15.12.1948
Neðri deild: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

102. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Pétur Ottesen:

Það er vissulega alvarlegt mál fyrir Íslendinga að ljá máls á því að leyfa erlendum þjóðum not af landhelginni hér. Við erum bundnir samningum um takmörk íslenzkrar landhelgi, sem Danir gerðu við Englendinga á sínum tíma að Íslendingum forspurðum. Þessir samningar hafa orðið okkur ákaflega þungir í skauti, og því þyngri sem tímar hafa liðið fram, og enn hefur okkur ekki reynzt kleift að létta af okkur þessu oki. En vonandi líður nú brátt að leikslokum í þessu efni, því Íslendingar herða nú sóknina um rýmkun landhelginnar og alfriðun á fjörðum og flóum fyrir botnvörpu- og dragnótaveiðar. Því varhugaverðara er þá að ljá máls á því að opna þessa þröngu landhelgi eins og hér er gert. Það er að vísu rétt, að hér eru nokkrar skorður settar, þar sem heimildin miðast eingöngu við handfæraveiði, sem þó bæði nær til stærri og minni skipa og viðlegu í landi, þegar því er að skipta.

Þetta mál hefur fleiri hliðar, ég vil t.d. benda á (fyrir utan fordæmið, sem með þessu er gefið), að í ár hefur allt til þessa horft uggvænlega með beitu til þorskveiðanna í vetur, nokkuð hefur þó rætzt úr þessu, en ekki fullnægjandi. Síld, sem fryst var fyrir norðan s.l. sumar til beitu, var nær öll seld Færeyingum samstundis, en þeir stunduðu veiðar jöfnum höndum innan og utan landhelgi. Vegna þessarar sölu til Færeyinga hefur orðið að kaupa síld frá Noregi handa ísl. veiðiflotanum til nota á vetrarvertíðinni, miklum mun lakari beitu. Það er vitað mál, að aðstaða Færeyinga á þilskipum er allt önnur, af því að þeir hafa afnot af íslenzkri landhelgi. Ég vil því eindregið vara við þessu fordæmi. Þó að þessi veiðiréttindi séu takmörkuð, eru þau þó allveruleg og stundum jafnvel beint til tjóns Íslendingum.

Mér skildist á hæstv. utanrrh., að hann óskaði ekki að öðru leyti eftir umræðum nú í sambandi við uppgjör vegna skilnaðar Íslands og Danmerkur, þó að þetta mál sé við skilnaðinn tengt í fyrirsögn frv. Ég vil því ekki að þessu sinni fara nánar út í þau mál, þótt það væri t.d. freistandi að spyrja, hvað liði endurheimt skjala og verðmætra íslenzkra gripa úr dönskum söfnum. En ég skal ekki fara út í það, ef hæstv. ráðh. álítur heppilegra að ræða það undir öðrum kringumstæðum, né krefja hann svars um þessi atriði.