnurekendur árið 1936. Hann taldi, að það hefði ekki markað nein spor, þar sem samið hefði verið við einstaklinga. Var þá ekki 6. febr. samið við alla atvinnurekendur í Rvík og í Hafnarfirði? Jú, og það er ábyggilegt, að Sjómannafélagi Norðurlands datt ekki neitt slíkt í hug þá. Það var ekki fyrr en 25. maí, sem Sjómannafélag Norðurlands gaf út sinn taxta, og hann var ekki viðurkenndur fyrr en 15. og 17. júní og aldrei gerðir neinir samningar. En Sjómannafélag Hafnarfjarðar samdi 14. og 18. júní. Þetta eru staðreyndirnar í þessu máli, hvernig sem hv. þm. reynir svo að umsnúa þeim.