12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

42. mál, fjárlög 1949

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja við þessa umræðu út af brtt., sem ég sumpart er 1. flm. að eða meðflm., og þá fyrst brtt. á þskj. 704, V, sem er till. um að endurbæta veginn gegnum Selfossþorpið að Ingólfsfjalli. Þessi brtt. var flutt við 2. umr. fjárl., en var þá tekin aftur, og um greinargerð fyrir henni get ég látið nægja að skírskota til þeirra umræðna; og þarf ekki að fjölyrða um hana frekar. Sama er að segja um brtt. á sama þskj., sem merkt er IX, þar sem ég er meðflm., till. um sjóvarnargarð á Stokkseyri. Það er aðeins um að ræða brot af kostnaðinum við þetta verk, en mætti þó verða mönnum hvöt til að hefjast þar handa um að koma í veg fyrir landsspjöll, sem þarna hljóta að verða, ef ekki er að gert. Þetta eru lendur ríkisins, sem þarna eru í hættu, og væri einkennilegt, ef ekkert yrði gert af hálfu Alþ. til þess að bægja henni frá. Þarna er aðeins um litla upphæð að ræða, og ég vænti þess, að hæstv. fjmrh., sem þarna þekkir til, þyki þetta nauðsynlegt og sanngjarnt og hann stuðli að því, að þessari litlu fleytu verði siglt í höfn heilli á húfi við 3. umr.

Þá er það brtt. á þskj. 681, VIII. Þar hefur hv. 1. þm. Skagf. mælt með því að veita 50 þús. kr. til tveggja þjóðkunnra húsmæðraskóla, og má segja, að báðar skólastýrurnar hafi sýnt frábæran dugnað og elju við stofnun þeirra og rekstur, en ekki notið nema lítils styrks. Báðar hafa getið hér hinn bezta orðstír fyrir kennslustörf sín, og er almæli, að stúlkur, sem þangað hafa sótt, hafi átt þangað mikið erindi. — Það er aðeins heimildargrein, en ætlun okkar er, að þetta verði viðurkenning til þeirra, er við teljum sjálfsagða. Fjárhæðin er allt of lítil, en sökum fjárhagsörðugleika hins opinbera höfum við ekki viljað fara hærra. En það væri mjög ósanngjarnt að láta þessar konur gjalda ósérplægni sinnar og dugnaðar og sýna þess engan vott, að starf þeirra væri metið. Ég vil því vænta þess, að hv. Alþ. fallist á þessa till.

Þá er á sama þskj. brtt. merkt IX, um það, að bræðurnir á Ásólfsstöðum verði ekki krafnir um veitingaskatt. Samflm. minn hefur gert grein fyrir þessu, og þarf ég þar ekki við að bæta, en þeir, sem þekkja til gistihalds, þar sem gestir koma aðeins stöku sinnum, en allt þarf þó að vera viðbúið til að taka á móti þeim, hvenær sem vera skal, — þeir vita, að slíkt er ekki arðsamt, og á það ekki hvað sízt við þar, sem tekið er á móti gestum af slíkri höfðingslund sem á Ásólfsstöðum og ekki litið á hagnaðarvon.

Ég vænti þess, að hv. Alþ. fallist á þessar óskir, og ætla, að okkur verði ekki borið á brýn, að við séum kröfuharðir fyrir hönd umbjóðenda okkar um fríðindi þeim til handa, og þm. geti því með góðri samvizku veitt þessum till. okkar brautargengi.