16.12.1948
Efri deild: 39. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

102. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Hv. 3. landsk. þm. segist ekki vita, hvort Danir hefðu skipað nefnd til þess að semja við okkur um þau mál, sem eru afleiðingar sambandsslitanna. Það er nú vitað mál, að strax á árinu 1945 voru skipaðar nefndir af báðum þjóðunum til slíkrar samningagerðar. Í n. áttu sæti af Íslendinga hálfu Jakob Möller, nú sendiherra, sem varð sendiherra einmitt um sama leyti í Danmörku, Stefán Jóh. Stefánsson, nú forsrh., Eysteinn Jónsson, nú menntmrh., og Kristinn Andrésson, þáverandi alþm. Þessir menn eru í n. af Íslands hálfu, og hefur einmitt verið haft nokkurt samráð við þá um það, sem frekar hefur gerzt í málinu. Þessir menn fóru út sumarið 1946 og höfðu með sér a.m.k. einn sérfræðing, Ólaf Lárusson, og hófu samninga og komust þá að niðurstöðu um það, sem mestu máli skipti í þessu, þ.e.a.s. um það, hvernig færi með rétt þeirra danskra og íslenzkra borgara, sem búsettir væru í hvoru landinu fyrir sig utan síns heimalands og höfðu áður notið jafnréttisákvæða sambandslaganna. Íslendingar hafa síðan lögfest þessi fyrirmæli hjá sér, en Danir munu enn þá hafa formlega í gildi sambandslögin, eða þeir hafa haft þau lög í gildi a.m.k. til skamms tíma. — Aftur á móti er það einnig vitað, að Danir skipuðu nefnd til þess að semja við þessa Íslendinga. Ég man ekki til hlítar, hverjir voru í henni af Dönum. En í henni voru direkter Mahr, Halvdan Hendriksen og Hans Hedtoft, og einhverjir fleiri voru í nefndinni. Og ég man, að þeir komu hingað til áframhaldandi samningagerðar 1946, en danska nefndin óskaði svo eftir, að íslenzka nefndin gengi til samningagerðar við Danmörku 1947. Mest voru þetta þó veizluhöld árið 1946, sem við urðum að endurgjalda í Danmörku. En þá hafði nú svo skipazt, að tveir nefndarmannanna íslenzku voru ráðherrar og áttu ekki heimangengt, en Kristinn Andrésson sjúkur, svo að af þeim ástæðum var ekki farið til Dana um þetta þá. Og er það ein ástæðan fyrir því, að dregizt hefur að ganga endanlega frá þessu.

Það er ekki nokkur vafi á, að Danir hafa margviðurkennt sambandsslitin, sem m.a. kemur fram í því, að þetta frv., sem hér liggur fyrir nú, er beinlínis flutt samkvæmt óskum dönsku stjórnarinnar. Ef Danir héldu fram, að sambandslögin væru í gildi sem samningur gagnvart Íslandi, þá mundu þeir ekki óska eftir þessu, því að þá mundu þeir halda fram, að Færeyingar mættu fiska hér án sérstakrar löggjafar nú af okkar hálfu. Nú er óskað eftir því eftir diplomatískum leiðum, að við samþykkjum þetta nú, nánast af greiðasemi, þangað til endanleg skipun verður fengin um það. Og það er bein viðurkenning og yfirlýsing þess, sem aldrei hefur verið efazt um frá því 17. júní 1944, að Danir viðurkenna, bæði að lögum og í framkvæmd, sambandsslitin. Hinu ráðum aftur á móti við ekki, hvaða rétt Danir veita svo íslenzkum borgurum í Danmörku — alveg eins og við gætum, ef við vildum, veitt t.d. Dönum, Kínverjum eða ýmsum öðrum mikinn rétt hér á Íslandi, án þess að nokkra samninga þyrfti við þeirra ríkisstjórnir að hafa um það. Það væri mál, sem við gætum gert upp á okkar eigin spýtur. Eins geta Danir veitt okkar mönnum í Danmörku meiri rétt en íslenzka stjórnin út af fyrir sig óskaði eftir. Og það væri beinlínis óviðeigandi af íslenzku ríkisstj. að setja út á frekari réttarveizlu af þeirra hálfu til okkar manna, en þeir eru skyldugir til. En ég hygg þó, að Danir hafi séð um það að gera sjálfum sér ekki tjón í þessum efnum, þannig að það verði þeim til skaða. — Annars hefur verið bezta samvinna um þessi efni við Dani og fullrar góðvildar þar að mæta af hálfu danskra stjórnarvalda.

Hv. 3. landsk. þm. taldi óviðeigandi, að mér heyrðist, að kóróna væri yfir þessum stóli, sem ég sit í, og kannske þá líka á alþingishúsinu. — Mér er sagt, að á Spáni sé það síður, að þegar byltingar verða, þá sé dreginn strigapoki yfir kórónuna á konungshöllinni, til þess að hún sjáist ekki, meðan lýðveldið varir. — Nú hef ég ekki séð sérstaka ástæðu til þess að beita mér fyrir því, að belgur væri dreginn yfir kórónuna, hvorki á alþingishúsinu né þessum stóli, eða hún söguð af, vegna þess að t.d. á alþingishúsinu og dómkirkjunni og á þessum ráðherrastólum líka er þetta, kórónan, og annað, sem minnir á konunginn, tákn þess, hvenær þessir hlutir voru gerðir, sem merki um það t.d., að þetta hús var reist í tíð ákveðins konungs og að dómkirkjan var endurbyggð í tíð ákveðins konungs og annað slíkt. En með því að taka þessi tákn burt væri verið að reyna að dylja það, sem ekki er ástæða til að dylja, að þessir hlutir eru frá vissu tímabili í sögu Íslendinga. Og okkar lýðveldi er alveg jafnöruggt þrátt fyrir þessi gömlu merki. Og þess vegna finnst mér ástæðulaust að amast við þessu.