04.04.1949
Sameinað þing: 62. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

42. mál, fjárlög 1949

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég þarf aðeins að segja örfá orð út af ummælum, sem hæstv. fjmrh. beindi til mín fyrir nokkrum dögum, þegar málið var til umr. Hann vildi láta gera nokkuð úr því, að ég hefði farið dálítið óvandlega með tölur í framsöguræðu minni fyrir minni hl. fjvn., og sérstaklega í sambandi við þann samanburð, sem ég gerði á fjárl. 1946 og því frv., sem hér liggur fyrir, með breyt. frá meiri hl. fjvn. Það er rétt, að ég gerði þennan samanburð, og samkv. þeim samanburði lítur málið þannig út, að ef samþ. verða till. meiri hl. fjvn., munu fjárl. nú verða helmingi hærri en fjárl. voru 1946. En ég gerði líka annan samanburð á ríkisreikningnum 1946 og benti á það, að ef bætast aðeins 10 millj. kr. við í frv., með till. frá meiri hl. fjvn., verða fjárl. 100 millj. kr. hærri en ríkisreikningurinn 1946. Hæstv. fjmrh. gat þess, að ekki væri rétt að miða eingöngu við fjárl., vegna þess að ríkisreikningurinn 1946 hefði orðið miklu hærri en fjárl. Þetta er alveg rétt. Það hef ég athugað og um það þarf ekki að fjölyrða. En þá benti hæstv. fjmrh. á það, að stærstu liðirnir í hækkuninni væru liðir, sem ríkisstj. hefði ekki á sínu valdi að skera niður, og vildi hann í því sambandi sérstaklega nefna fjárfrek lagafyrirmæli, sem hefðu kostað geysilega miklar fjárfúlgur. Ég var búinn að taka það fram í ræðu minni um daginn, að frá þessum mismun, sem er á fjárl. 1946 og þessu fjárlfrv., væri skylt og rétt að draga þær upphæðir, sem ríkið þarf nú að leggja fram beinlínis samkv. l. frá 1946, og jafnvel helzt þær fjárfrekustu frá 1945. Nefndi ég þá sérstaklega skólalöggjöfina, landbúnaðarlöggjöfina, tryggingal. og mig minnir raforkul. líka. Ég gat þess, að þegar tekið væri tillit til þeirra allra, mundu útgjöld ríkisins hækka um 30 millj. kr. Þessa tölu taldi ég að þyrfti að draga frá hinni miklu hækkun á fjárl. nú. Og ég gat þess, að þó að þetta væri dregið frá, þá væru allar horfur til þess, að nú yrðu fjárl. a.m.k. 60–70 millj. kr. hærri en ríkisreikningurinn 1946 og a.m.k. 100 millj. kr. hærri en fjárl. voru það ár. Og það, sem ég benti á, var, — og þessu ætla ég að ekki verði á móti mælt, enda viðurkenndi ráðh. það einnig, — að langsamlega stærsti liðurinn í þessari hækkun væru greiðslur, sem nú þarf að inna af hendi vegna hækkunar dýrtíðarinnar. Þar sem á fjárl. 1946 er ætlað til dýrtíðarráðstafana 121/2 millj., en varð á ríkisreikningnum 161/2 millj., eru í þess stað nú fyrirhugaðar til svipaðra ráðstafana 50 millj. kr. Það var þetta, sem ég lagði sérstaklega mikla áherzlu á, og ég tel, að hæstv. ráðh. hafi enga ástæðu til þess að bera mér á brýn, að ég hafi farið með rangar tölur eða nokkrar blekkingar.

Þá var það ein spurning, sem hæstv. fjmrh. beindi ekki sérstaklega til mín, en einnig til hv. form. fjvn., og það var vegna þeirrar till., sem komið hefur fram í n., að taka tekjur viðtækjaverzlunarinnar beint í ríkissjóð, í staðinn fyrir það, að útvarpið sjálft hefur haft þær til afnota. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri gaman að vita, hvaða menn það væru í fjvn., sem ekki vildu ganga inn á þá braut að taka þessar tekjur beint í ríkissjóð. Ég skal fúslega játa, að ég var einn af þeim mönnum í fjvn., sem ekki vildu gera þetta, og skal ég færa rök fyrir því. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ríkisútvarpið er húsnæðislaust, en býr í leiguhúsnæði, sem verið er að gera tilraunir til að ýta því út úr, vegna þess að sú stofnun, sem það húsnæði á, þykist þurfa á því að halda. Hv. form. fjvn. hefur lýst þessu fyrr við umr. og ennfremur nú. Vegna þessa húsnæðisleysis hefur útvarpið orðið að ganga inn á þá braut að lána vissum aðilum stórfé úr framkvæmdasjóði gegn því, að sá aðili leigi útvarpinu húsnæði. Ég fæ ekki betur séð en að þau kjör, sem þessir aðilar hljóta hjá útvarpinu, séu það góð, að þeir fái þetta húsnæði borgað upp á tiltölulega skömmum tíma. Ef fara á inn á þá braut að lána einstaklingum fé til að byggja og greiða þeim einstaklingum rándýra húsaleigu, þá sé ég ekki betur en að verið sé að láta einstaklinga féfletta ríkissjóð. Þá er heppilegra að láta tekjur viðtækjaverzlunarinnar ganga til útvarpsins og nota þær til að byggja yfir útvarpið, sem er alveg nauðsynlegt. Ég vil enn fremur benda á það, að fyrir stuttu var gengið inn á þá braut að hækka afnotagjöldin mjög mikið. Það var m.a. gert í þeim tilgangi að fá fé í framkvæmdasjóð útvarpsins, til þess að takast mætti fyrr en ella að koma upp hinum nauðsynlegu byggingum útvarpsins. En eigi nú að fara að taka aðrar tekjur frá ríkisútvarpinu í ríkissjóð, er það sama og að hækka afnotagjöldin, til þess að gera þau að tekjulind fyrir ríkissjóð. Þess vegna get ég fúslega kannast við, að ég er einn af þeim nm., sem í fjvn. greiddu atkv. móti því, að tekjur viðtækjaverzlunarinnar gengju beint í ríkissjóð. Ég vildi láta þetta koma fram, en sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð.