21.03.1949
Sameinað þing: 51. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

42. mál, fjárlög 1949

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er skv. venju þingsins og þingsköpum, að hinar svokölluðu eldhúsumræður fari fram við frh. 1. umr. fjárlaganna. Nú hefur stundum undanfarið orðið um það samkomulag milli stjórnarandstöðunnar og ríkisstj. að fresta eldhúsumræðunum til 3. umr. Hæstv. forseti minntist á það við mig, hvort við sósíalistar vildum fallast á þennan frest, en að athuguðu máli gátum við, með tilliti til þess ástands, sem nú ríkir, ekki fallizt á að veita frestinn og óskum eftir því, að eldhúsumræðurnar fari fram við frh. 1. umr., og þar sem stjórnarandstaðan krefst þess, að haldið verði við hinni gömlu venju skv. réttum þingsköpum, þá vil ég láta það koma í ljós, að mér finnst ótilhlýðilegt, ef stjórnarflokkarnir beita meirihlutavaldi sínu til þess að veita afbrigði frá þingsköpum í þessu tilfelli. Það er því ósk Sósfl., að eldhúsumr. fari fram við frh. 1. umr.