13.05.1949
Neðri deild: 108. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

1. mál, togarakaup ríkisins

Einar Olgeirsson:

Ég flyt hér eina brtt. við þetta mál, á þskj. 690. Málið er búið að vera lengi hjá okkur í n., þó að þetta sé stjfrv., og er það sökum þess, að ríkisstj. mun þennan tíma hafa verið að semja við Breta um lán til þess að greiða togarana með, þ.e. að tryggja að geta fengið lengra lán en venjulegt útflutningslán til greiðslu á þessum 10 togurum, og þess vegna hefur þetta mál dregizt svona lengi í n., eða næstum 7 mánuði.

Þær brtt., sem ég flyt, ganga út á tvennt. Í fyrsta lagi, að í stað þess að heimila ríkisstj. að kaupa allt að 10 togurum legg ég til, að þessi heimild sé hækkuð upp í að kaupa allt að 20 togara. Ástæðan til þess, að ég geri það, er sú, að ég álít nauðsynlegt að reyna að fá þetta marga togara til viðbótar við núverandi flota okkar, og er þetta ekki ný skoðun hjá mér. 1945, þegar þau lög, sem þetta frv. á nú að skapa viðauka við, voru til umræðu í Nd., lagði 6. þm. Reykv. (SigfS) til, að í stað þeirra 30 togara, sem þá var heimilað að kaupa, skyldi lagt til að kaupa allt að 50 togurum. En þá voru engir nema þm. Sósfl., sem vildu fylgja þessari till., svo að hún var felld þá. Það var slæmt, bæði vegna þess, að hefðum við samþ. 1945 að kaupa þá 20 togara til viðbótar við þá 30, sem keyptir voru í ágúst 1945, voru í fyrsta lagi nógir peningar til þess að kaupa þá togara erlendis, og auk þess hefðum við að öllum líkindum fengið þá á þessu ári, þannig að flotinn hefði þá verið kominn upp í 50 nýsköpunartogara í lok þessa árs. - Ég endurtók till. um þetta, þegar þessi ríkisstj. tók við völdum, en hún var líka felld. Nú hefur hæstv. ríkisstj. lagt til, að henni verði gefin heimild til að bæta við 10 togurum, sem er út af fyrir sig gott, þó að betra hefði verið, að það hefði verið ákveðið fyrr, bæði vegna þess, að togararnir hefðu í fyrsta lagi verið ódýrari á þeim tíma, og í öðru lagi sökum hins, að hefðu togararnir verið keyptir fyrr, hefðu þeir verið komnir fyrr og þess vegna verið í gangi hjá okkur lengur og getað fært þjóðinni björg í bú. Þess vegna er það illa farið, að við skulum ekki hafa tekið þessa ákvörðun fyrr, að bæta þarna meiru við togaraflota okkar. Nú álit ég hins vegar, að jafnvel þótt erfitt kunni að verða með fjárhaginn og annað slíkt, geti það engu spillt, þótt ríkisstj. hafi heimild til þess að kaupa þessa togara. Ég get ekki séð, að þótt þarna standi „allt að 20 togara“, geti það verið að neinu leyti til hins lakara. Ríkisstj. hefur keypt 10, og þetta væri aðeins viljayfirlýsing um það frá Alþ., ef ríkisstj. gæti útvegað lán til slíks, að henni væri þá heimilt að kaupa meira. Ég held þess vegna, að hv. d. ætti að sýna áhuga sinn fyrir þessu máli, þó að hún hafi áður fellt svona till., og gefa ríkisstj. þessa heimild, jafnvel þótt erfitt kunni að verða í svipinn að nota hana. Nú er það svo, að þeir 10 nýju togarar, sem hér um ræðir, þegar þeir hefðu verið keyptir til viðbótar, mundu koma 1950–51, og væru þá alltaf úrræði með að selja það, sem eftir er af okkar gömlu — líklega 15 — togurum. Og ef þeir yrðu seldir, væri togaraflotinn, þegar þessir 10 kæmu til viðbótar, ekki nema 35–36 togarar. Ég held þess vegna, að það væri nauðsynlegt, að heimild væri fyrir hendi til að fylla upp í skarðið. Áformum við nú að selja þessa 15 gömlu togara og gerum ekki fleiri ráðstafanir og bíðum með að gefa slíka heimild, stöndum við uppi með færri togara að tölunni til árin 1950-51. Ég vil þess vegna leggja mikla áherzlu á, að d. geti gengið inn á að samþ. þessa till. mína. — Í samræmi við það að auka heimildina úr 10 togurum upp í 20 að því er töluna snertir, legg ég til, að gefin sé heimild til hækkunar að því er láníð snertir úr 30 millj. upp í 60 millj.

En svo kemur þriðji liður brtt. minnar, þar sem ég legg til, að ríkisstj. skuli gefa bæjar- og sveitarfélögum þeim, sem þessa togara vilja kaupa, forgangsrétt að því að kaupa þá ef þau vilja kaupa þá til síns rekstrar, og heimilist ríkisstj. að lána þessum bæjar- og sveitarfélögum 85% af andvirði togaranna og nota til þess það lán, sem ríkisstj. í þessum lögum heimilast að taka, skuli lánið greiðast með jöfnum afborgunum á 15 árum og vextir vera hinir sömu og ríkisstj. greiðir. Ég vil vekja athygli á því, að þessi till. mín kemur jafnt til greina, hvort sem um 10 togara er að ræða eða 20, þannig að hvernig sem fer um 1. og 2. lið, kemur þessi jafnt við. Ástæðan er þessi: Þegar nýsköpunartogararnir voru keyptir, voru samtímis sett lög um stofnlánadeild sjávarútvegsins. Samkvæmt þeim l. mátti lána aðilum eins og bæjar- og sveitarfélögum 75% af andvirði togaranna. Með þessu móti hefur bæjar- og sveitarfélögum, sem annars áttu þess engan kost, verið gert kleift að festa kaup á togurum, og hefur þetta orðið til þess, að 10 af þessum nýsköpunartogurum hafa farið til bæja úti um land, sem enga möguleika hefðu haft til þess að koma upp togaraútgerð. Og ég býst við, að allir, sem þekkja til á þessum stöðum, viti, að togaraútgerðin, sem varð til upp úr þessum togarakaupum, hefur orðið þessum stöðum hin mesta lyftistöng og góður tekjustofn og skapað mjög mikla atvinnu. Þannig var hægt að beina fjármagni út á landsbyggðina og skapa þar stórrekstur. Staðir þessir nutu aðstoðar stofnlánadeildar sjávarútvegsins, og þó dugði það ekki til. 75% lán var ekki nóg. Í viðbót við það tók ríkisstj. að sér að ábyrgjast fyrir þessa staði 10% lán í viðbót, þannig að bæjarfélög eins og t.d. Siglufjörður, Akureyri, Keflavík, Akranes o.fl. fengu 85% lán frá ríkinu eða stofnlánadeild sjávarútvegsins til þess að geta keypt þessa nýju togara, og samt vitum við, að mjög erfitt var fyrir fólkið að standa undir þessum 15%, sem það þurfti að leggja fram, vegna þess hve bæirnir og fólkið var fátækt fyrir. Mörgum bæjum tókst að ná í einn togara, og þeim efnaðri, t.d. Akureyri, tókst að ná í tvo togara. Ég veit, að í þessari hv. d. er mikill áhugi fyrir því að beina fjármagni út um kaupstaði og sveitir landsins, og fólk í Rvík hefur líka áhuga fyrir þessu. Ég vona þess vegna, að þessi tilraun, sem gerð var þarna um árið og raunverulega hefur tekizt vel, hafi verið skilin til fulls og metin af þm. En nú kemur til kastanna, hvort á að halda þessari tilraun áfram. Ég vil vekja athygli þm. á því, að enginn af þessum 10 togurum kemur til með að fá lán úr stofnlánasjóði, því að ef l. verður ekki stórlega breytt, verður stofnlánadeildin drepin jafnóðum og borgað verður af nýsköpunartogurunum inn í hana. Til þess að kaupa þessa nýju togara fæst því ekkert úr stofnlánadeild sjávarútvegsins. Ef þess vegna Nd. ætlast til, að eitthvað af þessum togurum fari út um land eða til bæjarútgerðar Rvíkur eða Hafnarfjarðar sem bæjartogarar, — svo framarlega sem þessi hv. d. vill stuðla að því, að einhverjir möguleikar séu til þess, að bæjar- og sveitarfélög geti fengið alla þessa 10 nýju togara þarf að gera þessa breyt., sem ég legg til með 3. lið. Verði þessi till. ekki samþ., fer þannig með þessa nýju togara, að þeir lenda hjá þeim aðilum, sem eru nógu ríkir til þess að geta borgað nógu mikið út í þeim eða geta útvegað sér lán upp á eigin spýtur. Og hv. þm. er flestum kunnugt um það, hvernig aðstaðan er hjá bæjarfélögum að fá lán. Nú býst ég við, að ríkisstj. hafi von um að geta fengið þetta lán erlendis til 15 ára, og þess vegna legg ég til, að þetta lán, sem hún þarna getur fengið, verði að verulegu leyti notað til þess að hjálpa bæjar- og sveitarfélögum til þess að eignast þessa togara og skuli það greiðast með jöfnum afborgunum á 15 árum og vextir vera hinir sömu og ríkisstj. greiðir. — Ég vil, að Alþ. stuðli að því, að þessir togarar, hvort sem þeir verða 10 eða 20, fari til bæjar- og sveitarfélaga eða þeirra samtaka, sem mynduð hafa verið víða úti um land og bæjarfélög, samvinnufélög og ýmsir einstaklingar eru aðilar í. Þetta vil ég leggja ákaflega mikla áherzlu á, því að ég álít, að Alþ. eigi að stuðla að því, að sem mest af þessum togurum lendi í slíkum rekstri.