13.05.1949
Efri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að blanda mér í þær deilur, sem hér hafa orðið á milli manna.

Frv. þetta er borið fram og undirbúið af hæstv. menntmrh. sem heilbrmrh. Hann hafði samráð við mig, og ég játa, að ég taldi mér ekki fært að beita mér á móti nýjum tilraunum í þá átt að bæta úr því ófremdarástandi, sem nú ríkir í þessum málum, þó að ég sé um sumt vantrúaður á þær aðgerðir, sem í frv. eru ráðgerðar. Ég mundi e.t.v. hafa kosið ákvæðin sum á annan veg, ef ég hefði meiri ráð, en mér þykir eðlilegt, að aðrir ráði hér meiru, til þess að eigi verði með réttu sagt, að óviðkomandi menn hafi spillt málinu og vegna þess hafi allt farið út um þúfur. — Annars kvaddi ég mér hljóðs vegna ómaklegra ummæla hv. þm. Barð. um dr. Helga Tómasson yfirlækni. Ég þekki það af langri kynningu við hann, bæði sem mann og vegna náins samstarfs við hann sem embættismann, þegar ég var borgarstjóri hér í bæ og nú ráðh., að þau eru tilefnislaus og með öllu ómakleg. Er merkilegt að vita, hvers vegna hv. þm. hefur látið sér þetta koma til hugar. Menn getur greint á, en engin réttlæting þykir í því að veitast á bak að ágætismanni, sem getur því eigi borið hönd fyrir höfuð sér, á þann veg, sem hér hefur fram farið, og bregða honum um allar vammir og skammir, illvilja í garð vesalinga þeirra, sem hér eiga hlut að máli, og kaldlyndi til þeirra. Ekkert af þessu fær staðizt. Ég hef eigi þá þekkingu, að ég geti skorið úr um, hvort skoðanir dr. Helga séu réttari, en annarra lækna. En ég efast um, að hv. þm. Barð. sé svo dómbær á þessa hluti, að hinn harði dómur hans geti verið reistur á föstum grundvelli. Varðandi það, að ráðstöfun Kaldaðarness sé dr. Helga að kenna, þá hygg ég, að hinir hörðu dómar hafi fyrst heyrzt frá hv. þm. Barð. eftir umr. í vetur, er ég benti á, að hælið hafi verið flutt eftir till. hinna fróðustu manna — og þ. á m. dr. Helga. Og vegna þess að mat dr. Helga hefur blandazt inn í þetta Kaldaðarnesmál, sem hv. þm. Barð. telur vítavert, þá leggur hann stund á að setjast að manninum. En þótt það sé rétt, er ég sagði, að dr. Helgi Tómasson hafi eigi talið hæli þessu vel fyrir komið, þá felst eigi í því, að hann hafi ráðið hinni síðari ráðstöfun á Kaldaðarnesi, enda er persónuleg skoðun dr. Helga sú, að ráðstöfun stj. á Kaldaðarnesi hafi verið ill framkvæmd, en það haggar eigi því, að þessi maður, sem er færastur allra lækna í landinu, þeirra er fengizt hafa við þessi mál, og bæði góðviljaður og ósérhlífinn, taldi rangt að halda áfram rekstri Kaldaðarneshælis, eins og komið var. Hv. þm. Barð. talaði nú áðan eins og drykkjumannahælið hafi verið fullkomin stofnun, áður en dr. Helgi Tómasson og landlæknir eyðilögðu hana. Af hverju heldur hann, að hælið hafi verið flutt frá Kumbaravogi? Ég átti þátt í því, að hælið var sett þar upp, og ég játa, að sumir menn, er komu við rekstur hælisins, þ. á m. maður, sem ég er ekki hrifinn af sem stjórnmálamanni, hv. 6. þm. Reykv., lögðu ákaflega mikið og óeigingjarnt starf í að halda rekstri hælisins í góðu horfi. En ekkert af þessu haggar því, að Kumbaravogshælið náði eigi tilgangi sínum. Ýmsir struku þaðan, og ýmsir eða jafnvel allir lögðust í drykkjuskap, þegar þeir komu út af hælinu aftur. Enn er kunnugt um, að vistmenn gerðu verkfall, vegna þess að þeir sættu sig ekki við kjör þau, er þeir áttu við að búa, þrátt fyrir það að góðir menn legðu fram vinnu og eigi væri horft í fé. En þó að dr. Helgi kæmi hvergi nærri, þá var hælið flutt frá Kumbaravogi, af því að rekstur þess fór út um þúfur. Mér er eigi kunnugt um, hvers vegna dr. Helgi tók við hælinu. En ég býst við, að það hafi verið vegna viðurkenningar á því, að fyrri tilraun hafi farið út um þúfur, og þurfti þá að leita til fróðari manna, en dr. Helgi sagði, að þessi tilraun færi eins og hún fór. En ég taldi rétt, að áhugasamir menn, sem láta sig þessi mál miklu skipta, fengju að gera sínar tilraunir, svo að eigi væri spillt fyrir, þótt ýmsir drægju þær í efa. Ég vil taka það fram, að eigi má skilja orð mín um Kumbaravog bókstaflega. Sem meginregla var það rétt, að sú tilraun hefði misheppnazt, um leið og mennirnir komu út af hælinu.

Ég vildi láta þetta koma fram, ekki vegna þess, að ég telji þetta skipta miklu máli, heldur vegna þess, að ég vildi eigi sitja undir því, að svo ómaklega væri veitzt að slíkum ágætismanni sem ég veit, að dr. Helgi er, og hann nafngreindur hvað eftir annað og talað um hann sem meinvætt í þessu máli. En ég segi ekki, að kenningar dr. Helga séu réttari en annarra. Menn geta vel haft aðrar skoðanir um slíkt. Ég tel þó sjálfur, að till. hv. þm. Barð. séu allar fjarlægar hinu rétta og megi því ekki samþykkja þær. Hins vegar segi ég ekki, að þær séu fluttar af illvilja eða kaldranahætti. Ég veit ekki, hvor hefur réttari skoðun, og það er sök sér, þó að við köstumst á stóryrðum innan þessara veggja. En það á eigi að draga inn í nöfn þeirra manna, er ekki eru viðstaddir.

Ég hjó í það, að hv. þm. Barð. sagði, að eftir þessu frv. ætti að fara með þessa vesalinga eins og glæpamenn. En það verður eins eftir brtt. hans. Þannig er það, að ég sé aðeins eitt ákvæði í frv., sem gæti bent til þess, að með menn þessa ætti að fara sem afbrotamenn. Það er í 5. gr. stjfrv., svo hljóðandi: „Ákvæði 1.–3. greinar raska ekki ákvæðum laga um viðurlög við ölvunarbrotum, enda mega ákvæði þessara laga ekki verða því til hindrunar, að þeim viðurlögum verði komið fram.“ Þetta ákvæði ætlast hv. þm. til, að verði óbreytt. Ég veit ekki til, að hann leggi til, að gr. verði lögð niður, en sé eitthvað í frv. þess efnis, er ég gat, þá er það þessi gr. Meðan hún helzt óbreytt, eftir fram komnum brtt., þá eru afskipti löggæzlumanna óhjákvæmileg, og eiga þeir eftir sem áður að halda uppi refsingum fyrir ölvunarbrot. Það er nokkur tvískinnungur í frv., eins og það er, en er eigi síður í brtt., hv. þm. Barð. Ég tel, — hvað sem talinu um sjúkleika líður, — að þá sé sjálfsagt að halda því ákvæði, að sekta eigi þessa menn, af því að þessi bráðabirgðageðveiki sé þeim oftast sjálfráð og því eðlilegt, að þeir sæti refsingu. Og þrátt fyrir ásakanir hv. þm. Barð. í garð löggæzlumanna og þótt 5. gr. yrði felld niður, þá verður ekki umflúið, eftir 1. brtt. hans, að „menn þá, konur sem karla, sem ölvaðir eru á almannafæri, á samkomustöðum eða á heimilum og raska ró manna, gera árásir á aðra eða valda óspektum með drykkjulátum,“ skuli „flytja í sjúkrahús, sem hefur tök á að veita slíkum sjúklingum viðtöku. Það er borgaraleg skylda að aðstoða við slíka flutninga.“ Ja, hver á að flytja þessa menn á sjúkrahús? Borgaraleg skylda! En þó að ég álíti hv. þm. ákaflega borgaralega sinnaðan mann, t.d. við sín þingstörf, þá á ég eftir að sjá hann hlaupa til, ef einhver er fullur heima hjá sér að valda óróa, með drykkjulæti niðri á Hótel Borg eða að slást niður við höfn, að tosa honum heim til sín eða flytja hann í sínum einkabíl, t.d. austur að Kaldaðarnesi. Ég held, að niðurstaðan verði sú, að löggæzlumennirnir verði að taka þessa menn. Starf lögreglumannanna við að umgangast menn er vissulega svo erfitt og vandasamt, að þeir eiga frekar skilið hvatningu og vinsamlegar bendingar um meðferð síns vandasama starfs, en að hér sé ráðizt á þá sem stétt eða hóp manna og þeir sakaðir á svo freklegan hátt eins og hv. þm. Barð. gerði hér. (GJ: Vill ekki hæstv. ráðh. láta rannsaka það?) Ja, ég vildi gjarna láta rannsaka það, en þá verður líka að nafngreina menn og segja, hvenær þetta var, sem hv. þm. talaði um, og hvar.

Og þegar það hefur verið gert, þá skal ekki standa á mér að láta rannsaka það. En það þýðir ekki að koma með svona sögur, ótilgreindar og óstaðfestar. Jafnvel þó að ekki fengist önnur staðfesting en umsögn hv. þm. Barð. um þetta, þá mundi ég láta rannsaka það, þegar hann tilgreinir þetta, sem ég hef fram tekið. Og ég skora á hv. þm. Barð. að tilgreina þessa aðila, helzt hér í hv. d., til þess að ekkert fari á milli mála, eða þá að tilkynna mér sem dómsmrh. eða þá hæstaréttardómurum hér, hverjir þessir brotlegu menn eru og með hverjum hætti þetta hefur skeð, til þess að þetta verði rannsakað. Auðvitað kemur mér ekki til hugar að vefengja, að einstakir lögreglumenn hafi stundum gengið töluvert lengra eða feti framar en þeim bar að gera. Sumir lögreglumenn hafa á undanförnum árum fengið refsingu fyrir slík brot. Það hafa hins vegar í blöðunum í vetur komið fram mjög ýktar ásakanir á lögreglumenn í ákveðnu tilfelli fyrir misþyrmingu á drukknum manni. Ég fyrirskipaði þegar í stað rannsókn út af því, enda var þess óskað engu síður af lögreglunni. En ég hefði fyrirskipað þessa rannsókn, hvað sem þeirra óskum leið. Ég hef sjálfur lesið yfir alla þá rannsókn. Sumt af henni er kannske þannig, að um það má deila, en ég held, að niðurstaðan hljóti að verða sú, að í heild hafi lögreglumennirnir ekki í því tilfelli unnið til þeirra ásakana, sem á þá voru bornar, heldur þvert á móti, að þeir hafi orðið fyrir ásökunum ranglega, enda er ekki að furða, þó að eitthvað skolist í frásögn dauðadrukkinna manna, og valt að treysta því, sem þeir segja um það, hvað fyrir þá hafi borið í því ástandi. En þarna voru fleiri vitni við. Og eftir því, sem fyrir liggur í því tilfelli, hefur ekki verið talin ástæða til frekari aðgerða af hálfu þess opinbera, og hef ég þó sjálfur reynt að kynna mér til hlítar, hvort nokkuð hafi verið látið undan falla í þeim efnum. En jafnvel þó að slík tilfelli geti komið fyrir, að lögreglumenn séu misjafnir, og hljóti að koma fyrir samkvæmt mannlegu eðli og lögmáli um breytni manna, og að þeir séu sumir ekki að öllu leyti starfi sínu vaxnir, þá réttlætir það þó engan veginn slíkan óhróður og almennan dóm um þessa menn sem hv. þm. Barð. bar hér fram í hv. þd. Og það að segja, að lögreglumenn þó að þeir loki þessa menn inni, sem þeir verða að taka - taki sér yfir þeim bæði dómsvald og vald til að framkvæma dóminn, það er fjarri öllum sanni. Ef t.d. kona hringir til lögreglunnar og kvartar undan dauðadrukknum manni, eiginmanni eða syni, sem gerir lífið óbærilegt á heimilinu með ölæði sínu, hvað á þá að gera við þann drukkna mann? Verður ekki að fara með hann í fangelsi og geyma hann þar? Það er líka mikið talað um það hér og er oft talað um það í blöðum, að kjallarinn svo kallaði sé ósæmilegur sem fangageymsla, og hv. þm. Barð. hafði um það stór orð. Ég hef komið í mörg fangelsi víðs vegar, og ég hef ekki séð til jafnaðar öllu veglegri staði fyrir dauðadrukkna menn, en þarna er í þessum kjallara. Sannleikurinn er sá, að það eru oft sérstakir geymslustaðir, sem ætla verður slíkum mönnum. Það er vitað mál, að þeir tryllast og brjóta og skemma, þar sem þeir eru, og ekki sízt, þegar þeir eru settir inn. Og það er þá ekki hægt að setja þá inn í fínustu lúxusstofur, með öllum tilheyrandi vísindalegum læknistækjum við hendina. Ég held, að rekstrarkostnaður af því, ef svo væri til hagað, yrði nokkuð mikill. Nú er ég ekki með þessu að segja, að kjallarinn sé til frambúðar eða til fyrirmyndar. En það er heldur ekki of mikið gerandi úr því, í hverju ástandi kjallarinn er, - þó að ég sé ekki ánægður með það ástand, sem í þessum málum er, — og að segja, að hann sé uppeldisstofnun fyrir drykkjufýsn, er auðvitað fullkominn misskilningur. Og því miður á ég eftir að sjá, hvort verður meir fráfælandi, að menn séu settir á sjúkrahús og teknir undir læknishönd, eða hins vegar, að þeir séu settir í kjallarann. Hitt er rétt, að drykkjufýsnin er auðvitað sjúklegt fyrirbrigði. Og það er sú meginhugsun, sem réttlætir það frv., sem hér liggur fyrir. Og ofurölvun er líka sjúklegt fyrirbrigði, og þess vegna er eðlilegt, að læknir sé þarna kallaður til. En það verða engar flottar eða fram úr skarandi stofur eða geymsluklefar, sem þessir menn verða settir í fyrst til að byrja með, — og jafnvel þó að byggt væri yfir þá í Kaldaðarnesi, sem hv. þm. Barð. ætlast til, að gert sé, — meðan þeir eru viti sínu fjær fyrir sitt ofdrykkjuástand.

Ég tel sem sagt, að því fari fjarri, að frv. eins og það er sé óaðfinnanlegt. Og að sumu leyti geri ég nú kannske ráð fyrir því, að frv. hefði haft gott af því að fara í gegnum betri lögfræðilega skoðun hjá fleirum, t.d. að bæði lagadeildin og hæstiréttur hefðu skoðað það og haft nokkurn tíma til þess að velta vöngum yfir því. Ég hef ekki lagt áherzlu á það. Það hefði víst ekki orðið úr því í vetur, þó að ég hefði lagt áherzlu á það, því þó hér sé að nokkru um læknisfræðileg efni að ræða, varðar frv. mjög lögfræði og refsiframkvæmdir ekki síður. En vegna þess, hversu hörmulegt ástandið er í þessum málum, sem er ýmsum að kenna, ekki lögreglumönnum og læknum, sem eru að reyna að ráða við þetta, heldur má segja, að að sé af þjóðfélagsháttum eða aldaranda og sumpart of miklu peningaflóði hjá mönnum, sem ekki hafa þroska eða menningu til þess að verja fénu á skynsamlegri hátt, o.m.fl., sem þar kemur til greina, — en úr því að ástandið er eins og það er, hefur mér sýnzt rétt og óhjákvæmilegt að gera tilraun með svipuðum hætti og hæstv. menntmrh. leggur til og láta þá reynsluna heldur skera úr um það, hverjum breyt. þyrfti að koma að síðar. En jafnvel þó að menn sæju eitthvað, sem betur mætti fara, í upphafi, þegar setja á löggjöf um þessi mál, þá finnst mér hægt að leggja það til án svigurmæla og ádeilna á menn, sem ekki hafa aðstöðu til að geta varið sig, og allra sízt hæfir slíkt gangvart mönnum, sem lagt hafa gott til þessara mála og annarra, eins og dr. Helgi Tómasson.