10.12.1948
Neðri deild: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1672)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umræður mjög, en ég get ekki látið 3. umr. málsins fara svo fram hjá, að ég vari ekki við að ganga inn á þá braut, sem hér er verið að marka. Það er ekki hægt að segja með sanni, að stjórnarandstaðan hafi verið sérlega andstæð stjórninni, þegar hún hefur viljað láta afgreiða fjárveitingar, við höfum yfirleitt afgreitt þau mál fljótt og vel með stjórninni. En ég vil benda hæstv. ríkisstj. á, hvert verið er nú að stefna. Fyrir nokkru afgreiddum við lög um 15 millj. kr. happdrættislán á einum degi. Við tókum ekki afstöðu á móti því máli, þó að við vöruðum við því að ýmsu leyti. Ég vil leggja áherzlu á, hvernig það lán er til komið. Það er runnið undan rifjum Landsbankans, tekið til að minnka skuldirnar við hann. Fólk tekur sparifé sitt út úr öllum sparisjóðum, og síðan eru skuldir við Landsbankann borgaðar með þessu fé, þ.e.a.s. það fer allt til hans. Stjórnin hefur þarna gengið erinda Landsbankans og ráðizt á aðrar lánsstofnanir um land allt til þess að soga peningana frá þeim til Landsbankans, svo að hann hafi betri aðstöðu til að einoka alla lánsfjárstarfsemi í landinu. Því næst gerist það, að Landsbankinn segir við fjmrh., að hann skuli fara í aðrar lánsstofnanir, t.d. Tryggingastofnun ríkisins, og síðan er róið í þeim dag eftir dag til þess að næla í nokkrar milljónir frá þeim. Við sósíalistar höfum ekkert sérstaklega amazt við þessu hér. En nú er mælirinn fullur. Nú vill Landsbankinn halda öllum sínum fríðindum gagnvart útveginum, reyta af honum allan gjaldeyrinn, en leggja ekkert rekstrarfé fram til að halda þessum aðalatvinnuvegi okkar gangandi. Og Landsbankinn segir stjórninni að fara til Alþ. og láta það skuldbinda alla, sem treyst hafa útgerðarmönnum og lánað þeim í því trausti, til að lána þeim áfram, þótt þessum aðilum sé lífsnauðsynlegt að fá greitt það, sem þeir eiga inni hjá útvegsmönnum. Það er m.ö.o. verið að reyna að koma á algeru einræði Landsbankans um alla lánsfjárstarfsemi, ganga á stofnanir og einstaklinga, sem lánað hafa útvegsmönnum, til þess að hlífa Landsbankanum við að láta af hendi það fé, sem helzt ætti að verja til hjálpar útveginum. Það er verið að hlífa þeirri stofnun, sem hefur grætt mest af öllum stofnunum þjóðfélagsins og grætt á útveginum. Það er verið að binda um úlnliðinn, svo að blóðrásin stoppist.

Það er til skammar, þegar ríkisstj. og Alþ. ætla að láta nota sig eins og sendisveina fyrir eina stofnun til þess að hún fái einokunaraðstöðu varðandi lánsfjárstarfsemina, það er verið að koma á fjármálaeinræði nokkurra manna með þessum aðferðum. En ýmsum stofnunum og einstaklingum hér á landi, sem hafa verið að leitast við að halda útveginum gangandi og lánað honum, þeim er refsað fyrir stuðning sinn við þennan atvinnuveg. Hjá Landsbankanum hefur útgerðin hins vegar mætt nálega fjandskap og því meiri fjandskap sem meira hefur verið reynt að gera. Hæstv. núverandi fjmrh. ætti að kannast manna bezt við þann fjandskap frá þeim tíma, er hann stóð fremstur í flokki við að gera það mesta átak til eflingar útgerðinni og atvinnulífinu yfirleitt, sem gert hefur verið hér á landi. Hvort er hann minnugur hins nálega algera skilningsleysis Landsbankans í sambandi við það átak? Þá bar Alþ. gæfu til að segja þessum herrum í Landsbankanum og sýna þeim, að þeirra húsbóndi sæti við Austurvöll. Þjóðin þakkaði Alþ. þá, er það tók ráðin af þessum fjármáladrottnum, og þeirrar röggsemi nýtur hún nú á svo mörgum sviðum þjóðlífsins. En svo skeður það, að þessir herrar í Landsbankanum senda ráðh. til að tæma allar lánsfjárstofnanir að lánsfé nema Landsbankann, svo að þetta fjandsamlegasta vald útgerðinni hafi öll ráð hennar í hendi sér. Ég vil ekki vera með í þessum leik, láta nota mig þannig, og því er ég á móti þessu frv., og er þó örðugt að vera á móti því af þeirri ástæðu, að 1. gr. frv. er nauðsyn. Ég tel það ekki vansalaust fyrir Alþ. að láta hafa sig þannig, og ég veit, að ýmsa þingmenn, eins og hæstv. fjmrh., mun svíða undan að fylgja þessu fram, eins og það er, og ganga erinda Landsbankans. Einhvern tíma verður Alþ. að segja stopp við herrana þar, það hefur borið gæfu til þess áður, og nú er kominn tími til þess öðru sinni, áður en blóðrásin stöðvast alveg í þjóðarlíkamanum. Það væri hægt að skilja þessa yfirdrottnun Landsbankans, ef hann væri í einkaeign. En meðan Landsbankinn er til vegna laga frá þessu þingi, meðan ráðherra hefur heimild til að setja bankastjóra frá hvenær sem er, þá er þessi undirlægjuháttur við Landsbankann óskiljanlegur. Við skulum hugsa okkur, að við lifðum á því að flytja út saltkjöt til Noregs, SÍS flytti út allt saltkjöt og það væru l., sem skylduðu SÍS til að afhenda allan gjaldeyri til Landsbankans og þessi gjaldeyrir færi til heildsalanna í Reykjavík frá Landsbankanum. Við skulum hugsa okkur, að Jón Árnason væri fjmrh., sem hefði valdið yfir bönkunum. Við getum verið alveg vissir um, hvað svoleiðis maður mundi gera, ef Landsbankinn ætlaði að fara að haga sér eins og hann gerir nú gagnvart útgerðinni. Ég er hræddur um, að Jón Árnason sem ráðh. setti hnefann í borðið og segði: Þið fáið ekki mikinn gjaldeyri til Landsbankans, ef þið ætlið að haga ykkur svona, — og ég er hræddur um, að það yrði gugnað fyrir þeim hnefa. Það er sannarlega engin ástæða fyrir Alþ. eða sjávarútveginn að fara eftir því, hvað einhver embættismaður segir. Þetta vildi ég aðeins segja í sambandi við það, sem hæstv. fjmrh. minntist á, vandræði útvegsins. Ég held, að mestu vandræðin séu jafnvel sú skammsýna og fjandsamlega stjórn, sem ræður yfir aðalbankastofnun landsins og hefur einokunarvald í fjármálum landsins. Það er þetta vald, sem er að drepa atvinnuvegi landsins, svo framarlega sem þetta heldur svona áfram. Það er margt, sem ég vildi ræða frekar, en vegna þess að þetta er aðalatriðið í brtt., sem þarf að höggva á, ef við ætlum ekki að láta þetta allt fara í vitleysu, þá vil ég leggja aðaláhersluna á þetta í umr.