11.11.1948
Neðri deild: 13. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

63. mál, lántaka handa ríkissjóði

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér skildist á hæstv. fjmrh., að hann hefði í hyggju að taka þetta lán á sama hátt og gert var í haust, ef samþykki fengist fyrir því. Það er sem sagt um nýtt happdrættislán að ræða. Ég hef ekkert við slíkt lán að athuga. En eitt atriði vildi ég samt minnast á. Hæstv. ríkisstj. ákvað þá, að vinningar skyldu vera undanþegnir öðrum gjöldum en eignarskatti. Ekki er enn séð, hvaða afgreiðslu mál þetta fær í þinginu, og er það enn í Ed., þar sem það kom fram. Ég tel mjög vafasamt að undanþiggja vinningana sköttum. Ríkissjóður greiðir í vinninga upphæð sem svarar til 5% vaxta af láninu, en þessum vöxtum er ekki skilað til allra lánveitenda, heldur aðeins til þeirra, sem eru svo heppnir að hljóta vinning, og finnst mér mjög vafasamt að undanþiggja einmitt þessa menn því að greiða hin venjulegu gjöld. Það mætti þá spyrja hæstv. ríkisstj., hvort aðrir lánveitendur ríkissjóðs ættu ekki eins að vera undanþegnir því að greiða gjöld af vaxtatekjum sínum. Og það er raunar engin ástæða, að aðeins fáir fái þessa vinninga. Ég vil beina því til hæstv. ráðherra, hvort hann vilji ekki beita sér fyrir því að reyna að fá heimild Alþ. fyrir þessu.