16.05.1949
Efri deild: 111. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

1. mál, togarakaup ríkisins

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Vegna þeirra manna, sem hafa keypt og eiga þessa togara, sem fluttir hafa verið inn á vegum nýbyggingarráðs á sínum tíma, vil ég leiðrétta þann misskilning, sem kom fram hjá hv. þm. N–M., að þeir hefðu ekki staðið í skilum gagnvart þeim hluta andvirðisins, sem þeir áttu að leysa af hendi. Það er ekki tal gerandi út af þeim upphæðum, sem vantar upp á, að svo sé, hjá einum eða tveimur kaupendum. Yfirleitt hafa þeir, sem skipin fengu, staðið við að greiða hið lögákveðna framlag, sem þeir áttu að láta af hendi. Hitt sagði ég, að lánasjóðurinn hefði ekki reynzt nægur til að inna af hendi vegna síðustu togaranna, þeirra allra síðustu, þau lán, sem gert var ráð fyrir, að kaupendur togaranna fengju, þegar skipin voru keypt. Og það var m.a. út af því, að skipin voru dýrari en ráð var fyrir gert, eða m.ö.o. vegna þess, að það voru 100 millj., en ekki meira, sem lagt var til hliðar í þessu skyni. Varðandi það, að þessi togarakaup hafi orðið til vanblessunar fyrir land og þjóð, þá hygg ég, að hv. þm. N–M. standi nokkuð einn um þá skoðun, eins og hann er ákaflega oft einn með sínar oft og tíðum einkennilegu skoðanir á hlutunum. Það er held ég viðurkennt, að einmitt þeir peningar, sem nýju togararnir, sem til landsins hafa komið, hafa „siglt“ inn á s.l. ári, hafi átt ákaflega mikinn þátt í því að bjarga gjaldeyrisástandi þjóðarinnar, þegar aðrar lindir þrutu. — Ég mun svo ekki fjölyrða frekar um þetta.