16.05.1949
Efri deild: 111. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

1. mál, togarakaup ríkisins

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það er að vísu hæstv. forsrh., sem stendur aðallega fyrir þessu máli fyrir stj. hönd, en með því að hann er ekki staddur hér, þá get ég minnzt á einstök atriði viðvíkjandi þeim spurningum, sem þessi hv., mjög svo spuruli þm. bar fram. Hv. þm. getur tæplega ætlazt til þess, að hann geti bara staðið hér upp, óundirbúið, og heimtað upplýsingar frá ráðh. um greiðslur og lán í svona stórfelldu máli eins og hér er um að ræða. Hv. þm. talaði um falskar ávísanir og jeppa, en hann er búinn að tala svo mikið um jeppa hér á Alþ., að ég hélt, að hann væri búinn að tæma sig í því efni. Um innflutning nýbyggingartogaranna er það að segja, að ég held, að allir, og þar með hv. 1. þm. N-M., mundu nú vilja með Ingólfi ganga hvað þá snertir. Hv. þm. bar það á mig og hv. 2. þm. Reykv., að við hefðum farið með rangt mál varðandi mannskap á togarana. Ég veit ekki til þess, að það vanti menn á nýsköpunartogarana. Gömlu togurunum hefur ekki verið lagt vegna þess, að það vanti mannskap á þá, heldur af því, að það borgar sig ekki að gera þá út. Ef í hart færi, mætti kannske fá eitthvað af ráðunautunum frá landbúnaðinum á togarana. Þeir mættu helzt missa sig. Ég kæri mig ekki um, að venjulegir sveitamenn leiti á togarana, en ef hægt væri að nota eitthvað af ráðunautunum í kolaboxin, þá mætti setja þá í það starf.

Nýbyggingarráð gaf ekki út neinar falskar ávísanir, en hitt var annað mál, að stj. landsins vissi ekki um það á þeim tíma, að togararnir mundu verða miklu dýrari en ráð var fyrir gert. Þess vegna reyndist sú upphæð, sem lögð var til hliðar til togarakaupa, að vísu nógu há til þess að standa straum af þeim, en ekki nóg í lán til allra, sem fengu þessi skip. Það hefur verið gert samkomulag við Landsbankann um þetta, svo að þeir, sem hafa fengið nýbyggingartogarana, hafa ekki þurft að bíða einn einasta dag af þeirri ástæðu, að það hafi verið tafið fyrir þeim hvað lánsmöguleika snertir. Um greiðslur á þessum togurum hefur ríkisstj.

gert sérstakt samkomulag við Landsbankann, sem ég kann ekki svo utan að, að ég vilji tala um það í einstökum atriðum. En hv. þm. N-M. er ekki bundinn við að fylgja þessu máli. Þess æskir enginn. Frv. hefur nægilegt fylgi á Alþ. Það vita allir hv. þm., að þessi hv. þm. fylgir engu góðu máli af heilum hug.